Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1146, 123. löggjafarþing 183. mál: skaðabótalög (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.).
Lög nr. 37 19. mars 1999.

Lög um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Bætur fyrir atvinnutjón skal ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.
  3. Á eftir orðunum „veikinda- eða slysaforföllum“ í 2. mgr. kemur: 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði.


2. gr.

     1. og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Greiða skal þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt.
     Bætur fara eftir aldri tjónþola á tjónsdegi og skulu vera þessar fyrir algeran, 100 stiga, miska:
Aldur Krónur Aldur Krónur
49 ára og yngri 4.000.000 62 ára 3.480.000
50 ára 3.960.000 63 ára 3.440.000
51 árs 3.920.000 64 ára 3.400.000
52 ára 3.880.000 65 ára 3.360.000
53 ára 3.840.000 66 ára 3.320.000
54 ára 3.800.000 67 ára 3.280.000
55 ára 3.760.000 68 ára 3.240.000
56 ára 3.720.000 69 ára 3.200.000
57 ára 3.680.000 70 ára 3.160.000
58 ára 3.640.000 71 árs 3.120.000
59 ára 3.600.000 72 ára 3.080.000
60 ára 3.560.000 73 ára 3.040.000
61 árs 3.520.000 74 ára eða eldri 3.000.000
     Við lægra miskastig lækka fjárhæðir þessar í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni.
     Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir 4. mgr. 5. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.


5. gr.

     6. gr. laganna, sbr. lög nr. 42/1996, orðast svo:
     Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola skv. 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og eftirfarandi töflu, þannig að margfölduð séu saman örorkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við:
Aldur Stuðull Aldur Stuðull Aldur Stuðull
0 11,438 25 15,101 50 7,834
1 11,746 26 14,567 51 7,626
2 12,064 27 14,161 52 7,370
3 12,389 28 13,750 53 7,139
4 12,724 29 13,474 54 6,932
5 13,067 30 12,813 55 6,678
6 13,420 31 12,595 56 6,378
7 13,782 32 12,367 57 6,037
8 14,155 33 12,150 58 5,687
9 14,537 34 11,915 59 5,329
10 14,929 35 11,678 60 4,960
11 15,332 36 11,433 61 4,581
12 15,746 37 11,180 62 4,211
13 16,171 38 10,988 63 3,841
14 16,608 39 10,784 64 3,451
15 17,057 40 10,577 65 3,038
16 17,517 41 10,358 66 2,567
17 17,990 42 10,083 67 2,067
18 18,476 43 9,851 68 1,994
19 18,031 44 9,565 69 1,902
20 17,572 45 9,265 70 1,783
21 17,106 46 9,014 71 1,626
22 16,626 47 8,750 72 1,412
23 16,130 48 8,440 73 1,109
24 15,619 49 8,116 74 0,667
     Sé tjónþoli orðinn 75 ára á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, en hafi stundað vinnu þegar tjón varð, skal ákvarða honum bætur skv. 1. mgr. og skal þá notaður margfeldisstuðullinn 0,667.
     Bótafjárhæðin skal greidd í einu lagi.

6. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
     Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:
Aldur Kr.
66 ára og yngri 1.200.000
67 ára 1.100.000
68 ára 1.000.000
69 ára 900.000
70 ára 800.000
71 árs 700.000
72 ára 600.000
73 ára 500.000
74 ára 400.000
     Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.

7. gr.

     8. gr. laganna, sbr. lög nr. 42/1996, orðast svo:
     Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr. Bætur skulu ákveðnar eftir reglum 5.–7. gr.

8. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Í 4. og 6. gr. eru töflugildin miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skal reiknað með að margfeldisstuðull breytist hlutfallslega jafnt milli töflugilda.

9. gr.

     10. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Mat á örorku. Örorkunefnd.
     Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti skv. 2. og 3. gr. sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Heimilt er að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs, án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standa sameiginlega að slíkri beiðni.
     Í örorkunefnd eiga sæti þrír menn sem skipaðir eru af dómsmálaráðherra til sex ára í senn. Skulu tveir nefndarmanna vera læknar, en einn lögfræðingur og er hann formaður nefndarinnar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Ráðherra skipar varamenn eftir sömu reglum og aðalmenn. Ráðherra er heimilt, að ósk nefndarinnar, að fjölga nefndarmönnum tímabundið í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Um hæfi nefndarmanna til þess að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.
     Örorkunefnd skal semja töflur um miskastig.
     Ráðherra setur reglugerð um starfsháttu örorkunefndar. Í reglugerðinni skal m.a. vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar og jafnframt ákveðið hvernig staðið skuli að birtingu helstu álitsgerða hennar. Í reglugerð skal og kveða á um gjald fyrir álitsgerðir nefndarinnar.

10. gr.

     2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     Lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda bera vexti frá því að tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku skv. 5. gr. Vextirnir skulu nema 4,5% á ári.

13. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að láta þann sem:
  1. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða
  2. ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við.
     Þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns má gera að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.

14. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
     Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við lánskjaravísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (3282) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr., sbr. einnig lög nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs.

15. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna.
     Ákvæði til bráðabirgða, sbr. lög nr. 42/1996 og nr. 149/1997, fellur brott.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.