Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1517, 122. löggjafarþing 347. mál: vörugjald (álagning, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 89 16. júní 1998.

Lög um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Við greinina bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Skattstjórar annast álagningu vörugjalds vegna innlendrar framleiðslu og innflutnings aðila sem skráðir eru skv. 5. gr. Fjármálaráðherra getur ákveðið að fela einstökum skattstjórum að annast eftirlit, framkvæmd og álagningu vörugjalds í öðrum skattumdæmum.
  2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Skattstjóri og framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga. Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga. Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun vöru er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Hvert uppgjörstímabil aðila sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr. er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.
  3. Á eftir orðunum „skv. 5. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. kemur: eða til framleiðenda samkvæmt heimild í 10. gr.
  4. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


3. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Skattstjóri skal veita framleiðendum vöru, sem nota í framleiðslu sína hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald, heimild til að kaupa af innflytjendum, innlendum framleiðendum og aðilum sem skráðir eru skv. 5. gr. hráefni eða efnivöru án vörugjalds. Slík heimild veitir framleiðanda jafnframt heimild til endurgreiðslu á vörugjaldi af hráefni og efnivöru sem hann hefur sjálfur flutt til landsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. Í umsókn til skattstjóra skal m.a. tilgreina um hvers kyns framleiðslu er að ræða og til hvaða hráefna eða efnivöru óskað er að heimildin nái.
     Innflytjandi getur á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið endurgreitt vörugjald af vörum sem hann hefur flutt til landsins en hafa á uppgjörstímabili annaðhvort verið seldar án vörugjalds til framleiðanda eða verið nýttar í framleiðslu innflytjanda sjálfs samkvæmt heimild í 1. mgr. Innflytjandi skal tilgreina í sérstakri skýrslu til skattstjóra um slíka sölu eða nýtingu, þar með talið til hvaða aðila vara er seld, magn vöru og tegund, svo og fjárhæð vörugjalds. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi vörugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.
     Heimild samkvæmt þessari grein nær einungis til hráefnis eða efnivöru sem verður hluti af hinni endanlegu framleiðsluvöru. Heimildin nær hvorki til kaupa eða innflutnings á efnivörum til byggingar eða viðhalds á fasteignum né til nýsmíði eða viðgerða á ökutækjum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „tollalaga“ kemur: um innfluttar vörur.
  2. Á eftir orðinu „virðisaukaskatt“ kemur: um innlendar framleiðsluvörur.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
  1. Eftirfarandi tollskrárnúmer fellur brott úr A-lið viðaukans: 2106.9024.
  2. Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr B-lið viðaukans: 2202.1002 og 2202.9002.
  3. Eftirfarandi tollskrárnúmer fellur brott úr C-lið viðaukans: 8507.8000.
  4. Eftirfarandi tollskrárnúmer bætast við C-lið viðaukans: 8507.8091 og 8507.8099.
  5. Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr E-lið viðaukans: 8517.1901, 9303.2000, 9303.3000, 9305.2100, 9306.2100, 9306.2900, 9306.3009.


6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði laga þessara skulu taka til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra, þó ekki vara sem hafa verið afhentar með bráðabirgðatollafgreiðslu, svo og til allra innlendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.
     Þrátt fyrir ákvæði laganna skal júnímánuður 1998 vera eitt uppgjörstímabil. Gjalddagi vegna þess uppgjörstímabils skal vera 15. september 1998. Um álagningu og aðra framkvæmd vörugjalds vegna þess uppgjörstímabils skal fara eftir ákvæðum laganna eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1998.