Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 703, 122. löggjafarþing 338. mál: tekjuskattur og eignarskattur (sala og fyrning aflahlutdeildar).
Lög nr. 118 22. desember 1997.

Lög um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 4. mgr. 14. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Hagnaður af sölu þeirra réttinda sem um ræðir í 50. gr. A telst að fullu til tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu réttindi. Hagnaður af sölu telst mismunur á söluverði annars vegar og kaupverði, eftir að frá því hafa verið dregnar fengnar fyrningar og niðurfærsla skv. 6. mgr., og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. hins vegar. Þegar ákveða skal hagnað af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skal á hverjum tíma litið svo á að fyrst sé seldur sá hluti aflahlutdeildar í sömu fisktegund sem skattaðili keypti fyrst en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að öll keypt aflahlutdeild í tegundinni hefur verið seld.
     Á því ári sem skattskyldur hagnaður af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skv. 5. mgr. færist til tekna er skattaðila heimilt að færa niður stofnverð aflahlutdeildar, sem keypt hefur verið á tekjuárinu eða á síðustu 12 mánuðum áður en salan fór fram, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, enda kaupi hann aflahlutdeild í sjávarútvegi innan þess tíma og færi hana niður um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef aflahlutdeild er ekki keypt innan tilskilins tíma samkvæmt þessari málsgrein telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist, framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til þess árs þegar hann er tekjufærður, að viðbættu 10% álagi. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein er því aðeins heimil að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

2. gr.

     Á eftir 50. gr. laganna kemur ný grein, 50. gr. A, svohljóðandi:
  1. Stofnkostnað við kaup á réttindum sem ekki rýrna vegna notkunar er eigi heimilt að fyrna. Til stofnkostnaðar samkvæmt þessari málsgrein telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum.
  2.      Keypt leyfi til veiða í atvinnuskyni skv. 5. gr. laga nr. 38/1990 skal þó heimilt að telja til stofnkostnaðar með því skipi sem það er tengt og fer þá um fyrningar þess skv. 1. tölul. 32. gr., sbr. 1. tölul. 38. gr.
         Um hagnað vegna sölu á ófyrnanlegum réttindum skv. 1. mgr. fer skv. 5. og 6. mgr. 14. gr. Verðmæti keyptra réttinda sem ekki er heimilt að fyrna er eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó skal heimilt að telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.
  3. Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Ófyrnanleg réttindi.


3. gr.

     Við 74. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Ófyrnanleg réttindi skv. 50. gr. A skal telja til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 10. gr., að frádregnum fengnum fyrningum og að frádreginni niðurfærslu skv. 6. mgr. 14. gr., eftir að stofnverð, fyrningar og niðurfærslur hafa verið hækkaðar eða lækkaðar í samræmi við ákvæði 26. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó er rekstraraðilum, sem hafa keypt aflahlutdeild í sjávarútvegi fyrir gildistöku laga þessara, heimilt að fyrna þessi réttindi um allt að 20% á framtali vegna tekjuársins 1998, um allt að 15% á framtali vegna tekjuársins 1999 og um allt að 10% á framtali vegna tekjuársins 2000 og færa stofnverð keyptra aflahlutdeilda niður um þær fyrningar og fyrri fyrningar. Þó er ekki heimilt að fyrna þessi réttindi lengur en í fimm ár frá og með kaupári.
     Þeim sem selt hafa aflahlutdeild fyrir gildistöku laga þessara og frestað skattlagningu söluhagnaðarins er heimilt að fara með söluhagnaðinn samkvæmt ákvæðum 13. gr.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1997.