Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1361, 121. löggjafarþing 523. mál: afréttamálefni, fjallskil o.fl. (örmerki).
Lög nr. 87 26. maí 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sinni sveitarstjórn ekki skyldum sínum skv. 1. mgr. að mati lögreglustjóra skal hann láta smala ágangsfénaði á kostnað eiganda.

2. gr.

     63. gr. laganna orðast svo:
     Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Lömb skulu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars. Skylt er að brennimerkja eða plötumerkja allt ásett sauðfé og geitfé með brennimarki eða númeri lögbýlis eða eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags. Að auki er heimilt að brennimerkja sömu númer og tákn á horn.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um notkun búfjármarka, þar með talin ákvæði um liti, gerð og notkun plötumerkja eftir varnarsvæðum, framkvæmd frost- og örmerkinga og skyldu til að láta merkja stórgripi. Í fjallskilasamþykkt er heimilt að setja sérákvæði um búfjármörk.

3. gr.

     4. málsl. 64. gr. laganna orðast svo: Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1997.