Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1232, 121. löggjafarþing 409. mál: stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.
Lög nr. 50 22. maí 1997.

Lög um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.


I. KAFLI
Stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankana.

1. gr.

     Stofna skal hlutafélag um Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar. Hlutverk félaganna er að hafa á hendi þá starfsemi sem viðskiptabönkum er heimil samkvæmt lögum.
     Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskiptabanka um sig til hlutafélaganna.

2. gr.

     Við gildistöku laga þessara skipar viðskiptaráðherra tvær þriggja manna undirbúningsnefndir sem hvorri um sig er ætlað að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar hlutafélags um hvorn ríkisviðskiptabankanna. Nefndirnar annast undirbúning löggerninga er varða stofnun hlutafélagsbankanna og fyrirhugaða starfsemi, í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka. Löggerningar þessir skulu að því er varðar verkefni sem bankaráð og bankastjórn fer með skv. 39. og 41. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, hljóta staðfestingu hlutaðeigandi aðila, og þá bankaráða og bankastjórna ríkisviðskiptabankanna þar til bankaráð og bankastjórar hlutafélagsbankanna taka til starfa. Viðskiptaráðherra setur nefndunum erindisbréf.
     Nefndir skv. 1. mgr. skulu hafa fullan aðgang að gögnum hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka þrátt fyrir ákvæði um þagnarskyldu skv. 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Skulu stjórnendur og starfsmenn ríkisviðskiptabankanna veita nefndarmönnum viðkomandi nefndar nauðsynlega aðstoð. Nefndarmenn eru bundnir af 43. gr. laga nr. 113/1996.

3. gr.

     Hinn 1. janúar 1998 tekur Landsbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Búnaðarbanka Íslands og skal viðskiptaráðherra þá hafa veitt hlutafélagsbönkunum starfsleyfi skv. II. kafla laga nr. 113/1996.
     Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu lagðir niður þegar nýir hlutafélagsbankar taka til starfa skv. 1. mgr.
     Kjósa skal bankaráð hvors hlutafélagsbanka á stofnfundum sem haldnir skulu fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Umboð bankaráða Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem síðast voru kjörin af Alþingi skv. 27. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. nú lög nr. 113/1996, falla niður þegar nýir hlutafélagsbankar hafa tekið til starfa skv. 1. mgr.

II. KAFLI
Hlutafé, hlutir og meðferð hlutafjár.

4. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

5. gr.

     Við stofnun Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs.
     Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka við stofnun. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka sé eigi hærri en sem nemur eigin fé Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi ársins 1996.
     Ráðherra skipar sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka skv. 2. mgr. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1997. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. eiga við um störf nefndarinnar. Viðskiptaráðherra setur nefndinni erindisbréf.

6. gr.

     Viðskiptaráðherra ákveður skiptingu hlutafjár í hluti.
     Sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. er óheimil án samþykkis Alþingis.
     Þrátt fyrir 2. mgr. getur ráðherra, til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má þó ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.

7. gr.

     Ákvæði 6. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gildir ekki um innborgun hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.
     Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

III. KAFLI
Réttindi starfsmanna.

8. gr.

     Allir starfsmenn Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum.
     Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf., og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands fellur niður er hann tekur við starfinu.

9. gr.

     Um ráðningu og starfskjör bankastjóra, staðgengla bankastjóra, forstöðumanns endurskoðunardeildar og eftir atvikum aðstoðarbankastjóra Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög.

10. gr.

     Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

11. gr.

     Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, sem verða til vegna starfsmanna ríkisviðskiptabankanna áður en rekstur þeirra er yfirtekinn af Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og til staðar eru samkvæmt reglugerðum eftirlaunasjóðanna eins og þær eru á því tímamarki sem greinir í 3. gr., ef ekki nást á einhverjum tíma samningar um aðra tilhögun. Hið sama gildir um lífeyrisskuldbindingar ríkisviðskiptabankanna aðrar en skuldbindingar gagnvart eftirlaunasjóðunum.
     Nú reynir á ábyrgð 1. mgr. og skal þá greiðsluhlutfall ríkissjóðs annars vegar og viðkomandi hlutafélagsbanka hins vegar vera hið sama og hlutfallslegur starfstími viðkomandi starfsmanns hjá hvorum aðila um sig.

12. gr.

     Um kjarasamninga Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. við starfsmenn skal fara samkvæmt lögum nr. 34/1977, um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.

IV. KAFLI
Ríkisábyrgð á innlánum og lántökum.

13. gr.

     Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum innlendum og erlendum skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem stofnað er til áður en rekstur hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka er yfirtekinn af Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. Ábyrgð ríkissjóðs er eins og til hennar er stofnað og gildir uns viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd. Um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum fer þó skv. 2. mgr. og um ábyrgð ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum ríkisviðskiptabankanna fer skv. 11. gr. laga þessara.
     Ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum fellur niður við yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Þó ber ríkissjóður ábyrgð á bundnum innstæðum hafi þær verið lagðar inn fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Ríkisábyrgðin fellur niður þegar viðkomandi innstæða er laus til útborgunar að loknum binditíma.
     Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. umfram það sem kveðið er á um í lögum þessum og í hlutafélagalögum.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.

14. gr.

     Innlánsreikningar við Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands flytjast til viðkomandi hlutafélagsbanka við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu. Auglýsingarnar skulu birtar með u.þ.b. tveggja vikna millibili, og skal hin fyrri birt a.m.k. 30 dögum fyrir yfirtöku Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á ríkisviðskiptabönkunum.

15. gr.

     Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu tiltekinna útibúa Landsbanka Íslands eða Landsbanka Íslands almennt, verður hjá samsvarandi útibúi Landsbanka Íslands hf. eða almennt hjá Landsbanka Íslands hf. eftir því sem við á hverju sinni þegar Landsbanki Íslands hf. hefur tekið til starfa. Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Landsbanka Íslands, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu Landsbanka Íslands og aðild að dómsmálum sem Landsbanki Íslands rekur eða rekin eru gegn Landsbanka Íslands. Landsbanki Íslands skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
     Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu tiltekinna útibúa Búnaðarbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands almennt, verður hjá samsvarandi útibúi Búnaðarbanka Íslands hf. eða almennt hjá Búnaðarbanka Íslands hf. eftir því sem við á hverju sinni þegar Búnaðarbanki Íslands hf. hefur tekið til starfa. Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Búnaðarbanka Íslands, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu Búnaðarbanka Íslands og aðild að dómsmálum sem Búnaðarbanki Íslands rekur eða rekin eru gegn Búnaðarbanka Íslands. Búnaðarbanki Íslands skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
     Vistunarstaður skjala sem innheimt skulu hjá tilteknum útibúum Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands verður samsvarandi útibú viðkomandi hlutafélagsbanka eftir yfirtöku þeirra síðarnefndu á viðkomandi ríkisviðskiptabanka. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
     Um auglýsingar samkvæmt þessari grein fer skv. 14. gr. laga þessara.

16. gr.

     Innköllun til lánardrottna Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands skal eigi gefin út.

17. gr.

     Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.

18. gr.

     Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Búnaðarbanka Íslands. Um skattskyldu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. fer að öðru leyti eftir lögum um skattskyldu lánastofnana.

19. gr.

     Þar sem Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hefur verið falið í lögum að sinna sérstökum verkefnum taka Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. við þeim réttindum og skyldum eftir því sem við á.
     Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands vegna yfirtöku ríkisviðskiptabankanna á sparisjóðum.

20. gr.

     Um hlutafélagsbanka samkvæmt lögum þessum gilda að öðru leyti en leiðir af ákvæðum laga þessara ákvæði um starfsemi hlutafélagsbanka samkvæmt lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eftir því sem við á.

21. gr.

     Allur kostnaður af stofnun hlutafélaga og yfirtöku þeirra á rekstri Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands greiðist af Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.