Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1378, 121. löggjafarþing 234. mál: samningsveð.
Lög nr. 75 28. maí 1997.

Lög um samningsveð.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreiningar.
     1. Með veðrétti er í lögum þessum átt við forgangsrétt til þess að leita fullnustu fyrir kröfu (veðkröfu) í tilteknu fjárverðmæti eða fjárverðmætum (veðinu).
     2. Með sjálfsvörsluveði er í lögum þessum átt við veðrétt þar sem veðsali heldur umráðum hins veðsetta þrátt fyrir veðsetninguna.
     3. Með handveði er í lögum þessum átt við veðrétt þar sem veðsali er sviptur umráðum hins veðsetta.

2. gr.

Gildissvið.
     1. Víkja má frá ákvæðum laga þessara með samningi nema annað sé tekið fram eða megi leiða af atvikum.
     2. Með samningi verður veðréttur einungis stofnaður þannig að gildi hafi að lögum að slík veðstofnun sé heimiluð í lögum þessum eða öðrum lögum.
     3. Ákvæði laga þessara víkja fyrir sérákvæðum um samningsveðsetningar í öðrum lögum.

3. gr.

Heimild til veðsetningar. Sérgreining hins veðsetta.
     1. Veðréttur verður eigi stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða eignast kann.
     2. Þegar réttindi eru háð þeim takmörkunum að þau eru ekki framseljanleg, eða einungis framseljanleg með vissum skilyrðum, gilda sömu takmarkanir hvað varðar heimild til þess að veðsetja réttindin.
     3. Umfram það sem lög þessi eða önnur lög leyfa er eigi heimilt að setja að sjálfsvörsluveði safn af munum sem eru samkynja eða ætlaðir til samkynja notkunar og eru einkenndir einu almennu nafni.
     4. Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar. Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.

4. gr.

Tilgreining veðkröfunnar.
     1. Þegar samningsveð öðlast réttarvernd við þinglýsingu er það skilyrði réttarverndar að fjárhæð veðkröfu eða hámark þeirrar kröfu, sem veðið skal tryggja, sé tilgreint í skjali því sem stofnar til veðréttarins.
     2. Fjárhæð veðkröfu skv. 1. mgr. skal tilgreind í íslenskum krónum, erlendri mynt eða reiknieiningu sem hefur skráð gengi í íslenskum bönkum og sparisjóðum eða reiknieiningu sem tekur mið af skráðu gengi erlendra gjaldmiðla.
     3. Heimilt er í veðbréfi að binda fjárhæðir við hækkun samkvæmt vísitölu eða gengi, enda sé það tilgreint í bréfinu sjálfu og þar komi fram tegund og grunntala verðtryggingar.

5. gr.

Sérreglur um kröfur varðandi kostnað, vexti o.fl.
     Eftirtaldar kröfur eru tryggðar með aðalkröfunni nema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins stofnaði:
  1. kostnaður sem veðhafi hefur af innheimtu veðkröfu,
  2. vextir af skuld sem fallið hafa í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar var sett fram,
  3. krafa sem er þannig til komin að veðhafi hefur samkvæmt heimild í veðbréfi greitt iðgjöld brunatryggingar eða annarrar skaðatryggingar af hinni veðsettu eign og um er að ræða iðgjald sem fallið hefur í gjalddaga á því tímamarki sem um ræðir í b-lið hér að framan.


6. gr.

Um töku arðs af veði.
     1. Þegar um sjálfsvörsluveð er að ræða á veðsali rétt til þess að hirða arð af veðinu.
     2. Sá sem á veðrétt í viðskiptabréfum, innlausnarbréfum eða almennum fjárkröfum getur krafið um og móttekið vexti, arð og afborganir sem falla til á gildistíma veðsetningarinnar. Fjárhæðum þeim, sem veðhafi þannig veitir viðtöku, getur hann ráðstafað til fullnustu gjaldfallinna vaxta af veðkröfunni og gjaldfallinna hluta höfuðstóls kröfunnar. Það sem umfram er getur eigandi (veðsali) krafist að fá greitt hjá veðhafa. Ef innleysa þarf veðsett skjal eða kröfu má veðhafi veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni, að því marki sem slíkt er nauðsynlegt, þar með talið til tryggingar ógjaldföllnum hlutum veðkröfunnar. Ef hlutafé í hlutafélagi er hækkað með útgáfu jöfnunarhlutabréfa nær veðréttur í hlutabréfum einnig til hins hækkaða hlutafjár nema um annað sé samið í veðbréfi.

7. gr.

Afnotaréttur, viðhalds- og vátryggingarskylda.
     1. Þegar um sjálfsvörsluveð er að ræða hefur veðsali heimild til þess að hagnýta sér veðið með venjubundnum hætti nema um annað hafi verið samið, aðfararreglur leiði til annarrar niðurstöðu eða takmarkanir séu á því gerðar í öðrum lögum.
     2. Sjálfsvörsluveðhafi er skyldur til þess að annast um veðið og halda því við á þann hátt að tryggingarréttindi veðhafa skerðist ekki.
     3. Ef handveðsett lausafé er afhent veðhafa er hann skyldur til þess að annast um veðið og hafa eftirlit með því á þann hátt sem nauðsyn krefur hverju sinni. Hann hefur ekki heimild til þess að hagnýta sér veðið í eigin þágu nema um slík afnot hafi verið samið sérstaklega eða slík afnot séu heimil á öðrum grundvelli.
     4. Þegar um er að ræða samningsveð í fasteignum, skipum og loftförum, rekstrartækjum eða vörubirgðum er veðsali skyldur til að vátryggja veðið vegna brunatjóns og annars skaða á þann hátt sem lög áskilja eða venja er til.

8. gr.

Áhætta og ábyrgð vegna tjóns á hinu veðsetta.
     1. Ef veðið eyðileggst eða skemmist af tilviljun ber eigandinn sitt tjón og veðtrygging veðhafa skerðist að sama skapi.
     2. Eigandi og veðhafi eru skaðabótaskyldir hvor gagnvart öðrum samkvæmt almennum skaðabótareglum eða á sérstökum grundvelli.

9. gr.

Um eindögun veðkröfu.
     1. Þótt eigi sé kominn gjalddagi kröfu getur veðhafi krafist eindögunar kröfu sinnar í eftirgreindum tilvikum:
  1. þegar skylda til greiðslu vaxta og afborgana hefur verið vanefnd verulega,
  2. þegar ákveðin hefur verið nauðungarsala á hinu veðsetta,
  3. þegar bú skuldara eða eiganda veðs er tekið til gjaldþrotaskipta,
  4. þegar eigandi eða veðsali misnotar í verulegum atriðum umráðarétt sinn yfir veðinu eða vanefnir með öðrum hætti verulega skyldur sínar skv. 7. gr. laga þessara,
  5. þegar veðið eyðileggst eða skemmist af tilviljun og það leiðir til þess að veðtryggingin skerðist verulega,
  6. þegar veðið er selt, enda hafi veðhafi áskilið sér heimild til eindögunar í veðbréfi.

     2. Áður en eindögunar verður krafist skv. d-lið 1. mgr. skal veðhafi með hæfilegum fresti gera eiganda eða veðsala viðvart og gefa þeim kost á að efna skyldur sínar réttilega nema því aðeins að frestur geti leitt til tjóns.
     3. Ef ákvæði í veðsamningi heimilar eindögun veðskuldar í öðrum tilvikum en þeim sem greind eru í 1. mgr. er heimilt að víkja slíku ákvæði til hliðar í heild eða að hluta eða breyta því ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig.

10. gr.

Framsal og veðsetning á veðrétti.
     1. Gagnvart eiganda (veðsala) getur veðhafi framselt veðrétt sinn og sett hann að veði, framveðsett, nema um annað hafi verið samið eða slíkar takmarkanir megi leiða af atvikum.
     2. Ef krafa sú, sem tryggja skal, verður ekki framseld gildir hið sama um veðréttinn til tryggingar kröfunni.
     3. Framsalshafi eða framveðhafi öðlast ekki meiri rétt gagnvart veðsala en veðhafi sjálfur átti nema annað leiði af traustfangsreglum.

11. gr.

Framsal á veðinu.
     1. Veðréttur er því eigi til fyrirstöðu að hinu veðsetta (veðandlaginu) sé afsalað nema annað leiði af samningi eða ákvæðum laga. Sérstakt afsal á hlutum veðandlagsins eða á fylgifé þess er aðeins heimilt með samþykki veðhafa nema slíkt afsal skerði ekki tryggingarréttindi veðhafa.
     2. Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um aðrar ráðstafanir með löggerningi en afsal.

12. gr.

Sameiginlegt veð.
     1. Þegar tvö eða fleiri sjálfstæð fjárverðmæti í eigu sama eiganda eða fleiri eigenda standa til fullnustu sömu veðkröfu á veðhafi rétt til þess að leita fullnustu í því veðandlagi eða þeim veðandlögum, sem hann sjálfur kýs, til fullnustu allrar kröfunnar nema um annað hafi verið samið eða takmarkanir séu á því gerðar í lögum.
     2. Ef veðhafi hefur fengið fullnustu í einu veðandlaginu fyrir stærri hluta veðkröfunnar en þeim sem samkvæmt réttarsambandinu milli aðila skyldi falla á það veðandlag eiga aðrir veðhafar í því veðandlagi, og eftir atvikum eigandinn sjálfur, rétt til þess að ganga inn í veðréttinn í öðrum veðandlögum fyrir því sem umfram er.

13. gr.

Um sambandið milli fleiri veðrétta.
     Þegar tveir eða fleiri eiga veðrétt í sama fjárverðmæti gengur eldri réttur fyrir yngri rétti nema annað leiði af samningi eða reglum er áskilja tilteknar tryggingaráðstafanir til verndar rétti.

14. gr.

Útlausn.
     1. Þegar veðhafi hefur sett fram beiðni um nauðungarsölu geta aðrir veðhafar krafist þess að fá að leysa til sín veðrétt hans gegn greiðslu veðkröfunnar allrar í reiðufé.
     2. Ef fleiri veðhafar en einn vilja neyta útlausnarréttar gengur sá fyrir sem fremstur er í forgangsröð. Síðari veðhafi getur ekki krafist þess að fá að leysa til sín veðrétt fyrri veðhafa ef fyrri veðhafi vill beita útlausnarrétti gagnvart síðari veðhafa.

II. KAFLI
Um samningsveð í fasteignum.

15. gr.

Það sem veðsett verður.
     1. Eignarréttur yfir fasteign, sérstök réttindi yfir fasteign og eignarhlutdeild í fasteign verða veðsett eftir reglum þessa kafla.
     2. Nú er skipting fasteignar háð samþykki tiltekins stjórnvalds og verður afmarkaður hluti fasteignarinnar þá ekki veðsettur sérstaklega fyrr en viðkomandi stjórnvald hefur veitt samþykki til skiptingar eignarinnar.

16. gr.

Afmörkun veðréttar í fasteign.
     1. Ef annað leiðir ekki af samningi nær veðréttur í fasteign til:
  1. lands eða lóðar,
  2. húsa og annarra bygginga og mannvirkja sem reist hafa verið eða verða á landi eða lóð,
  3. lausafjár sem við kaup og sölu telst venjulegt fylgifé þeirrar fasteignar sem veðsetningin nær til og
  4. sameignarréttinda, afnotaréttinda, félagsréttinda og annarra réttinda sem heyra til hinni veðsettu eign.

     2. Um veðsetningu rekstrartækja ásamt fasteign í atvinnurekstri gilda ákvæði III. kafla laga þessara.

17. gr.

Afmörkun veðréttar í varanlegum afnotarétti lands og húsa o.fl. sem á landi eru.
     1. Veðsetning á varanlegum afnotarétti til lands og húsa o.fl., sem á landinu eru, nær til allra þeirra réttinda sem veðsali nýtur samkvæmt afnotasamningi.
     2. Reglur b- og c-liða 1. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 16. gr. eiga hér einnig við.

18. gr.

Veðsetning aðgreindra eignarhluta.
     Veðréttur í eignarhluta í fjöleignarhúsi nær til:
  1. þeirrar einingar sem veðsali á eignarrétt að, þ.e. séreignar hans, og
  2. tilheyrandi hlutdeildar í sameign, þar með talin eignarlóð eða leigulóðarréttindi.


19. gr.

Réttarvernd.
     Veðréttur samkvæmt kafla þessum öðlast réttarvernd við þinglýsingu í fasteignabók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga. Hið veðsetta verður áfram í umráðum veðsala nema um annað hafi verið samið.

20. gr.

Yfirtaka veðskuldar.
     1. Nú tekur kaupandi fasteignar í samningi við seljanda að sér greiðslu veðskuldar sem hvílir á hinni seldu eign. Verður kaupandi þá við þinglýsingu afsals skuldbundinn gagnvart veðhafa og seljandi þá jafnframt laus undan skuldbindingu sinni ef ákvæði er þess efnis í veðbréfinu að skuldin gjaldfalli ekki þrátt fyrir eigendaskipti að veðinu. Þó er veðhafa heimilt að krefja fyrri eiganda um allar greiðslur samkvæmt veðbréfinu meðan veðhafi hefur ekki fengið tilkynningu um skuldskeytinguna og þinglýsingu afsals kaupanda ásamt nauðsynlegum gögnum þessu til sönnunar. Seljandi á rétt til þess að veðhafi áriti veðbréfið um skuldskeytinguna.
     2. Í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 1. mgr. verða skuldaraskipti því aðeins skuldbindandi fyrir veðhafa að hann samþykki skuldaraskiptin í samningi við hinn nýja eiganda veðsins.

III. KAFLI
Um samningsveð í lausafé.
A. Almenn ákvæði.

21. gr.

Meginregla um réttarvernd.
     Um stofnun og réttarvernd samningsveðs í lausafé fer eftir ákvæðum laga þessara og eftir því sem ákveðið er í öðrum lögum.

22. gr.

Handveð.
     1. Heimilt er að stofna til handveðréttar í lausafé.
     2. Handveðréttur öðlast réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Það jafngildir afhendingu í þessu sambandi þegar afhentur hefur verið lykill að húsnæði þar sem veðið er geymt eða gerðar hafa verið aðrar sambærilegar ráðstafanir sem leiða til þess að eigandinn glatar möguleikanum til þess að geta ráðið yfir veðinu.
     3. Ef veðið er í umráðum annars en eiganda á gildistíma veðsetningarinnar öðlast handveðréttur einnig réttarvernd þegar umráðamaður hefur fengið tilkynningu um veðsetninguna og um það að eigandinn ráði ekki yfir veðinu. Ef umráðamaður neitar að hafa umráð hins veðsetta fyrir veðhafa öðlast veðrétturinn ekki réttarvernd við tilkynninguna.
     4. Veðsetning á handveðrétti öðlast réttarvernd við það að hið veðsetta lausafé er afhent framveðhafa. Reglur 2. og 3. mgr. eiga hér einnig við.

23. gr.

Sjálfsvörsluveð í lausafé.
     1. Heimilt er að stofna til sjálfsvörsluveðréttar í einstökum lausafjármunum.
     2. Um stofnun sjálfsvörsluveðréttar í lausafé skal gera bréflegan gerning. Um réttarvernd slíks veðréttar gilda ákvæði þinglýsingalaga um réttarvernd sjálfsvörsluveðs í lausafé.
     3. Reglur 20. gr. um yfirtöku veðskuldar eiga við með sama hætti þegar skráningarskyldu lausafé er afsalað.

B. Veð í rekstrartækjum, rekstrarveð.

24. gr.

Afmörkun veðréttarins.
     1. Þegar rekstraraðili veðsetur fasteign sem er varanlega útbúin með þarfir tiltekins atvinnurekstrar í huga nær veðréttur í fasteigninni, ef um það hefur verið samið, einnig til rekstrartækja sem heyra rekstrinum til. Veðsetningin gerist samtímis veðsetningu þeirrar eða þeirra fasteigna þar sem reksturinn fer fram.
     2. Með rekstrartækjum er átt við vélar, tæki, áhöld, innréttingar, innbú og annan útbúnað.
     3. Veðréttur í rekstrartækjum, sem á hvílir söluveð, nær til þess réttar sem veðsali á hverju sinni í viðkomandi hlut.
     4. Veðréttur í rekstrartækjum samkvæmt þessari grein nær hvorki til skráningarskylds lausafjár né heldur þeirra verðmæta sem verða veðsett samkvæmt ákvæðum 28., 29., 30., 31. og 32. gr.
     5. Veðrétturinn nær til rekstrartækjanna í heild eins og þau eru á hverjum tíma. Ef rekstur veðsala skiptist í fleiri einingar sem rekstrarlega séð eru aðskildar og þar sem atvinnureksturinn fer fram í fleiri fasteignum en einni er heimilt að veðsetja rekstrartæki hverrar einingar sérstaklega.
     6. Eftir að fasteign hefur verið veðsett með rekstrartækjum verður ekki stofnað til veðréttar í rekstrartækjunum einum meðan rekstrarveðsamningur er í gildi.

25. gr.

Rekstraraðili.
     Með rekstraraðila er átt við:
  1. sérhvern þann aðila sem hefur með höndum einhvers konar atvinnurekstur, svo sem hlutafélag, samvinnufélag, sameignarfélag, samlagsfélag eða firma einstaks manns,
  2. aðra aðila sem hafa atvinnurekstur með höndum þótt eigi sé reksturinn í hagnaðarskyni, svo sem sjúkrahús, barnaheimili, skóla, söfn, íþrótta- og afþreyingarstofnanir, félagsmála- og mannúðarstofnanir og aðrar álíka stofnanir.


26. gr.

Réttarvernd.
     Rekstrarveð öðlast réttarvernd þegar réttinum er þinglýst ásamt veðrétti í viðkomandi fasteign eða fasteignum.

27. gr.

Framsal veðsettra rekstrartækja.
     1. Veðsali getur skipt út eða framselt veðsett rekstrartæki svo lengi sem slíkt er í samræmi við eðli rekstrarins eða skerðir ekki að mun tryggingu veðhafa.
     2. Eftir að veðhafi hefur komið fram greiðsluáskorun til undirbúnings fullnustugerð til innheimtu veðkröfu hefur veðsali ekki lengur rétt til þess að skipta út eða framselja rekstrartækin nema fyrir liggi samþykki veðhafa.
     3. Þegar rekstrartæki hafa verið seld í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar og seljandinn hefur ekki lengur umráð þeirra fellur veðrétturinn í tækjunum brott.
     4. Ef eigandi veðsettra rekstrartækja hefur umfram þá heimild, sem greinir í 1. og 2. mgr., framselt öðrum hið veðsetta öðlast veðhafinn veðrétt, sams konar og hann átti í veðandlaginu, í kröfu fyrri eiganda á hendur þeim sem við hinu veðsetta tók um endurgjald af hans hálfu fyrir það sem af hendi var látið. Sá sem við hinu veðsetta tók bakar sér gagnvart veðhafa ábyrgð á kröfu þessari ef hann hefur greitt hana veðsala áður en veðréttur í henni var niður fallinn, enda hafi hann vitað eða mátt vita að veðsali hafi farið út fyrir heimild skv. 1. mgr. með ráðstöfun sinni.
     5. Um fjárnám í fasteign og rekstrartækjum skv. 24. gr. laga þessara gilda ákvæði 42. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.

C. Veð í færanlegum vélbúnaði í verktakastarfsemi.

28. gr.

     1. Rekstraraðila, sem stundar verktakastarfsemi, er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni færanlegan vélbúnað sem heyrir atvinnurekstri hans til og ekki er skráningarskyldur sem ökutæki samkvæmt umferðarlögum. Skal í veðbréfi greina tegund vélbúnaðar, árgerð og tölu eftir því sem kostur er.
     2. Veðréttur í vélbúnaði skv. 1. mgr. öðlast réttarvernd með þinglýsingu á blað eiganda í lausafjárbók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
     3. Ákvæði 3. og 5. mgr. 24. gr., 25. gr., 26. gr. og ákvæði 1.–4. mgr. 27. gr. um framsal eiga hér við, eftir því sem við getur átt.

D. Veð í rekstrartækjum landbúnaðar, búfé og afurðum.

29. gr.

Rekstrartæki.
     1. Við veðsetningu jarðar er heimilt að semja svo um að jörðinni skuli fylgja rekstrartæki þau sem notuð eru við atvinnurekstur í landbúnaði. Veðsetning rekstrartækjanna gerist þá samtímis veðsetningu jarðarinnar.
     2. Með rekstrartækjum samkvæmt framansögðu er átt við áhöld, vélar og tæki, önnur en ökutæki sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum.
     3. Veðréttur í rekstrartækjum landbúnaðar öðlast réttarvernd þegar réttinum er þinglýst ásamt veðrétti í viðkomandi jörð.
     4. Ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 24. gr. og 1.–5. mgr. 27. gr. eiga hér við með sama hætti þegar veðsett eru rekstrartæki landbúnaðar.

30. gr.

Bústofn, rekstrarvörur, afurðir og uppskera.
     1. Þeim sem stunda atvinnurekstur í landbúnaði er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni tiltekna flokka bústofns síns. Með bústofni í þessu sambandi er t.d. átt við sauðfé, hross og nautgripi; alifugla, svín og loðdýr; seiði, eldisfisk og hafbeitarfisk.
     2. Framleiðendum landbúnaðarvara og öðrum, sem eignast vörur þessar til vinnslu eða endursölu til annarra en neytenda, er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni rekstrarvörur, afurðir og uppskeru sem veðsali á eða eignast kann.
     3. Við veðsetningu skv. 1. og 2. mgr. skiptir verkunar- eða framleiðslustig ekki máli.
     4. Veðréttur í afurðum og bústofni öðlast réttarvernd með þinglýsingu á blað veðsala í lausafjárbók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
     5. Um framsal á bústofni, rekstrarvörum, afurðum og uppskeru, sem veðsett hefur verið samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., gilda einnig, eftir því sem við geta átt, ákvæði 1.–4. mgr. 27. gr. laga þessara.

E. Veð í búnaði skipa, afla, sjávarafurðum og rekstrarvörum sjávarútvegs.

31. gr.

Búnaður skipa.
     1. Þeim er veðsetur skip er rétt að semja svo um að skipinu skuli fylgja, auk venjulegs fylgifjár, annað lausafé sem ætlað er til nota á skipinu, svo sem olíubirgðir þær sem í skipinu eru hverju sinni, veiðarfæri, skipsbúnaður og önnur áhöld.
     2. Veðsetningin gerist samtímis veðsetningu viðkomandi skips. Veðrétturinn öðlast réttarvernd með skráningu á blað veðsala í skipabók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
     3. Ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 24. gr. og 1.–4. mgr. 27. gr. eiga hér við, eftir því sem við getur átt.

32. gr.

Afli, afurðir og rekstrarvörur.
     1. Útgerðarmönnum, framleiðendum sjávarafurða og þeim sem eignast vörur þessar til vinnslu eða endursölu til annarra en neytenda er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni afla, tilgreindar tegundir afurða og rekstrarvörur sem veðsali á eða eignast kann eða hefur til sölumeðferðar.
     2. Við veðsetningu skv. 1. mgr. skiptir verkunar- eða framleiðslustig ekki máli.
     3. Veðréttur í afla, rekstrarvörum og afurðum öðlast réttarvernd með þinglýsingu á blað réttsala í lausafjárbók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
     4. Við veðsetningu skv. 1. mgr. gilda um framsal ákvæði 1.–4. mgr. 27. gr. laga þessara.

F. Veð í vörubirgðum.

33. gr.

Afmörkun veðréttarins.
     1. Rekstraraðilum er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði vörubirgðir atvinnurekstrar síns.
     2. Með vörubirgðum er átt við það sem rekstraraðilinn á eða eignast kann af:
  1. hráefni, vörum í vinnslu, fullunnum vörum og verslunarvörum,
  2. rekstrarvörum og öðrum vörum sem notaðar eru í atvinnurekstrinum,
  3. búnað utan um framleiðsluvörur rekstrarins.

     3. Veðrétturinn má ná til vörubirgða veðsala í heild eða til nánar tilgreinds hluta birgðanna sem rekstrarlega séð er aðskilinn frá öðrum hlutum þeirra og telja má sjálfstæða heild. Nær veðrétturinn þá til vörubirgðanna eða hluta þeirra eins og þær eru á hverjum tíma.
     4. Veðréttur í vörubirgðum nær ekki til þeirra verðmæta sem ákvæði 28.–32. gr. taka til.

34. gr.

Réttarvernd.
     1. Veðréttur í vörubirgðum skv. 33. gr. öðlast réttarvernd með þinglýsingu á blað veðsala í lausafjárbók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
     2. Um veðrétt í vörubirgðum gilda ákvæði 1.–4. mgr. 27. gr.

G. Söluveð.

35. gr.

Hverjar kröfur unnt er að tryggja.
     Í tengslum við sölu lausafjár er heimilt að semja um veðrétt í hinu selda (söluveð) til tryggingar:
  1. kröfu seljanda til endurgjaldsins ásamt vöxtum og kostnaði eða
  2. láni sem þriðji maður hefur veitt kaupanda til greiðslu kröfu þeirrar sem nefnd er í a-lið, í heild eða að hluta, enda hafi lánveitandi greitt lánsfjárhæðina beint til seljanda.


36. gr.

Hver verðmæti verða ekki sett að söluveði.
     Söluveð verður ekki stofnað í hlutum sem ætlaðir eru til endursölu þótt kaupverðið hafi ekki verið greitt. Þetta tekur þó ekki til þeirra tilvika þar sem heimilt er að selja hlut eftir að á honum hafa verið gerðar endurbætur eða þar sem um er að ræða fylgifé eða hluta aðalhlutarins.

37. gr.

Bann við framsali og veðsetningu.
     Hlut, sem á hvílir söluveð, má hvorki selja né veðsetja án samþykkis þess veðhafa sem söluveð á, sbr. þó 36. gr.

38. gr.

Réttarvernd og fullnusta.
     1. Það er skilyrði fyrir réttarvernd samnings um söluveð að samningurinn sé gerður skriflega og í síðasta lagi samtímis afhendingu söluhlutarins til kaupanda.
     2. Í samningi verður að greina sérstaklega þau verðmæti sem veðrétturinn skal ná til og það kaupverð eða þá lánsfjárhæð sem tryggja skal. Ef fleiri hlutir en einn eru keyptir með söluveði í einu lagi nær veðrétturinn til allra hlutanna til tryggingar allri þeirri fjárhæð sem kaupandinn skuldar.
     3. Ef samið er um söluveð bæði til tryggingar kröfu seljanda og til tryggingar láni sem þriðji maður hefur veitt skal líta svo á að veðréttir þessir séu jafnstæðir nema annað leiði af samningi.
     4. Þegar vanskil verða á greiðslu krafna þeirra sem greinir í 35. gr. getur veðhafi leitað fullnustu kröfu sinnar með því að krefjast nauðungarsölu, enda hafi hann áskilið sér þá heimild í söluveðssamningi. Rifti veðhafi söluveðssamningi samkvæmt heimild í veðsamningnum eða á grundvelli almennra reglna getur hann krafist afhendingar hins veðsetta úr hendi veðsala.

39. gr.

Viðskeyting.
     Söluveð fellur brott ef söluhlutur er skeyttur við fasteign eða annan aðalhlut á þann hátt að aðskilnaður mundi leiða til óhóflega mikils kostnaðar eða ósanngjarnrar verðmætisrýrnunar.

40. gr.

Umbætur.
     Söluveð fellur brott ef endurbætur eða tilkostnaður hafa í verulegum atriðum breytt eðli söluhlutarins eða verðmæti eftir að hann var afhentur kaupanda.

41. gr.

Fyrning.
     Krafa sú, sem tryggð er með söluveði, fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er hún varð gjaldkræf. Söluveð til tryggingar slíkri kröfu fellur úr gildi um leið og krafan fyrnist.

42. gr.

Um rétt sem jafna má til söluveðs.
     Ef seljandi eða sá sem veitt hefur lán til kaupa á hlut hefur áskilið sér eignarrétt í hinu selda þar til kaupverðið eða lánið er að fullu greitt eða hann hefur áskilið sér rétt til þess að taka hlutinn við greiðslufall skal með slíkan samning farið sem þar sé um söluveðssamning að ræða.

IV. KAFLI
Samningsveð í viðskiptabréfum, innlausnarbréfum og almennum fjárkröfum.
A. Viðskiptabréf.

43. gr.

     Viðskiptabréf má setja að handveði eða sjálfsvörsluveði. Ef viðskiptabréf er sett að handveði gilda um réttarvernd veðsetningarinnar, eftir því sem við geta átt, ákvæði 2.–4. mgr. 22. gr. Til þess að sjálfsvörsluveðréttur í viðskiptabréfi öðlist réttarvernd verður að árita bréfið sjálft um veðsetninguna.

B. Innlausnarbréf.

44. gr.

     1. Heimilt er að veðsetja kröfur eða réttindi samkvæmt innlausnarbréfi þótt eigi sé það viðskiptabréf.
     2. Veðréttur skv. 1. mgr. öðlast réttarvernd í samræmi við reglur um handveð, sbr. ákvæði 2.–4. mgr. 22. gr. Veðsetning veðréttar öðlast réttarvernd með sama hætti.

C. Almennar fjárkröfur.

45. gr.

Hverjar almennar fjárkröfur verða veðsettar.
     1. Almenna fjárkröfu, sem maður á á hendur nafngreindum skuldara, er heimilt að veðsetja. Hið sama á við um almenna fjárkröfu sem tiltekinn aðili kemur til með að eignast á hendur nafngreindum skuldara í sérstöku réttarsambandi.
     2. Með almennri fjárkröfu er átt við fjárkröfu sem hvorki er viðskiptabréfskrafa né krafa samkvæmt innlausnarbréfi.

46. gr.

Réttarvernd.
     1. Veðréttur í almennum kröfum öðlast réttarvernd við það að skuldarinn fær tilkynningu um veðsetninguna, annaðhvort frá veðsala eða veðhafa.
     2. Veðsetning slíks veðréttar öðlast réttarvernd með sama hætti.

D. Vörureikningsveð.

47. gr.

     1. Rekstraraðila er heimilt að veðsetja þær almennu kröfur sem hann á eða fær í rekstri sínum eða aðgreindum hluta rekstrarins. Er þá eigi nauðsynlegt að skuldari sé nafngreindur.
     2. Skuldari samkvæmt vörureikningi leysist undan greiðsluskyldu sinni með greiðslu til kröfuhafa ef hann hefur ekki fengið tilkynningu um annan viðtakanda greiðslu.
     3. Samningur sá, sem nefndur er í 1. mgr., öðlast réttarvernd gagnvart þriðja manni við þinglýsingu á blað rekstraraðila í lausafjárbók.
     4. Ákvæði 25. gr. eiga við um samninga samkvæmt þessari grein. Ákvæði 4. gr. eiga hér ekki við.

V. KAFLI
Um gildistöku, brottfallin lög o.fl.

48. gr.

     1. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998 og eiga við um þá veðsamninga sem til er stofnað eftir gildistöku laganna.
     2. Fyrir brot gegn ákvæðum 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laga þessara skal refsa skv. 2. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lagaákvæðum.
     3. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um veð, nr. 18 4. nóvember 1887, lög um forgangsrétt veðhafa fyrir vöxtum, nr. 23 13. september 1901, og lög um veðtryggingu iðnrekstrarlána, nr. 47 26. maí 1972.
     4. Framkvæmd laga þessara heyrir undir dómsmálaráðherra.

Samþykkt á Alþingi 17. maí 1997.