Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 527, 125. löggjafarþing 101. mál: framhaldsskólar (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.).
Lög nr. 100 27. desember 1999.

Lög um breyting á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til allt að fimm ára í senn, áfangastjóra til allt að fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Kennari, sem ráðinn er aðstoðarskólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir starfi aðstoðarskólameistara. Skólameistari ræður einnig kennara, námsráðgjafa, starfsfólk skólasafns og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd.

2. gr.

     5. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Almenn námsbraut er ætluð nemendum sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám og nemendum sem uppfylla ekki skilyrði til inngöngu á lengri námsbrautir framhaldsskólans. Nám á brautinni getur veitt undirbúning fyrir nám á bók-, list- eða starfsnámsbrautum og getur jafnframt verið hluti af því.

3. gr.

     18. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Í stað 2. mgr. 24. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Námi á framhaldsskólastigi er veitir undirbúning til náms á háskólastigi lýkur með stúdentsprófi. Stúdentspróf skulu vera samræmd í tilteknum greinum. Í reglugerð skulu sett ákvæði um samræmingu stúdentsprófa og framkvæmd þeirra.
     Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi. Ráðherra kveður á um samræmingu sveinsprófa með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs.
     Menntamálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að lokapróf í tilteknum greinum af öðrum námsbrautum skuli samræmd að fenginni umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs ef um starfsnám er að ræða.

5. gr.

     1. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
     Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi menntamálaráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við skipun fulltrúa í starfsgreinaráð skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Formaður skal kjörinn úr hópi fulltrúa til tveggja ára í senn. Ef ekki tekst að skipa starfsgreinaráð er menntamálaráðherra heimilt að skipa tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum starfsgreinaráðs. Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skipan starfsgreinaráða að fengnum tillögum frá samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi.

6. gr.

     Í stað ártalanna „2000–2001“ í 47. gr. laganna kemur: 2003–2004.

7. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
     Ákvæði í 24. gr. um samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skulu ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2003–2004.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.