Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1288, 122. löggjafarþing 446. mál: listskreytingar opinberra bygginga (heildarlög).
Lög nr. 46 11. maí 1998.

Lög um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins.


1. gr.

     Verja skal 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar byggingar til listskreytingar hennar og umhverfis hennar.
     Opinberar byggingar merkja í lögum þessum allar þær byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að nokkru eða öllu leyti, sbr. lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970. Undanþegnar eru þó byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, byggingar sem standa fjarri alfaraleið, skemmur og aðrar sambærilegar byggingar.
     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um byggingar sem reistar eru á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag og eru því ekki háðar beinni fjárveitingarákvörðun Alþingis um byggingarframkvæmdir.

2. gr.

     Í greinargerð með frumathugun og áætlanagerð skv. 3. gr. og 6. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, skal auk annarra atriða sem þar eru tilgreind gera grein fyrir áætlun um kostnað vegna listskreytinga.
     Við ákvarðanir um mannvirki sem lög þessi taka til skulu arkitekt mannvirkisins og byggingarnefnd leita faglegrar ráðgjafar um listskreytingu hjá stjórn Listskreytingasjóðs, sbr. 5. gr.

3. gr.

     Veita skal árlega eftir ákvörðun Alþingis fé í Listskreytingasjóð til listskreytinga opinberra bygginga sem þegar eru fullbyggðar við gildistöku þessara laga, umhverfis þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkisins og sveitarfélaga. Sé bygging, umhverfi hennar eða útisvæði á forræði sveitarfélags skal koma framlag frá viðkomandi sveitarfélagi á móti úthlutun úr Listskreytingasjóði.

4. gr.

     Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins skal skipuð af menntamálaráðherra þannig: Tveir menn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna, einn samkvæmt tilnefningu Arkitektafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir og formaður skipaður án tilnefningar. Stjórnin skal skipuð til tveggja ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Menntamálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna sem greiðist úr sjóðnum ásamt öðrum kostnaði við starfsemi hans.

5. gr.

     Stjórn Listskreytingasjóðs skal vera til ráðgjafar um listskreytingu þeirra mannvirkja sem lög þessi taka til og hvernig staðið skuli að framkvæmdum. Stjórnin ákvarðar úthlutun úr Listskreytingasjóði.

6. gr.

     Um meiri háttar verkefni á sviði listskreytinga skal að öðru jöfnu fara fram opinber samkeppni í samræmi við venjur og reglur sem um það gilda á hverjum tíma. Slík samkeppni skal opin erlendum listamönnum enda njóti íslenskir listamenn sömu réttinda í þeirra löndum.

7. gr.

     Stjórn Listskreytingasjóðs er heimilt að veita styrk úr sjóðnum vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listskreytingar skv. 3. gr., þar með talinn kostnaður við samkeppni.

8. gr.

     Semja skal við bankastofnun um að annast fjárvörslu Listskreytingasjóðs. Heimilt skal stjórn sjóðsins með samþykki menntamálaráðherra að semja við félagasamtök sem aðild eiga að sjóðnum um að annast rekstur hans að öðru leyti.
     Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skulu rekstrar- og efnahagsreikningar endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun árlega og birtir í Stjórnartíðindum.

9. gr.

     Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins, með síðari breytingum. Heimilt skal að gera nauðsynlegar undirbúningsráðstafanir til þess að lögin geti komið til framkvæmda við gildistöku, m.a. að því er varðar skipun stjórnar Listskreytingasjóðs.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1998.