Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1494, 122. löggjafarþing 57. mál: lögmenn (heildarlög).
Lög nr. 77 15. júní 1998.

Lög um lögmenn.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Með lögmanni er í lögum þessum átt við þann sem hefur leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður eða héraðsdómslögmaður.
     Lögmenn eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

2. gr.

     Ef aðili fer ekki sjálfur með mál sitt fyrir dómi eða sá sem að lögum getur verið fyrirsvarsmaður hans í dómsmáli verður ekki öðrum en lögmanni falið að gæta þar hagsmuna hans, sbr. þó 3. mgr.
     Ákvæði 1. mgr. gilda um opinber mál með þeim takmörkunum sem kann að leiða af heimildum í lögum til að fela öðrum en lögmanni að koma þar fram sem verjandi, réttargæslumaður eða talsmaður sakbornings eða ákærða.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur málsaðili falið þeim sem starfar sem lögmaður í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur heimild til að fara þar með mál annarra fyrir dómstóli að gæta hagsmuna sinna í máli fyrir samsvarandi dómstóli hér á landi, enda njóti hann í þinghöldum aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um slík störf erlendra lögmanna hér á landi.

II. KAFLI
Lögmannafélag Íslands og úrskurðarnefnd lögmanna.

3. gr.

     Lögmenn skulu hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands. Er þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn.
     Lögmannafélag Íslands setur sér samþykktir. Það skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr.
     Í tengslum við Lögmannafélag Íslands skal starfa úrskurðarnefnd lögmanna sem leysir úr málum eftir ákvæðum þessara laga. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara. Skal hver nefndarmaður eiga þar sæti í fimm ár í senn, en þó þannig að sæti eins nefndarmanns losni árlega. Tveir nefndarmenn skulu kosnir af Lögmannafélagi Íslands samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þess, einn skal tilnefndur af Dómarafélagi Íslands, einn af dómsmálaráðherra og einn af Hæstarétti Íslands, en hann skal vera úr röðum lögmanna sem fullnægja skilyrðum til að gegna embætti hæstaréttardómara. Nefndin kýs sér sjálf formann til eins árs í senn.
     Lögmannafélag Íslands ber kostnað af þeim störfum sem því og úrskurðarnefnd lögmanna eru falin með lögum. Getur félagið lagt á félagsmenn árgjald til að standa straum af þeim kostnaði.
     Lögmannafélagi Íslands er heimilt að starfrækja í öðru skyni en að framan greinir sérstaka félagsdeild, eina eða fleiri, sem lögmönnum er frjálst að ákveða hvort þeir eiga aðild að. Skal fjárhagur slíkra félagsdeilda aðgreindur frá fjárhag félagsins.

4. gr.

     Meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna fer eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla. Nefndin setur sér innan þess ramma nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka.
     Ákvarðanir úrskurðarnefndar lögmanna sæta hvorki stjórnsýslukæru né málskoti innan Lögmannafélags Íslands.

5. gr.

     Lögmannafélag Íslands kemur fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða.
     Lögmannafélag Íslands setur siðareglur fyrir lögmenn.
     Lögmannafélag Íslands skal stuðla að því að sérhver sem þarfnast aðstoðar lögmanns fái notið hennar, enda hlíti hann þá ráðum lögmannsins og tryggi greiðslu hæfilegs endurgjalds fyrir aðstoðina.

III. KAFLI
Lögmannsréttindi.

6. gr.

     Réttindi til að vera héraðsdómslögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
 1. er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum lögmanns,
 2. hefur aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta,
 3. hefur óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis,
 4. hefur lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands,
 5. stenst prófraun skv. 7. gr.

     Víkja má frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár.
     Leggja má að jöfnu við próf það, sem um getur í 4. tölul. 1. mgr., sambærilegt próf frá öðrum háskóla ef prófnefnd skv. 1. mgr. 7. gr. telur sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á íslenskum lögum. Til að staðreyna þetta er nefndinni heimilt að leggja fyrir umsækjanda að gangast undir sérstakt próf á sínum vegum í einni eða fleiri lögfræðigreinum.
     Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 5. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki.

7. gr.

     Umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður verður að standast prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Dómsmálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn nefndarmann eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands, annan samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands, en þann þriðja án tilnefningar og skal hann ekki vera starfandi lögmaður. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar nefndinni formann, svo og varaformann úr röðum varamanna.
     Prófraunin skal bæði vera bókleg og verkleg og ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða rækslu lögmannsstarfa, þar á meðal siðareglna lögmanna. Prófnefnd skipuleggur námskeið til undirbúnings prófraun. Henni er heimilt að láta Háskóla Íslands og Lögmannafélag Íslands annast einstaka þætti námskeiðs og prófraunar. Í reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum prófnefndar, skal meðal annars kveðið nánar á um námsgreinar, námskeiðahald, framkvæmd prófraunar og lágmarksárangur til að standast hana.
     Efnt skal til námskeiðs og prófraunar ekki sjaldnar en annað hvert ár.
     Að fenginni tillögu prófnefndar ákveður dómsmálaráðherra gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta prófraun. Skal fjárhæð þess taka mið af kostnaði af námskeiðum og annarri framkvæmd prófraunarinnar.

8. gr.

     Umsókn um leyfi til að vera héraðsdómslögmaður skal beint til dómsmálaráðherra. Eftir því sem þörf er á skal umsækjandi leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skilyrðum skv. 6. gr. Hann skal að auki vinna að því skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem lögmanni.
     Dómsmálaráðherra gefur út leyfisbréf handa héraðsdómslögmanni.
     Héraðsdómslögmaður má gæta hagsmuna aðila í máli fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli.

9. gr.

     Réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
 1. hefur haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár,
 2. fullnægir þeim kröfum sem er getið í 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr.,
 3. hefur flutt ekki færri en þrjátíu mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli,
 4. sýnir fram á það með prófraun, sem felst í flutningi tveggja mála fyrir Hæstarétti, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin.

     Sá sem þreyta vill prófraun skv. 4. tölul. 1. mgr. skal beina til sérstakrar prófnefndar umsókn um það ásamt staðfestingu dómsmálaráðherra á að hann fullnægi öðrum skilyrðum 1. mgr. Í prófnefndinni sitja þrír menn sem dómsmálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skulu tveir nefndarmenn tilnefndir af Hæstarétti, en einn af Lögmannafélagi Íslands. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndin kýs sér sjálf formann til eins árs í senn. Hún skal setja almennar reglur um framkvæmd prófraunar. Dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meta hvort umsækjandi standist prófraun.
     Að fenginni umsögn Hæstaréttar getur ráðherra vikið frá skilyrðum 1., 3. og 4. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur gegnt dómaraembætti í að minnsta kosti tíu ár. Með sama hætti getur ráðherra vikið frá 1. og 4. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur um jafnlangan tíma gegnt embætti eða starfi sem fylgir lögum samkvæmt heimild til að flytja opinber mál fyrir Hæstarétti.
     Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 1. og 3. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem eru gerðar í 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 2. og 3. mgr. sömu greinar.

10. gr.

     Umsókn um leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður skal beint til dómsmálaráðherra. Skulu fylgja henni eftir þörfum gögn til staðfestingar því að umsækjandi fullnægi skilyrðum 9. gr. til að öðlast réttindin.
     Dómsmálaráðherra gefur út leyfisbréf handa hæstaréttarlögmanni.
     Hæstaréttarlögmaður má gæta hagsmuna aðila í málum fyrir öllum dómstólum landsins.

11. gr.

     Lögmaður getur ráðið til starfa hjá sér fulltrúa sem fullnægir skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. Leita skal staðfestingar Lögmannafélags Íslands á því að skilyrðum þessum sé fullnægt og leggja fyrir það gögn því til stuðnings.
     Að fenginni staðfestingu skv. 1. mgr. skal lögmaður tilkynna dómstólum um ráðningu fulltrúa. Getur lögmannsfulltrúi upp frá því sótt þing fyrir öðrum dómstólum en Hæstarétti í umboði og á ábyrgð vinnuveitanda síns og gætt þar hagsmuna umbjóðanda vinnuveitandans, en þó ekki við munnlega sönnunarfærslu eða aðalmeðferð máls. Lögmanni ber að tilkynna dómstólum og Lögmannafélagi Íslands ef fulltrúi hans lætur af störfum.
     Lögmaður getur ráðið annan lögmann til starfa hjá sér. Ber lögmaður ábyrgð á fjárvörslu slíks starfsmanns síns, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti.

12. gr.

     Lögmanni er skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, varðveita fjármuni annarra á vörslufjárreikningum og afla sér starfsábyrgðartryggingar, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr.
     Lögmaður getur sótt um undanþágu til Lögmannafélags Íslands frá þeim skyldum sem um ræðir í 1. mgr. á meðan hann:
 1. gegnir föstu starfi hjá opinberri stofnun eða einkaaðila, enda veiti hann engum öðrum þjónustu sem lögmaður,
 2. starfar hjá öðrum lögmanni, sbr. 3. mgr. 11. gr., eða
 3. gegnir föstu starfi hjá félagasamtökum, enda veiti hann engum öðrum en þeim samtökum eða félagsmönnum þeirra þjónustu og skal þjónustan falla innan starfssviðs samtakanna.

     Lögmaður sem leitar undanþágu skv. 2. mgr. skal leggja fram samþykki vinnuveitanda síns fyrir henni. Ef undanþágu er leitað skv. 1. eða 3. tölul. 2. mgr. skal lögmaður láta fylgja yfirlýsingu sína um að hann muni ekki hagnýta sér réttindi sín í ríkara mæli en þar greinir. Ef undanþágu er leitað skv. 2. tölul. 2. mgr. skal fylgja staðfesting um þá ábyrgð vinnuveitanda sem um ræðir í 3. mgr. 11. gr. Er vinnuveitanda jafnt sem lögmanni skylt að tilkynna Lögmannafélagi Íslands ef vinnusambandi þeirra er slitið.
     Ef lögmaður fullnægir annars ekki þeim skyldum sem um getur í 1. mgr. ber honum að skila leyfisbréfi sínu og skulu réttindi hans felld niður.

13. gr.

     Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr.
     Lögmanni er skylt að veita Lögmannafélagi Íslands eða löggiltum endurskoðanda, sem félagið tilnefnir í því skyni, allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 12. gr. Ber sá sem gegnir eftirliti þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um, að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins.
     Komi fram við eftirlit skv. 1. mgr. að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld úr gildi. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
     Ef réttindi lögmanns eru felld niður með þeim hætti sem í 3. mgr. segir er honum heimilt að höfða einkamál eftir almennum reglum gegn ríkinu til ógildingar á ákvörðun ráðherra.

14. gr.

     Nú berst úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanni og telur sýnt að hann hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða þeim reglum sem um getur í 2. mgr. 5. gr. að ekki verði við unað að hann hafi áfram réttindi til að vera lögmaður. Getur þá nefndin í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður um tiltekinn tíma eða ótímabundið ef sakir eru miklar.
     Ráðherra ber að taka afstöðu til tillögu skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá því hún berst honum.
     Felli ráðherra niður réttindi lögmanns samkvæmt framansögðu getur lögmaðurinn höfðað mál um þá ákvörðun með sama hætti og segir í 4. mgr. 13. gr.

15. gr.

     Taki lögmaður við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn lögmannsréttinda skulu réttindin felld niður. Lögmanninum er heimilt að höfða mál um þá ákvörðun, svo sem um ræðir í 4. mgr. 13. gr.
     Lögmanni er alltaf frjálst að afsala sér réttindum sínum.

16. gr.

     Hafi réttindi lögmanns verið felld niður samkvæmt einhverju því sem í 12.–15. gr. segir eða hann hefur afsalað sér þeim skulu þau veitt honum á ný eftir umsókn hans án endurgjalds eða prófraunar ef hann fullnægir orðið öllum öðrum skilyrðum til að njóta þeirra.
     Hafi réttindi lögmanns verið felld niður ótímabundið samkvæmt því sem í 14. gr. segir getur hann að fimm árum liðnum sótt um heimild til að gangast undir prófraun skv. 7. gr. og sækja í kjölfarið á ný um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Slíka heimild veitir dómsmálaráðherra að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands.

17. gr.

     Dómsmálaráðherra skal auglýsa í Lögbirtingablaði veitingu réttinda, svo og ef þau falla niður.
     Í dómsmálaráðuneytinu skal halda skrá um þá sem hafa lögmannsréttindi. Skal þar gerð um það sérstök athugasemd ef lögmaður hefur hlotið undanþágu með þeim hætti sem greinir í 1. tölul. 2. mgr. 12. gr. Skrá þessi skal vera opin almenningi.

IV. KAFLI
Störf lögmanna.

18. gr.

     Lögmönnum ber í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

19. gr.

     Lögmanni ber sjálfum að starfa á skrifstofu sinni. Reki hann útibú frá skrifstofunni má hann þó fela öðrum lögmanni í þjónustu sinni að veita því forstöðu.
     Telji lögmaður sér ekki fært vegna aldurs eða heilsufars síns að hafa opna skrifstofu má hann leita undanþágu Lögmannafélags Íslands frá skyldu til þess.
     Lögmönnum er heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Slík takmörkun breytir ekki því að lögmaður ber alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans bakar öðrum með störfum sínum.
     Öðrum en lögmönnum er óheimilt að reka félag um skrifstofu lögmanns eða eiga hlut í því. Við andlát lögmanns getur þó Lögmannafélag Íslands veitt dánarbúi hans eða erfingjum tímabundna heimild til að eiga og reka slíkt félag. Sams konar heimild má veita þrotabúi ef bú lögmanns er tekið til gjaldþrotaskipta.
     Ráðherra getur heimilað, að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands, að aðrir en þeir sem nefndir eru í 4. mgr. geti átt eða rekið félag um skrifstofu lögmanns svo fremi að sérstakar ástæður mæli með því.

20. gr.

     Lögmanni er skylt að taka við skipun sem verjandi eða réttargæslumaður í opinberu máli, enda fullnægi hann til þess hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda síns.
     Að öðru leyti en leiðir af 1. mgr. er lögmanni aldrei skylt að taka að sér verk sem leitað er til hans um.

21. gr.

     Nú sækir lögmaður eða fulltrúi hans dómþing fyrir aðila, og skal hann þá talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað.
     Sé ekki sýnt fram á annað felur umboð aðila til lögmanns í sér heimild til að gera hvaðeina sem venjulegt má telja til að gæta hagsmuna fyrir dómi. Innan þeirra marka er umbjóðandi bundinn af ráðstöfun lögmanns þótt hann fari út fyrir þá heimild sem umbjóðandi hefur veitt honum.
     Lögmaður getur ekki tekið við greiðslu svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð.
     Lögmanni er skylt að inna sjálfur af hendi þau störf fyrir dómi sem honum eru falin nema umbjóðandi hans samþykki annað. Lögmaður getur þó falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.
     Umbjóðanda er ætíð heimilt að kalla aftur umboð sitt til lögmanns. Ákvæði um annað í umboði eru ekki skuldbindandi.
     Lögmaður getur á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, en gæta verður hann þess að umbjóðandi hans verði ekki af þeim sökum fyrir réttarspjöllum.

22. gr.

     Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna.
     Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans.

23. gr.

     Lögmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi.
     Dómsmálaráðherra skal setja nánari reglur um vörslufjárreikninga að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands.

24. gr.

     Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.
     Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans.
     Dómsmálaráðherra getur að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Óheimilt er lögmönnum að nota leiðbeiningar þessar í öðrum tilgangi.

25. gr.

     Lögmaður ber bótaábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna eftir almennum reglum.
     Lögmönnum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands getur dómsmálaráðherra ákveðið með reglugerð að önnur jafngild trygging geti komið í stað ábyrgðartryggingar.
     Dómsmálaráðherra skal að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands og umsögn Fjármálaeftirlitsins ákveða lágmark fjárhæðar ábyrgðartryggingar skv. 2. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka. Skal þá höfð hliðsjón af góðum venjum á sviði vátrygginga og hagsmunum viðskiptamanna lögmanna. Sjálfsáhætta vátryggingartaka samkvæmt tryggingarskilmálum hefur engin áhrif á stöðu þriðja manns.
     Lögmanni er heimilt með samningi um ákveðið verk að takmarka hámark bótaskyldu sinnar vegna rækslu þess við tiltekna fjárhæð sem nemi að minnsta kosti lágmarki ábyrgðartryggingar skv. 3. mgr. Slík takmörkun bindur aðeins viðsemjanda lögmanns og getur ekki náð til annars tjóns en þess sem stafar af einföldu gáleysi.

V. KAFLI
Ágreiningur um störf lögmanna.

26. gr.

     Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
     Hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir úrskurðarnefndina verður það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið.
     Ef lagt er fyrir úrskurðarnefndina ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um getur hún að ósk annars eða beggja aðila látið í té álitsgerð til afnota þar. Hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefnið vísar nefndin því frá sér.

27. gr.

     Nú telur einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. og getur hann þá lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
     Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum viðvörun eða áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr.

28. gr.

     Mál skal lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna með skriflegu erindi og skulu því fylgja nauðsynleg gögn. Fyrningu kröfu er slitið þegar nefndinni berst erindi um hana.
     Úrskurðarnefndinni er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir henni.
     Þegar máli skv. 26. eða 27. gr. er lokið fyrir úrskurðarnefndinni er aðila að því heimilt að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði hennar eða sátt sem er gerð fyrir henni eða leita þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist.
     Úrskurði nefndarinnar eða sátt sem kemst á fyrir henni má fullnægja með aðför eins og dómsúrskurði eða dómsátt.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

29. gr.

     Það varðar sektum að taka að sér starfa sem lögmenn mega einir gegna skv. 2. gr. ef sá sem það gerir hefur hvorki réttindi sem lögmaður né starfar sem lögmannsfulltrúi. Einnig varðar sektum að bjóða öðrum þjónustu sem lögmaður ef þann sem það gerir skortir til þess réttindi.
     Þeim einum er heimilt að nota starfsheitið lögmaður, héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður sem hefur fullgild starfsréttindi samkvæmt lögum þessum. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.
     Brot gegn 1. mgr. 22. gr., 1. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 25. gr. varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.

30. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Falla þá úr gildi lög um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942, með áorðnum breytingum.

31. gr.

     Með lögum þessum raskast ekki réttindi héraðsdómslögmanna og hæstaréttarlögmanna sem hafa verið veitt fyrir gildistöku þeirra, þar á meðal réttindi skv. 2. mgr. 9. gr. eldri laga.
     Hafi maður fyrir gildistöku laga þessara byrjað að þreyta prófraun til að afla sér réttinda sem héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður en ekki lokið henni skal hann eiga kost á að ljúka henni eftir eldri reglum fyrir 1. júlí 2000. Fer þá um skilyrði til að veita réttindin eftir ákvæðum 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 14. gr. eldri laga.
     Hafi lögmaður verið sviptur réttindum eða lagt þau inn fyrir 1. janúar 1999 eða svo hefur annars orðið ástatt fyrir honum að hann hafi fyrirgert réttindum sínum um sinn gilda ákvæði þessara laga um hvort, hvernig og hvenær hann geti öðlast réttindin á ný.
     Lögmenn, sem telja sig við gildistöku laga þessara fullnægja skilyrðum 2. mgr. 12. gr. til að njóta þargreindrar undanþágu, hafa frest til 1. apríl 1999 til að leita eftir henni.
     Þeim sem við gildistöku laga þessara fullnægja skilyrðum 14. gr. laga um málflytjendur til að öðlast leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi án þess að þreyta prófraun, sbr. 3. mgr. þeirrar greinar, öðrum en skilyrði um 30 ára aldur, má veita slík málflutningsréttindi þegar í stað, enda sé sótt um þau fyrir 1. apríl 1999.
     Nú er svo ástatt um einhvern sem greinir í 5. mgr., og hann fullnægir heldur ekki kröfu um starfsreynslu en hefur þó í sex mánuði að lágmarki verið alþingismaður, gegnt málflutningsstörfum að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi í þágu ríkis eða sveitarfélaga, og má þá veita honum slík réttindi þegar skilyrði eldri laga um starfsreynslu er fullnægt, enda sé sótt um þau innan þriggja mánaða frá því tímamarki og aldrei síðar en 1. apríl 2002.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þegar skipað er í fyrsta sinn í úrskurðarnefnd lögmanna skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og þannig koll af kolli þannig að fimmti aðalmaður ásamt varamanni verði skipaður til fimm ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ákveðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.