Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1114, 121. löggjafarþing 238. mál: almenningsbókasöfn (heildarlög).
Lög nr. 36 16. maí 1997.

Lög um almenningsbókasöfn.


1. gr.

     Almenningsbókasöfn eru upplýsinga- og menningarstofnanir. Hlutverk þeirra er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Þau skulu efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlum. Söfnin skulu hvert á sínu þjónustusvæði kappkosta að vera menningarstarfi og atvinnulífi til styrktar og hafa tiltækar upplýsingar fyrir almenning um opinberar stofnanir og þjónustu. Markmið þeirra skal vera að efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og örva lestraráhuga.
     Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.
     Almenningsbókasöfn skulu hvert og eitt haga starfi sínu þannig að komið verði við sem öflugastri samvinnu bókasafna í landinu um þjónustu við notendur.

2. gr.

     Til almenningsbókasafna teljast:
  1. bókasöfn fyrir almenning sem sveitarfélög reka,
  2. bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum, rekin af hlutaðeigandi stofnunum.


3. gr.

     Sveitarfélögum er heimilt að sameinast um rekstur almenningsbókasafns með myndun byggðasamlags eða öðrum hætti sem samræmist sveitarstjórnarlögum.

4. gr.

     Heimilt er að sameina almenningsbókasafn og bókasafn grunnskóla, enda sé gerður um það skriflegur samstarfssamningur milli bókasafnsstjórnar og skólanefndar með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna. Við slíka sameiningu skal gera ráð fyrir greiðum aðgangi almennings að þjónustu safnsins utan skólatíma.
     Heimilt skal og að stofna til samningsbundins rekstrar- eða þjónustusamstarfs milli almenningsbókasafns og bókasafns við skóla á framhaldsskóla- eða háskólastigi þar sem slík tilhögun telst henta vegna sérstakra aðstæðna.

5. gr.

     Landið skiptist í bókasafnsumdæmi. Menntamálaráðherra ákveður skiptinguna í reglugerð að fengnum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í hverju bókasafnsumdæmi er eitt umdæmissafn sem rækir þjónustu við umdæmið. Öllum bókasöfnum í hverju umdæmi ber að efla samvinnu sín í milli.

6. gr.

     Sveitarfélög í hverju bókasafnsumdæmi ákveða í sameiningu hvaða almenningsbókasafn í umdæminu skuli gegna hlutverki umdæmissafns. Menntamálaráðherra ákveður í reglugerð hvaða skilyrðum, m.a. um sérmenntað starfslið, safnkost, aðföng, tæknibúnað og afgreiðslutíma, bókasafn þurfi að fullnægja til að gegna hlutverki umdæmissafns.
     Umdæmissafn skal veita öðrum söfnum í umdæminu faglega ráðgjöf, efla samvinnu safna og vera upplýsingamiðstöð umdæmisins.
     Umdæmissafn skal eftir föngum lána eða útvega öðrum söfnum og íbúum í umdæminu þann safnkost sem þau vanhagar um.
     Umdæmissafni er heimilt að inna af hendi bókasafnsþjónustu við félög og stofnanir, t.d. skóla og sjúkrahús, og er heimilt að taka greiðslu fyrir þá þjónustu.
     Í hverju umdæmissafni skal kappkosta að koma upp upplýsingaþjónustu eða deild sem tengist atvinnulífi í umdæminu.

7. gr.

     Fyrir hverju almenningsbókasafni á vegum sveitarfélaga skal vera 3–5 manna stjórn, kjörin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum. Kjörtímabil bókasafnsstjórnar er hið sama og sveitarstjórnar.
     Sveitarstjórn setur bókasafnsstjórn erindisbréf. Standi sveitarfélög saman að rekstri bókasafns skal í samstarfssamningi kveða á um aðild hvers og eins þeirra að bókasafnsstjórn og um verkefni hennar. Sama gildir að því er varðar stjórnir umdæmissafna.

8. gr.

     Sveitarfélög ráða starfslið almenningsbókasafna sem á vegum þeirra starfa, sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og búa það nauðsynlegum búnaði.
     Við mannaráðningar skal tryggja eftir föngum að almenningsbókasöfn hafi á að skipa starfsfólki með sérmenntun sem hæfir verksviði safnanna. Forstöðumaður almenningsbókasafns skal, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði eða jafngildu námi.
     Við hönnun bókasafnsbygginga, svo og við kaup eða leigu húsnæðis fyrir bókasafn, skal þess gætt að safnið sé öllum aðgengilegt.

9. gr.

     Framlög til almenningsbókasafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
     Standi sveitarfélög sameiginlega að rekstri almenningsbókasafns skal í samstarfssamningi kveðið á um skiptingu kostnaðar og þá m.a. tekið tillit til staðsetningar safnsins. Í samkomulagi um umdæmissafn, sbr. 6. gr., skal kveðið á um framlög sveitarfélaga í bókasafnsumdæminu til safnsins vegna hlutverks þess sem umdæmissafns.

10. gr.

     Í öllum sjúkrahúsum landsins, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum skal vera bókasafn sem hlutaðeigandi stofnun kostar og rekur. Heimilt er þó stofnun að semja við almenningsbókasafn í byggðarlaginu um bókasafnsþjónustu gegn greiðslu hæfilegrar þóknunar.
     Stjórn stofnunar skipar vistmannabókasafni stjórn og setur henni erindisbréf.

11. gr.

     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stuðlar að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veitir þeim faglega ráðgjöf og á við þau samstarf, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um stofnunina og reglugerð á grundvelli þeirra.

12. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna almenningsbókasafna og hefur eftirlit með því að ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim sé framfylgt.
     Almenningsbókasöfn skulu árlega láta í té skýrslu til menntamálaráðuneytisins um fjármál og starfsemi hvers safns. Heimilt er ráðuneytinu að fela öðrum aðilum að hafa umsjón með öflun þessara upplýsinga og úrvinnslu þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

13. gr.

     Menntamálaráðherra skipar ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna til þriggja ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, annar af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og hinn þriðji af Bókavarðafélagi Íslands. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
     Ráðgjafarnefndin veitir umsögn um erindi sem menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, einstakar sveitarstjórnir, bókasafnsstjórnir eða forstöðumenn almenningsbókasafna vísa til hennar. Nefndin getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til þessara aðila.

14. gr.

     Ríkissjóður greiðir árlega 12.300 þús. kr. í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í þeim söfnum sem lög þessi gilda um. Þessi fjárhæð skal endurskoðuð árlega til samræmis við verðlag í landinu samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.
     Sérstaka reglugerð skal setja um Rithöfundasjóð Íslands í samráði við Rithöfundasamband Íslands.

15. gr.

     Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Reglugerðin skal undirbúin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og samráð haft við Bókavarðafélag Íslands.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1997. Um leið falla úr gildi lög nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Árin 1997–2001 leggur ríkissjóður fram fé, eigi minna en 4 millj. kr. hvert ár, til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet. Fénu má verja til að veita bókasöfnum styrki til kaupa á tölvubúnaði í þessu skyni, svo og til þess að halda námskeið fyrir bókaverði og gefa út fræðsluefni fyrir almenning um hvernig færa megi sér í nyt nýja upplýsingatækni. Einnig er heimilt að veita af þessu fé styrki til annarra þróunarverkefna í þágu almenningsbókasafna, einkum rannsókna og fræðslu. Menntamálaráðherra setur reglur um notkun fjárins, þar á meðal um styrkskilmála, og tekur ákvörðun um úthlutun framlaga að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar um málefni almenningsbókasafna, sbr. 13. gr.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1997.