Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1198, 123. löggjafarþing 521. mál: almannatryggingar og félagsleg aðstoð (úrskurðarnefnd o.fl.).
Lög nr. 60 22. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

     2. og 3. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     Í stað 7. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 7. gr.–7. gr. b, svohljóðandi:
     
     a. (7. gr.)
     Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögum þessum leggur sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.
     Ráðherra skipar þrjá menn í nefndina og jafnmarga til vara til sex ára í senn. Hæstiréttur tilnefnir tvo menn. Skal annar þeirra uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og vera formaður nefndarinnar en hinn skal vera læknir og varaformaður hennar. Einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
     Heimilt er að endurskipa nefndarmenn.
     
     b. (7. gr. a.)
     Kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Á skrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins og umboðsmanna hennar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
     Tryggingastofnun ríkisins skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
     Nefndinni skal heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausnum mála og til almennra skrifstofustarfa eftir nánari ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni.
     Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn ef hún telur þörf á. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.
     Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál.
     Formaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
     Um málsmeðferð nefndarinnar fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     
     c. (7. gr. b.)
     Úrskurðarnefnd almannatrygginga er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.
      Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.
     Tryggingaráð getur höfðað dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.
     Nefndin skal birta helstu úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti. Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna.
     Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

     2. málsl. 3. mgr. 9. gr. a laganna orðast svo: Um málskot fer skv. 7. gr.–7. gr. b.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur árlegur ellilífeyrir, 188.736 kr., greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skal nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma, sbr. síðasta málslið 2. mgr. Þá er og heimilt að úrskurða hvoru hjónanna um sig einstaklingslífeyri ef þau eru eigi samvistum af heilsufarsástæðum.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. 1. málsl. og a-liður 1. mgr. orðast svo: Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla A, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:
  1. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu.
 2. Í stað orðsins „lögheimilistíma“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: búsetutíma.


6. gr.

     Í stað orðanna „átt hér lögheimili“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: búið hér á landi.

7. gr.

     3. og 4. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Að jafnaði skal móðir hafa búsetu hér á landi, sbr. I. kafla A, við fæðingu barns og hafa búið hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Nánar skal kveðið á um búsetuskilyrði í reglugerð.

8. gr.

     1. og 2. málsl. a-liðar 16. gr. laganna orðast svo: Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt grein þessari, enda hafi þeir að jafnaði haft búsetu hér á landi, sbr. I. kafla A, síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna og séu búsettir hér á landi við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um búsetuskilyrði í reglugerð.

9. gr.

     3. mgr. 16. gr. a laganna orðast svo:
     Faðir í fæðingarorlofi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks í hlutfalli við lengd orlofsins og að uppfylltum skilyrðum um búsetu, sbr. 1. mgr. 15. gr. Þá á hann rétt á hlutfallslegri greiðslu fæðingardagpeninga í samræmi við búsetuskilyrði í a-lið 16. gr. og ákvæði d-liðar 16. gr.

10. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Heimilt er þó að greiða bætur samkvæmt nánari reglum sem tryggingaráð setur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta.

11. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að veita undanþágu frá slysatryggingu skv. a-lið 1. mgr. eftir nánari reglum er tryggingaráð setur ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf.

12. gr.

     2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingaráð setur reglur um endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti fyrir sjúkrahjálp sem sérstakir samningar sjúkratrygginga samkvæmt framansögðu ná ekki yfir.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði, sbr. I. kafla A, telst sjúkratryggður, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
 2. Í stað orðsins „lögheimilisskilyrði“ í 4. mgr. kemur: búsetuskilyrði.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
 1. F-liður 1. mgr. orðast svo: Að greiða kostnað vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar. Tryggingaráð setur reglur um greiðslu kostnaðar samkvæmt þessum staflið.
 2. 2. mgr. fellur brott.


15. gr.

     2. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingaráð skal setja reglur um að hvaða marki Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að endurgreiða manni kostnað, vegna veikinda eða slyss erlendis, sem hann fengi ella ekki endurgreiddan frá stofnuninni.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Heimilt er þó að víkja frá þessum tímamörkum samkvæmt reglum er tryggingaráð setur.
 2. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslu slíkra dagpeninga.


17. gr.

     2. málsl. 64. gr. laganna orðast svo: Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eiga lögheimili“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eru búsett.
 2. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi mæðra- eða feðralaun samkvæmt reglum er tryggingaráð setur, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.


19. gr.

     9.–12. málsl. 3. gr. laganna orðast svo: Nú verður úrskurði skv. 1. mgr. 13. gr. barnalaga eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því og er þá heimilt að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, í samræmi við þessa málsgrein, eftir reglum er tryggingaráð setur. Tryggingastofnun getur krafist framlagningar skattframtala með umsóknum um barnalífeyri. Heimilt er að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, samkvæmt reglum er tryggingaráð setur, ef ljóst er að ungmenninu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barnalaga. Í reglum sem tryggingaráð setur um rétt til barnalífeyris samkvæmt framansögðu er heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hefur.

20. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að hækka umönnunargreiðslur um allt að 25% eftir reglum sem tryggingaráð setur.

21. gr.

     Orðin „á lögheimili hér á landi og“ í 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

22. gr.

     1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar almannatrygginga og um hækkun bóta.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í fyrsta skipti er skipað verður í úrskurðarnefnd almannatrygginga skal formaður skipaður til sex ára, varaformaður til fjögurra ára og þriðji nefndarmaðurinn til tveggja ára. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.