Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1200, 123. löggjafarþing 484. mál: landshlutabundin skógræktarverkefni.
Lög nr. 56 19. mars 1999.

Lög um landshlutabundin skógræktarverkefni.


1. gr.

Tilgangur.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta í landinu og verndun og umhirðu þess skóglendis sem fyrir er.

2. gr.

Landshlutaverkefni.
     Landbúnaðarráðherra er heimilt eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni og að fengnu áliti Skógræktar ríkisins að stofna til sérstakra landshlutaverkefna í skógrækt. Landshlutaverkefni í skógrækt eru samkvæmt lögum þessum sjálfstæð verkefni sem fá framlög til skógræktar á tilteknu landsvæði.

3. gr.

Skilgreiningar.
      Fjölnytjaskógrækt. Í lögum þessum er greint milli tveggja greina fjölnytjaskógræktar, annars vegar ræktunar timburskóga, með það markmið að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota, og hins vegar ræktunar landbótaskóga, en þá er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi.
      Skjólbelti. Skjólbelti eru í lögum þessum greind í tvo flokka. Annars vegar eru belti sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru og skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði og hins vegar belti sem hugsuð eru sem undanfari skógræktar á bersvæði.

4. gr.

Landshlutaáætlun og samningar við þátttakendur.
     Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal vera til a.m.k. 40 ára og skiptast í tíu ára tímabil. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis.
     Gera skal samninga sem landbúnaðarráðherra staðfestir við hvern og einn þátttakanda verkefnis og þinglýsa þeim á viðkomandi jörð. Samningar skulu taka til afmarkaðs lands sem tekið er til ræktunar í hverju tilviki og kveða á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkissjóðs í væntanlegum afrakstri og annað sem þurfa þykir.

5. gr.

Kostnaður.
     Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði hvers landshlutaverkefnis greiðist með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
     Landbúnaðarráðherra samþykkir skógræktar- og skjólbeltakostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins og verkefnisstjórna.
     Landshlutaverkefnin greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða þau ákveðinn hluta af samþykktum kostnaði við skógrækt og skjólbeltarækt á lögbýlum óháð búsetu, með kvöðum um endurgreiðslu til ríkissjóðs, sbr. 6. gr. Hlutfallsleg greiðsla landshlutaverkefnanna af samþykktum kostnaði er ákveðin í reglugerð settri af landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum stjórna verkefnanna.

6. gr.

Skipting tekna af landshlutaverkefnum.
     Til ríkissjóðs skal greiða 15% af söluverðmæti hvers rúmmetra trjáviðar á rót og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga. Undanþegin er grisjun fyrstu 40 árin, enda sé hún skóginum nauðsynleg að mati Skógræktar ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu og innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.

7. gr.

Forgangur að vinnu.
     Skógareigendur, sem hafa til umráða jarðir sem teknar eru til skógræktar samkvæmt samningi við viðkomandi landshlutaverkefni, skulu hafa forgang að vinnu á þeirra vegum. Nýti þeir ekki forgangsréttinn skulu aðrir skógareigendur sem aðild eiga að landshlutaverkefninu hafa forgang að vinnunni.

8. gr.

Stjórn og rekstur.
     Landbúnaðarráðherra skipar fjögurra manna stjórn fyrir hvert verkefni til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af félögum skógarbænda á viðkomandi svæði, annar af Skógrækt ríkisins, sá þriðji skipaður af skógræktarfélögum á viðkomandi svæði og sá fjórði er skipaður án tilnefningar. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur. Skógrækt ríkisins veitir aðstoð og faglegar leiðbeiningar við verkefnin samkvæmt samstarfssamningi viðkomandi aðila.

9. gr.

Ársskýrslur og ársreikningar.
     Ársskýrslur og ársreikningar landshlutaverkefna skulu samþykktir af viðkomandi stjórn og skulu enn fremur staðfestir af landbúnaðarráðherra. Þar skal koma fram staða framkvæmda á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna.
     Reikninga landshlutaverkefna skal birta í Stjórnartíðindum, endurskoðaða af Ríkisendurskoðun.

10. gr.

Önnur verkefni.
     Landbúnaðarráðherra getur, í samráði við skógræktarstjóra, falið stjórn landshlutaverkefna umsjón skógræktarverkefna þar sem einstaklingum og félagasamtökum er veittur stuðningur til skógræktar.

11. gr.

Reglugerð og almenn lagaákvæði.
     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð skóga landshlutaverkefna samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Að fjórum árum liðnum skal endurskoða lög þessi ásamt lögum um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og Suðurlandsskóga, nr. 93/1997.

II.
     Þar til endurskoðun laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, er lokið, sbr. fyrra bráðabirgðaákvæði laga nr. 63/1993, skal landbúnaðarráðherra láta fara fram mat á umhverfisáhrifum landshlutaáætlunar áður en stofnað er til landshlutaverkefna.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.