Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1492, 122. löggjafarþing 546. mál: skipulag ferðamála (ferðaskrifstofur).
Lög nr. 73 15. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994.


1. gr.

     Í stað 9.–17. gr. laganna (III. kafli, Almennar ferðaskrifstofur) koma 15 nýjar greinar, 9.–23. gr., sem orðast svo, og breytast greinatölur og tilvísanir samkvæmt því:
     
     a. (9. gr.)
     Ferðaskrifstofa merkir í lögum þessum fyrirtæki sem tekur að sér að veita í atvinnuskyni, að einhverju eða öllu leyti, eftirgreinda þjónustu fyrir almenning:
  1. Hvers konar umboðssölu farmiða með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum og upplýsingar um slíkar ferðir.
  2. Útvegun gistihúsnæðis.
  3. Skipulagningu og sölu hópferða, innan lands eða erlendis, starfrækslu sætaferða og móttöku erlendra ferðamanna.
  4. Starfrækslu bókunarþjónustu fyrir ferðir og gistingu, sbr. a-, b- og c-liði, og afþreyingu, þar með talinnar tölvubókunarþjónustu.

     Í reglugerð skulu sett nánari ákvæði um með hvaða hætti skuli hafa eftirlit með þjónustu ferðaskrifstofa.
     Samgönguráðuneytið sker úr ef ágreiningur verður um hvort starfsemi telst falla undir a–c-lið hér að framan, svo og um það hvort um ferðaskrifstofustarfsemi sé að ræða í skilningi laga þessara.
     
     b. (10. gr.)
     Hver sá sem vill reka ferðaskrifstofu skal hafa til þess leyfi samgönguráðuneytis. Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skal veita í fyrsta sinn til tveggja ára en síðan til fimm ára í senn.
     Erlend ferðaskrifstofa, sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi, skal sækja um leyfi og leggja fram tryggingu fyrir starfsemi sinni svo sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum.
     Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skiptast í tvo flokka eftir umfangi:
  1. Ferðaskrifstofa: Ferðaskrifstofa merkir í lögum þessum fyrirtæki, félag eða einstakling sem tekur að sér að veita í atvinnuskyni alla almenna þjónustu við ferðamenn, þar með talin skipulagning og miðlun ferða, þar með talin alferð, gisting og frístundaiðja, og selur almenna farseðla.
  2. Ferðaskipuleggjandi: Ferðaskipuleggjandi merkir í lögum þessum fyrirtæki, félag eða einstakling sem skipuleggur ferðir hópa eða einstaklinga innan lands, einnig fyrirtæki sem annast móttöku hópa eða einstaklinga og skipuleggur fyrir þá dvöl og frístundaiðju eða fundi og ráðstefnur og þjónustu tengda þeim innan lands. Ferðaskipuleggjandi annast enga almenna farseðlaútgáfu til útlanda, hvorki með leiguflugi né áætlunarflugi.

     Óheimilt er að stunda þau störf sem greind eru í þessum lögum, svo og að nota í nafni eða auglýsingum einstaklinga, félaga eða fyrirtækja orðið ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi eða hliðstæð erlend orð nema hafa til þess leyfi samgönguráðuneytisins.
     Ferðaskrifstofa skal hafa leyfi sitt til ferðaskrifstofureksturs sýnilegt á starfsstöð sinni.
     Ráðuneytið ákveður einnig hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laga þessara að því er lýtur að ferðum innan lands.
     
     c. (11. gr.)
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
  1. Alferð, sbr. lög um alferðir, nr. 80/1994, er fyrir fram ákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klst. eða í henni felst gisting:
    1. flutnings,
    2. gistingar,
    3. annarrar þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.
         Það telst alferð þótt reikningar sé gerðir sérstaklega fyrir hvert atriði.
  2. Leiguflug er annað flug en reglubundið áætlunarflug til flutnings á farþegum með loftförum til og frá Íslandi þegar aðili, þar með talin ferðaskrifstofa, hefur tekið farrými loftfars að hluta eða öllu leyti á leigu hjá flugrekanda.
  3. Tryggingarskyld starfsemi er sala alferða innan lands og utan og leiguflugs til útlanda.
  4. Viðskiptavinur er sá sem kaupir alferð eða leiguflug hjá ferðaskrifstofu. Framselji viðskiptavinur alferð eða leiguflug til þriðja manns fær sá kröfu á ferðaskrifstofu stöðvist rekstur hennar eða verði hún gjaldþrota. Kaup á alferð eða sæti með leiguflugi til endursölu fellur ekki undir þessa skilgreiningu.

     Í lögum þessum er orðið ferðaskrifstofa bæði notað um ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu nema annað sé tekið fram.
     
     d. (12. gr.)
     Sækja skal um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi skal hefjast. Leita skal umsagnar ferðamálastjóra um allar slíkar umsóknir.
     Til að öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu þarf umsækjandi að uppfylla eftirtalin skilyrði:
  1. eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár; ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanskildir skilyrði um ríkisfang samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
  2. vera fjárráða og hafa forræði á búi sínu.

     Enn fremur skal einn eða fleiri af starfsmönnum ferðaskrifstofunnar á hverjum tíma hafa að baki staðgóða reynslu við almenn ferðaskrifstofustörf.
     Leyfi má veita félagi eða öðrum lögaðila sem á heimili hér á landi, enda sé forsvarsmaður slíks lögaðila fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Sé um erlendan aðila að ræða eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting þó háð því að fullnægt sé skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     Hafi umsækjandi um ferðaskrifstofuleyfi haft leyfi til slíkrar starfsemi á síðustu fimm árum og hafi sú ferðaskrifstofa orðið gjaldþrota eða rekstur hennar stöðvast með þeim afleiðingum að nauðsynlegt hafi verið að grípa til tryggingar skal umsókn um leyfi til ferðaskrifstofureksturs hafnað.
     
     e. (13. gr.)
     Áður en leyfi til ferðaskrifstofureksturs er veitt skal ferðaskrifstofa eða samtök slíkra fyrirtækja leggja fram sönnun þess að hún hafi nægilega tryggingu til heimflutnings farþega erlendis frá auk þess sem skylt er að gera farþega kleift að ljúka alferð, hvort sem um er að ræða alferð innan lands eða utan, í samræmi við upphaflega áætlun hennar. Enn fremur skal tryggja endurgreiðslu þess fjár er viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn er ófarin komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu.
     
     f. (14. gr.)
     Þeim viðskiptavinum viðkomandi ferðaskrifstofu sem þegar eru í alferð, hvort sem um er að ræða alferð innan lands eða utan, skal gert kleift að ljúka ferð sinni. Í því felst að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrir fram ákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrirframgreidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af tryggingarfé svo að honum sé gert kleift að ljúka ferð sinni. Hins vegar er ekki skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrir fram ákveðinnar alferðar.
     Hafi viðskiptavinur gengið til samnings við ferðaskrifstofu um að hefja alferð og greitt innborgun inn á ferð í því skyni en endanlegur samningur ekki komist á skal engu að síður greiða það fé sem viðskiptavinurinn hefur þegar reitt af hendi, enda leggi hann til fullnægjandi sönnunargögn þar að lútandi.
     Þeir sem hafa greitt alferð að hluta eða öllu leyti en ekki hafið ferð skulu fá endurgreitt það fé sem þeir hafa reitt af hendi.
     Hafi verið gripið til tryggingar og viðskiptavini verið gert kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
     Þegar um heimflutning farþega er að ræða fyrir milligöngu ráðuneytis vegna rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu áður en alferð er lokið skal aðeins greiddur sá hluti alferðarinnar er viðskiptavini tókst ekki að ljúka.
     Hafi viðskiptavinur aðeins keypt sér far með leiguflugi er heimflutningur hans tryggður af tryggingarfé ferðaskrifstofu.
     Einungis beint fjárhagslegt tjón af alferð skal greitt af tryggingarfé ferðaskrifstofa en ekkert tjón sem rekja má til hugsanlegra óþæginda eða miska.
     
     g. (15. gr.)
     Ef til rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu eða ferðaskipuleggjanda kemur skulu viðskiptavinir leggja fram skriflega kröfu innan 60 daga frá birtingu áskorunar um kröfulýsingu. Meðfylgjandi skulu vera nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna, svo sem farseðlar og kvittanir. Ef samgönguráðuneytið telur að frekari gögn séu nauðsynleg til sönnunar kröfunni er því heimilt að óska eftir þeim. Ef vafi leikur á um hvort gögn til stuðnings kröfu séu fullnægjandi skal samgönguráðuneytið skera úr.
     
     h. (16. gr.)
     Ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjandi skulu leggja fram tryggingu skv. 19. gr. sem nemur 70% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð, 40% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða 20% af heildarveltu á ári vegna tryggingarskyldrar starfsemi og skal sú niðurstaða sem gefur hæstu tryggingu gilda. Trygging skal þó aldrei vera lægri en 1 millj. kr. vegna ferðaskrifstofu eða ferðaskipuleggjanda.
     Samgönguráðherra skal setja reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa til að aðskilja tryggingarskylda starfsemi frá annarri starfsemi og til að nauðsynlegar upplýsingar við mat á tryggingarfjárhæð liggi fyrir.
     Samgönguráðherra er heimilt að krefjast hærri tryggingar í þeim tilfellum þegar um sérstaklega áhættusaman rekstur er að ræða eða að öðru leyti er ljóst að trygging samkvæmt lögum þessum mun ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.
     
     i. (17. gr.)
     Til að meta upphæð tryggingar hjá umsækjanda sem er að sækja um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu í fyrsta sinn skal umsækjandi leggja fram ítarlega áætlun um rekstur, greiðslustreymi og efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár. Áætlunin skal vera brotin niður á mánuði og áætluð tryggingarskyld velta sérgreind. Áætluninni skal fylgja staðfesting endurskoðanda á að áætlunin sé rétt miðað við gefnar forsendur. Samgönguráðuneytið leggur mat á forsendur áætlunarinnar og er því heimilt að óska eftir samningum og öðrum gögnum er það telur nauðsynleg við mat á áætluninni.
     Leyfishafar með tryggingu skv. 19. gr. skulu fyrir 31. mars ár hvert senda samgönguráðuneytinu endurskoðaðan ársreikning og önnur gögn sem áskilin eru í reglum, sbr. 2. mgr. 16. gr., auk áætlunar um fyrirhuguð umsvif á starfsárinu. Ráðuneytið tekur ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga um hvort tryggingarfjárhæð skuli breytt að fenginni umsögn löggilts endurskoðanda.
     Ef endurskoðað ársuppgjör hefur ekki borist 30. apríl er ráðuneytinu heimilt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi.
     Ef leyfishafi hefur ekki sinnt ákvörðun ráðuneytis um hækkun tryggingarfjárhæðar innan mánaðar frá því að honum var tilkynnt ákvörðun um hækkun hennar fellur leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi.
     Telji samgönguráðuneytið að rekstur ferðaskrifstofu gangi erfiðlega er því heimilt að kveðja til löggiltan endurskoðanda til að leggja mat á fjárhagsstöðu hennar. Tilkvöddum endurskoðanda er í þessu skyni heimill aðgangur að starfsstöð ferðaskrifstofunnar til að gera þær kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum hennar sem hann telur nauðsynlegar.
     Telji samgönguráðuneytið nauðsynlegt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi vegna brota á þessari grein skal ráðuneytið tilkynna viðkomandi ferðaskrifstofu um það skriflega. Skal ferðaskrifstofan hafa 14 daga frest til að bæta úr þeim atriðum er ráðuneytið telur ábótavant.
     
     j. (18. gr.)
     Trygging gildir jafnlengi og leyfi til ferðaskrifstofureksturs. Ef trygging verður ófullnægjandi á leyfistímanum skal afturkalla leyfi til ferðaskrifstofureksturs þar til bót hefur orðið á. Trygging skal vera tiltæk í allt að sex mánuði eftir niðurfellingu leyfis nema um uppsögn tryggingar sé að ræða. Ef fullnægjandi sönnur eru færðar á að allar kröfur vegna rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu hafi verið greiddar er samgönguráðuneytinu heimilt að fella þann hluta tryggingar sem eftir stendur úr gildi áður en lögbundnir sex mánuðir eru liðnir.
     Samgönguráðuneytið ákvarðar hvort greiða skal af tryggingarfé skv. 13. gr. Eigi er heimilt að fella tryggingu úr gildi eða skerða tryggingarfé nema leyfi ráðuneytisins komi til. Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður ef grípa þarf til tryggingarfjár vegna rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofunnar.
     
     k. (19. gr.)
     Trygging, sbr. 13. gr., getur verið:
  1. Fé í vörslu samgönguráðuneytis, sbr. 1. mgr. 16. gr.
  2. Fé sem lagt er inn í viðurkennda banka- eða peningastofnun í nafni samgönguráðuneytis, sbr. 1. mgr. 16. gr.
  3. Ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi. Skulu þessir aðilar hafa starfsleyfi hér á landi. Þeir skulu og gefa yfirlýsingu um að gildissvið og fjárhæð tryggingarinnar séu í samræmi við lög þessi.

     
     l. (20. gr.)
     Samgönguráðherra er heimilt að tilnefna tilsjónarmann til að sjá um uppgjör tryggingarfjár. Hann skal þá hafa með höndum umsýslu vegna heimflutnings farþega og endurgreiðslu af tryggingarfé ferðaskrifstofu. Kostnaður við störf tilsjónarmanns skal greiddur af tryggingarfé.
     
     m. (21. gr.)
     Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður:
  1. ef leyfishafi verður gjaldþrota eða sviptur fjárræði,
  2. ef trygging sú, sem sett er skv. 13. gr., fellur niður eða fullnægir ekki þeim reglum sem ráðuneytið setur,
  3. ef leyfishafi hættir að hafa búsetu á Íslandi.

     Ef félag er leyfishafi eða annar en leyfishafi veitir daglegum rekstri ferðaskrifstofunnar forstöðu fellur leyfið niður ef einhverra þeirra skilyrða er misst sem uppfylla ber samkvæmt lögum þessum eða er forstöðumaður andast, enda sé ekki ráðinn nýr forstöðumaður sem uppfyllir skilyrði laga þessara innan þess frests sem ráðuneytið setur.
     
     n. (22. gr.)
     Nú andast leyfishafi og er þá eftirlifandi maka hans, ef hann situr í óskiptu búi, heimilt að halda áfram rekstrinum í fimm ár, enda sé fullnægt almennum skilyrðum um ábyrgð og ekki ástæða til afturköllunar leyfis skv. 21. gr.
     
     o. (23. gr.)
     Fyrir útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
     Samgönguráðherra er heimilt að taka gjöld af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum sem renna til samgönguráðuneytis til að standa straum af eftirliti samkvæmt lögum þessum. Fjárhæð gjaldanna skal koma fram í reglum sem ráðherra setur skv. 2. mgr. 16. gr. Gjöldin skulu standa undir kostnaði af bókhaldsrannsóknum og öðrum þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til að sannreyna fjárhæð tryggingar og með öðrum hætti hafa eftirlit með rekstri ferðaskrifstofa.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þó eru starfandi ferðaskrifstofur undanþegnar ákvæðum h-liðar 1. gr. (16. gr.) laga þessara fram til 1. ágúst 1998.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.