Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1496, 122. löggjafarþing 521. mál: almenn hegningarlög (fyrning sakar).
Lög nr. 63 12. júní 1998.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (fyrning sakar).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981:
 1. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Fyrningarfrestur vegna brota, sem fólgin eru í því að komast undan greiðslu á tollum, sköttum eða öðrum gjöldum til hins opinbera, er aldrei skemmri en 5 ár.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981 og 43. gr. laga nr. 90/1996:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri.
 2. Í stað orðsins „refsilögsögu“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: forráðasvæðis.
 3. 4. mgr. orðast svo:
 4.      Fyrningarfrestur rofnar þegar rannsókn opinbers máls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Í málum, sem lögreglan má samkvæmt lögum ljúka með sátt, rofnar fyrningarfrestur þegar lögreglan sakar mann um brot og kynnir honum sáttaboð. Þegar lög heimila stjórnvaldi endranær að kveða á um refsingu fyrir brot rofnar fresturinn þegar stjórnvaldið sakar mann um slíkt brot.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Rannsókn skv. 4. mgr. rýfur ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir rannsókninni, ákærandi ákveður að höfða ekki opinbert mál gegn sakborningi eða ákærandi afturkallar ákæru. Stöðvist rannsókn máls um óákveðinn tíma rýfur rannsóknin heldur ekki fyrningarfrest. Stöðvist rannsókn máls af því að sakborningur hefur komið sér undan rannsókn rýfur rannsóknin fyrningarfrest, en sá tími sem rannsóknin stóð yfir telst ekki til fyrningartímans. Ef máli er vísað frá héraðsdómi og ekki er hafist handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði innan 6 mánaða frá þeim degi, er málinu var vísað frá, rýfur undangengin rannsókn ekki fyrningarfrest.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. a laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 20/1981 og 8. gr. laga nr. 42/1985:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Fésekt, sem ákveðin er með dómi, úrskurði eða sátt, fyrnist þegar liðin eru 3 ár frá því að unnt var að fullnægja dómi, úrskurði eða sátt. Þegar fjárhæð fésektar er 60.000 krónur eða hærri er fyrningarfresturinn þó 5 ár.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Hafi greiðsla fésektar verið tryggð með fjárnámi eða öðrum sambærilegum hætti innan fyrningarfresta skv. 1. mgr. lengjast þeir frestir um 2 ár.
 5. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.