Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1182, 123. löggjafarþing 471. mál: raforkuver (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir).
Lög nr. 48 19. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 1. gr., svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
     Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka eftirtaldar virkjanir:
  1. Virkjun fallvatns sem veitt er um Vatnsfellsveitu úr Þórisvatni í Krókslón (Vatnsfellsvirkjun) með allt að 110 MW afli.
  2. Virkjun á ármótum Köldukvíslar og Tungnaár við Búðarháls (Búðarhálsvirkjun) með allt að 120 MW afli.
  3. Jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi við Námafjall (Bjarnarflagsvirkjun) með allt að 40 MW afli, að uppfylltum skilyrðum samkvæmt lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

     Þá er iðnaðarráðherra heimilt að veita Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes í Skagafirði (Villinganesvirkjun) með allt að 40 MW afli.
     Veiting leyfa skv. 1. og 2. mgr. er háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og því að uppfyllt séu skilyrði annarra laga. Þá getur ráðherra sett nánari skilyrði í virkjunarleyfi.

2. gr.

     Í stað „1. gr.“ í 3. og 4. gr. laganna, er verða 4. og 5. gr., kemur hvarvetna: 1. og 2. gr.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum fellur brott.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra fellur brott lokamálsliður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með áorðnum breytingum. Við 2. mgr. sömu greinar bætist: Vatnsfellsvirkjun, með allt að 110 MW afli, Búðarhálsvirkjun, með allt að 120 MW afli, og Bjarnarflagsvirkjun, með allt að 40 MW afli, að uppfylltum skilyrðum samkvæmt lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.