Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1103, 120. löggjafarþing 94. mál: framhaldsskólar (heildarlög).
Lög nr. 80 11. júní 1996.

Lög um framhaldsskóla.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi taka til skólastarfs á framhaldsskólastigi er tekur við af skyldunámsstigi og allt til háskólastigs, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1974, um skólakerfi. Framhaldsskólar er samnefni þeirra skóla er undir lög þessi falla. Þeir eru: fjölbrautaskólar, iðn- og verkmenntaskólar og menntaskólar, svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Einstakar skólastofnanir geta borið sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki. Setja skal reglugerð um sérskóla sem starfa samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Hlutverk.

2. gr.

     Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám.
     Framhaldsskólinn skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar.

III. KAFLI
Starfstími.

3. gr.

     Árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum skal eigi vera skemmri en níu mánuðir. Þar af skulu kennsludagar ekki vera færri en 145. Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfstíma skóla og leyfisdaga.

IV. KAFLI
Stjórnun.

4. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf íframhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf. Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd einstakra þátta sem hér eru nefndir.
     Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingu á fjárlögum til hvers skóla og annast fjárhagslegt eftirlit, svo og eftirlit með því að framhaldsskólar hafi fullnægjandi aðstöðu hvað varðar húsnæði og búnað.

5. gr.

     Samstarfsnefnd framhaldsskóla, skipuð skólameisturum og rektorum undir forsæti menntamálaráðherra eða staðgengils hans, fjallar um sameiginleg málefni framhaldsskóla og samræmir störf þeirra.

6. gr.

     Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Ráðherra getur heimilað sveitarstjórn/sveitarstjórnum að tveir eða fleiri skólar sameinist um eina skólanefnd.
     Í skólanefnd skulu sitja fimm menn. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar/sveitarstjórna og þrír án tilnefningar og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi sem á aðild að skólanum. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Áheyrnarfulltrúar eru tveir með málfrelsi og tillögurétt, annar tilnefndur af kennurum skólans en hinn af nemendafélagi skólans. Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
     Sé um sérskóla að ræða er ráðherra heimilt með reglugerð að víkja frá reglum um skipan skólanefndar.

7. gr.

     Skólanefnd markar áherslur í starfi skólans. Hún gerir árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára sem háð er samþykki menntamálaráðherra. Skólanefnd gerir í upphafi hvers árs fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt. Skólanefnd skal gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir rekstrarstöðu skólans a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. í febrúar og ágúst.
     Skólanefnd ákveður upphæð innritunargjalds og efnisgjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf námsannar eða skólaárs. Upphæð innritunargjalds skal taka mið af kostnaði vegna ýmiss konar kennsluefnis og pappírsvara sem skóli lætur nemendum í té án sérstaks endurgjalds og nauðsynlegt er fyrir starfsemi skólans. Innritunargjald skal þó aldrei vera hærra en 6.000 kr. á skólaári. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma. Efnisgjald er innheimt af nemendum sem njóta verklegrar kennslu og skal upphæð þess miðast við þriðjung af raunverulegum kostnaði vegna efnis sem skóli lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Efnisgjald skal aldrei vera hærra en 25.000 kr. á skólaári eða 12.500 kr. á önn. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um innritunar- og efnisgjöld.
     Heimilt er skólanefnd að stofna sérstaka sjóði við framhaldsskóla. Skal um þá sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.
     Menntamálaráðherra setur reglugerð um skipan og störf skólanefnda.

8. gr.

     Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
     Skólaráð skal vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað fulltrúum kennara og nemenda, svo og aðstoðarskólameistara og áfangastjóra starfi þeir við skólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti.

9. gr.

     Almennur kennarafundur í framhaldsskóla fjallar um stefnumörkun í starfi skólans, um námsskipan, kennsluhætti, þar með talið námsmat, og aðra starfsemi og kemur tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð. Kennarafund skal halda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á hverju skólaári. Skylt er skólameistara að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða þriðjungur fastra kennara skólans krefjast þess.
     Nánari ákvæði um starfssvið kennarafundar skal setja í reglugerð.

10. gr.

     Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendaráð sem er fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra. Nemendaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum. Almenn samtök nemenda í hverjum skóla, nemendafélög, setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs.
     Gjöld til nemendasjóða eru ákveðin af nemendafélögum skóla sem sjá um innheimtu og meðferð fjárins. Bókhald nemendafélags skal háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður skólans.

V. KAFLI
Starfsfólk.

11. gr.

     Um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa fer eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingu hverju sinni.
     Menntamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar. Kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara.
     Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara, áfangastjóra, deildarstjóra, kennara, námsráðgjafa, starfsfólk skólasafns og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd.
     Hafi umsækjandi um stöðu kennara ekki réttindi til kennslu við framhaldsskóla skal fara með umsókn hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
     Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara. Setja skal í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið námsráðgjafa og starfsfólks skólasafna. Setja má í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið annarra starfsmanna.
     Menntamálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um starfssvið skólameistara, kennara og annarra starfsmanna skóla eftir því sem við á.

12. gr.

     Hafi kennari starfað a.m.k. í fimm ár og óski að fá sérstakt námsorlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni skal hann senda skólanefnd og menntamálaráðuneyti beiðni um námsorlof ásamt greinargerð um hvernig hann hyggst verja námsorlofstímanum. Ráðuneytið getur veitt honum námsorlof allt að einu ári á föstum embættislaunum.
     Menntamálaráðherra getur veitt kennara, er nýtur námsorlofs, styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við námsorlofið ef hann ver því til að stunda reglulegt nám við viðurkennda menntastofnun eða til námsferðar njóti hann ekki sambærilegs styrks frá öðrum. Að loknu námsorlofi er kennurum skylt að senda ráðuneytinu skýrslu um störf sín á námsorlofstíma.
     Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara og annarra stjórnenda skóla. Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd námsorlofs kennara.

13. gr.

     Í öllum framhaldsskólum skal rækja heilsuvernd. Sé heilsugæslustöð starfandi í nágrenni skólans skal fela henni að annast heilsuverndina.
     Héraðslæknar hafa umsjón með þessari starfsemi undir yfirstjórn heilbrigðisstjórnar og líta eftir að aðbúnaður og aðstaða nemenda og starfsmanna sé viðhlítandi. Starfsfólk við heilsuvernd í skólum skal hafa náið samstarf við skólameistara um framkvæmdina.

14. gr.

     Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um náms- og starfsval og persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á.

VI. KAFLI
Inntökuskilyrði.

15. gr.

     Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.
     Inntaka nemenda á einstakar námsbrautir framhaldsskólans ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Í reglugerð skal kveðið á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Heimilt er skólameistara, að undangengnu mati, að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstakar námsbrautir framhaldsskóla þótt hann uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur við lok grunnskóla.
     Nemendum, sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla, skal standa til boða fornám eða nám í sérstökum deildum á framhaldsskólastigi. Inntaka nemenda í framhaldsskóla er á ábyrgð skólameistara.

VII. KAFLI
Námsskipan.

16. gr.

     Námsbrautir framhaldsskóla skiptast í starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir, listnámsbrautir og almenna námsbraut. Af öllum námsbrautum skulu vera leiðir til frekara náms, annaðhvort beinar eða með skilgreindri viðbót náms.
     Á starfsnámsbrautum er nám í löggiltum iðngreinum og annað starfsnám. Nemendur á starfsnámsbrautum skulu einnig eiga kost á viðbótarnámi til undirbúnings námi á háskólastigi. Í reglugerð skal kveðið á um hverjar skuli vera löggiltar starfsgreinar.
     Bóknámsbrautir veita undirbúning að námi á háskólastigi. Bóknámsbrautir eru þrjár: tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut.
     Listnámsbrautir veita undirbúning að frekara námi í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi.
     Almenn námsbraut veitir undirbúning fyrir nám á bók-, list- og starfsnámsbrautum og getur jafnframt verið hluti af því námi.
     Stofnun nýrra námsbrauta er háð samþykki menntamálaráðherra.
     Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd ákvæða þessarar greinar.

17. gr.

     Námsbrautir framhaldsskóla skulu skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins. Þær skiptast í brautarkjarna, kjörsvið og frjálst val. Hlutfall milli þessara þátta er ákveðið í aðalnámskrá og getur verið mismunandi eftir brautum.
     Brautarkjarni er skyldunám brautar. Þar eru sérgreinar brautarinnar og námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu.
     Kjörsvið er frekari sérhæfing á brautinni. Það er skipulagt sem heild, ýmist með samröðun námsáfanga eða í stórum heildstæðum áföngum með áherslu á fræðileg viðfangsefni. Starfsnám og viðurkennt listnám á framhaldsskólastigi má meta til kjörsviðs í námi á bóknámsbrautum að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind eru í aðalnámskrá.
     Frjálst val námsgreina, sem skilgreindar eru í aðalnámskrá framhaldsskóla og kenndar eru í viðkomandi skóla, gefur nemendum kost á að kynnast list-, verk- og fræðasviðum að eigin vali.

18. gr.

     Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun og starfrækslu fornáms við framhaldsskóla. Fornám er skipulagt sem eins árs nám fyrir nemendur sem ekki hafa náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um fornám og skilyrði fyrir stofnun þess.

19. gr.

     Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
     Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur. Menntamálaráðherra setur reglugerð með nánari ákvæðum um kennslu og nám fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

20. gr.

     Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Menntamálaráðherra getur heimilað að stofnað verði til sérstaks grunnnáms í íslensku við framhaldsskóla fyrir þessa nemendur. Íslenskir nemendur sem hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa þar af leiðandi litla kunnáttu í móðurmálinu skulu eiga kost á sérstakri kennslu í íslensku. Í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt þessara nemenda til kennslu í íslensku, svo og um tilhögun og mat á náminu. Einnig skal í reglugerð kveðið á um rétt heyrnarlausra nemenda til sérstakrar íslenskukennslu.

VIII. KAFLI
Námskrár og mat.

21. gr.

     Aðalnámskrá, er menntamálaráðherra setur, er meginviðmiðun skólastarfs. Í henni eru útfærð markmið framhaldsskóla og skilgreind markmið einstakra námsbrauta og námsgreina, svo og námslok. Í aðalnámskrá skulu vera almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda, svo og meðferð ágreiningsmála.
     Í aðalnámskrá skal kveðið á um uppbyggingu einstakra námsbrauta, samhengi í námi og meðallengd námstíma á hverri braut. Þar er ákveðinn lágmarksfjöldi kennslustunda í einstökum námsgreinum og inntak í megindráttum.
     Í aðalnámskrá skal mælt fyrir um námsmat, þar með talin próf og vitnisburð. Þar komi fram hvaða kröfur nemandi þarf að uppfylla til þess að hann teljist hafa lokið einstökum áföngum náms með fullnægjandi árangri og lágmarkskröfur til þess að standast tiltekin lokapróf. Þar skal kveðið á um hversu oft nemandi má endurtaka próf og birtar reglur um rétt nemenda til að sjá prófúrlausnir sínar.
     Í aðalnámskrá eru ákvæði um mat á starfsþjálfun sé hún hluti námsins, mat á námi þegar nemendur flytjast milli skóla og skilyrði þess að flytjast milli námsbrauta. Í aðalnámskrá skal setja viðmiðunarreglur um skólanámskrár og mat á skólastarfi.
     Tilkynning um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skal birt í Stjórnartíðindum.

22. gr.

     Í hverjum skóla skal gefa út skólanámskrá þar sem gerð er grein fyrir námsframboði, lengd og innihaldi námsáfanga og skiptingu námsgreina á námsannir og/eða námsár. Þarskal einnig gerð grein fyrir áherslum í starfi skólans, kennsluháttum, námsmati og stjórnunarháttum, svo sem gæðastjórnun.
     Í skólanámskrá geri skólar grein fyrir hvernig ná skuli því markmiði framhaldsskóla að námið stuðli að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Skólanámskrá skal samþykkt af skólanefnd að fenginni umsögn almenns kennarafundar. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.

23. gr.

     Sérhver framhaldsskóli skal innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Á fimm ára fresti skal utanaðkomandi aðili gera úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla.

24. gr.

     Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara og deildarstjóra. Matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá.
     Lokapróf úr framhaldsskóla, svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum, er veitt geta rétt til frekara náms eða réttindi til starfa, skulu vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Í reglugerð skal einnig kveðið nánar á um framkvæmd samræmdra prófa í framhaldsskólum, svo og sveinsprófa.

IX. KAFLI
Starfsnám.

25. gr.

     Starfsnám skal stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta við hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi.
     Starfsnám skiptist á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla. Námið er bóklegt og verklegt og skal mynda sem samfelldasta heild svo að nemendur fái betur skilið tengsl fræðilegra og hagnýtra þátta. Áhersla skal lögð á að innihald starfsnáms taki mið af þörfum starfsgreina fyrir fagmenntun starfsfólks á hverjum tíma.

26. gr.

     Menntamálaráðherra skipar samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð 18 fulltrúum, þar af 12 tilnefndum af eftirtöldum aðilum atvinnulífs: fimm frá Alþýðusambandi Íslands, þar af skal einn vera fulltrúi nema, einn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fimm frá Vinnuveitendasambandi Íslands og einn frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Leitast skal við að fulltrúar atvinnulífsins komi úr sem flestum atvinnugreinum. Auk þess sitja í nefndinni einn fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveir fulltrúar tilnefndir sameiginlega af samtökum kennara og skólastjórnenda, og skal annar þeirra vera starfsmenntakennari en hinn stjórnandi starfsmenntaskóla, og þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar.
     Samtök atvinnurekenda, launþega og sveitarfélaga greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í samstarfsnefndinni en menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af störfum fulltrúa menntamálaráðherra og leggur nefndinni til skrifstofuþjónustu.

27. gr.

     Samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi stuðlar að tengslum skóla og atvinnulífs og er menntamálaráðherra til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi og setningu almennra reglna um skipan og framkvæmd starfsnáms. Nefndin gerir tillögur um skipan starfsgreina í starfsgreinaflokka í samráði við samtök atvinnurekenda og launþega í viðkomandi greinum, forgangsröðun verkefna í starfsnámi, svo og sérstakar tilraunir og þróunarverkefni. Nefndin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi við staðfestingu menntamálaráðherra.

28. gr.

     Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi menntamálaráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Allar starfsgreinar, sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi, skulu eiga kost á fulltrúaaðild að starfsgreinaráði og skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Formaður skal kjörinn úr hópi fulltrúa til tveggja ára í senn. Ef ekki tekst að skipa starfsgreinaráð er menntamálaráðherra heimilt að skipa tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum starfsgreinaráðs.
     Samtök atvinnurekenda og launþega greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði og menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af störfum fulltrúa menntamálaráðherra og af sérfræðilegri vinnu við námskrárgerð.

29. gr.

     Starfsgreinaráð skilgreinir þarfir starfsgreina fyrir kunnáttu og hæfni starfsmanna og setur fram markmið starfsnáms.
     Starfsgreinaráð gerir tillögur um uppbyggingu starfsnáms og námskrá í sérgreinum viðkomandi starfsnáms, svo og um tilhögun námsmats, þar með talin sveinspróf og eftirlit með gæðum kennslu og námsefnis. Það gerir einnig tillögur að skiptingu náms í skóla og á vinnustað, svo og reglum um vinnustaðanám, viðurkenningu á vinnustöðum til að taka nema í starfsþjálfun eða á námssamning og aðstöðu, búnað og kennarakost skóla sem annast starfsnám.
     Starfsgreinaráð skal hafa frumkvæði að tillögugerð um breytta skipan náms og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum er varða menntun í starfsgreinum er undir ráðið heyra.
     Að fengnum tillögum starfsgreinaráðs gefur menntamálaráðherra út námskrá í sérgreinum starfsnáms sem hluta af aðalnámskrá framhaldsskóla og reglur um framkvæmd starfsnáms í einstökum starfsgreinum.

30. gr.

     Til að stuðla að sem bestu samstarfi skóla og atvinnulífs og ýta undir frumkvæði þeirra við þróun starfsnáms er skólanefnd heimilt að setja á fót eina eða fleiri ráðgjafarnefndir við skóla með fulltrúum atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi og skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Skólar leiti til starfsgreinaráða um tilnefningar fulltrúa í ráðgjafarnefndir í byggðarlagi.

31. gr.

     Menntamálaráðherra getur, að fenginni umsögn starfsgreinaráðs og stofnaðila, gert framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla um lengri eða skemmri tíma. Í samráði við starfsgreinaráð hefur kjarnaskóli forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir í starfsnámi og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.
     Í samningi, er menntamálaráðherra gerir við þá stofnun er tekur að sér hlutverk kjarnaskóla, skal verkefnið skilgreint, stjórnun þess, lengd samningstíma og hvernig úttekt þess skuli háttað. Hagsmunaaðilar á vinnumarkaði geta átt aðild að slíkum samningi.

32. gr.

     Verknám og starfsþjálfun á vinnustað byggist á ákvæðum aðalnámskrár og reglum um vinnustaðanám í viðkomandi starfsgrein. Um vinnustaðanám skal gera sérstakan starfsþjálfunarsamning milli skóla og vinnustaðar eða námssamning milli nema og vinnuveitanda.
     Námssamningur skal undirritaður við upphaf vinnustaðanáms og staðfestur innan eins mánaðar. Þar skal tilgreindur reynslu- og gildistími samningsins. Ákvæði um laun og önnurstarfskjör skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga að því er varðar nema í viðkomandi starfsnámi.
     Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, skulu vera ákvæði um starfsþjálfunarsamninga. Þar skal einnig kveðið á um form, staðfestingu og skráningu námssamninga, svo og samningsslit og meðferð ágreiningsefna er upp kunna að koma varðandi framkvæmd samnings. Áður en reglugerð þessi er sett skal leitað umsagnar aðila vinnumarkaðar og samtaka nemenda.

X. KAFLI
Fullorðinsfræðsla og endurmenntun.

33. gr.

     Menntamálaráðherra getur heimilað framhaldsskóla að bjóða nám í öldungadeildum. Nám í öldungadeildum skal vera jafngilt námi á einstökum námsleiðum framhaldsskólans, en skipulagning náms og kennsluhættir taki mið af því að um fullorðna nemendur er að ræða.
     Fyrir kennslu í slíku námi skulu nemendur greiða gjald sem nemur sem næst þriðjungi kennslulauna. Menntamálaráðherra setur reglur um hlutdeild öldungadeildarnemenda í efniskostnaði. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skulu sett í reglugerð.

34. gr.

     Framhaldsskóla er heimilt, með samþykki menntamálaráðherra, að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám í samráði eða samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa, t.d. með farskólasniði.
     Halda skal kostnaði vegna þessara námskeiða aðgreindum frá öðrum rekstri skólans og skal hann greiddur að fullu af þeim aðilum er að námskeiðum standa með skólanum eða með þátttökugjöldum.
     Gera skal samning milli samstarfsaðila og skólans þar sem gengið er frá fyrirkomulagi og full greiðsla kostnaðar tryggð.

35. gr.

     Framhaldsskóla er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að stofna, í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa, fullorðinsfræðslumiðstöð, sbr. 33. og 34. gr. Samstarfsaðilar skulu gera með sér samning um starfsemina. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skal setja í reglugerð.

XI. KAFLI
Skólasafn.

36. gr.

     Í öllum framhaldsskólum skal vera skólasafn. Hlutverk þess er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við húsnæði skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum á skólasafni.
     Í starfsemi skólasafns skal leggja áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðri leit upplýsinga og notkun gagnabanka.

XII. KAFLI
Stofnun og bygging framhaldsskóla.

37. gr.

     Ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, geta haft frumkvæði að stofnun nýs framhaldsskóla en skóli verður þó eigi stofnaður nema með samþykki Alþingis. Ákvæði þetta á þó ekki við um skóla sem stofnaðir kunna að verða samkvæmt ákvæðum 41. gr.
     Standi ríki og sveitarfélag/sveitarfélög sameiginlega að stofnun framhaldsskóla skal gera samning milli aðila um nýframkvæmdir, stofnbúnað og endurbyggingu húsnæðis sem ríki og sveitarfélög samþykkja að standa að vegna framhaldsskóla. Þar skulu m.a. vera ákvæðium stjórn framkvæmda, byggingarhraða og greiðslustreymi. Heimilt er að fela sveitarfélögum, sem aðild eiga að framhaldsskóla, að fara með undirbúning og umsjón með byggingarframkvæmdum.
     Samningar um framkvæmdir skulu undirritaðir af menntamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum hins vegar. Fjármálaráðherra skal kynna fjárlaganefnd slíka samninga.
     Kostnaður við byggingarframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð og stofnbúnað framhaldsskóla og heimavista við þá skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% áætlaðs kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaður) þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast undirbúning og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki. Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Þegar ríkissjóður ber ábyrgð á undirbúningi verks og stjórnar framkvæmdum, án íhlutunar sveitarfélags eða sveitarfélaga, greiðir sveitarfélag eða sveitarfélög 40% miðað við normkostnað en ríkissjóður hinn hlutann. Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða að fengnu samþykki fjárlaganefndar.
     Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðist allur stofnkostnaður úr ríkissjóði.
     Þar sem heimavistir verða reistar í tengslum við framhaldsskóla má gerð húsnæðis og búnaðar miðast við að nýta megi aðstöðuna til gistihúsarekstrar utan reglulegs skólatíma. Um umframkostnað, sem af því kann að leiða, skal samið sérstaklega milli byggingaraðila. Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal gerður sérstakur samningur í samráði við menntamálaráðuneyti og hann staðfestur af skólanefnd.
     Menntamálaráðherra skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis fyrir framhaldsskóla og málsmeðferð varðandi undirbúning framkvæmda samkvæmt þessari grein. Menntamálaráðuneytið skal að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglur um viðmiðun stofnkostnaðar og búnaðar (norm) er skipting áætlaðs byggingarkostnaðar miðist við.

38. gr.

     Skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða.
     Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsskólanáms skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.

XIII. KAFLI
Rekstur framhaldsskóla.

39. gr.

     Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur til fjárveitingar á fjárlögum til hvers skóla á grundvelli samþykktrar kennslu- og fjárhagsáætlunar skólans til þriggja ára. Áætlun þessi skal endurskoðuð árlega með tilliti til nemendafjölda skólans.
     Ríkissjóður greiðir allan launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa. Menntamálaráðherra skal gefa út reglugerð þar sem settar eru fram reglur (reiknilíkan) til að reikna út kennslukostnað skóla. Við útreikninga þessa skal miðað við fjölda nemenda, lengd og tegund náms, fjölda kennslustunda á viku samkvæmt aðalnámskrá, kostnað sem leiðir af kjarasamningum og annað sem kann að skipta máli. Í reglugerð þessari skulu einnig vera viðmiðunarreglur um framlög til annarra starfa en kennslu.
     Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað skóla, svo og viðhald húsa og tækja. Rekstrarframlag er greitt til skóla samkvæmt ákvæðum í samningi er gerður skalvið menntamálaráðuneytið. Heimilt er skólanefnd, ef þörf krefur, að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar.
     Meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkissjóðs skal greitt af sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis sem ákveðin er í fjárlögum í samræmi við sérstaka viðhaldsáætlun til þriggja ára í senn sem menntamálaráðherra gerir. Um undirbúning viðhaldsframkvæmda og umsjón með þeim fer með sama hætti og aðrar slíkar framkvæmdir á vegum ríkisins.
     Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann undir stjórn skólameistara.

40. gr.

     Þar sem talið er nauðsynlegt að reka heimavist við framhaldsskóla er ríkið rekur greiðir ríkissjóður kostnað við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum og rekstri mötuneyta samkvæmt sérstökum reglum sem menntamálaráðherra setur.
     Skólameistari hefur umsjón með rekstri heimavistar og mötuneytis nemenda.

XIV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

41. gr.

     Einkaaðilar eða samtök geta stofnað og rekið skóla á framhaldsskólastigi.
     Menntamálaráðherra getur veitt slíkum skólum viðurkenningu á grundvelli laga og reglugerða er varða framhaldsskóla og rekstur þeirra að uppfylltum skilyrðum sem sett skulu í reglugerð.
     Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé. Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til þessara skóla. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntamálaráðherra og rekstraraðila skólans um fjárveitingu, rekstur, stjórnun og eigur eftir því sem við á.

42. gr.

     Samtök atvinnurekenda og launþega geta gerst aðilar að stofnun og/eða rekstri framhaldsskóla eða hluta hans. Um slíka aðild skal gerður samningur milli aðila er kveði á um framlög og aðild að stjórnun hans, ef um slíkt á að vera að ræða.

43. gr.

     Heimilt er að nýta skólahúsnæði til félagsstarfsemi utan reglulegs skólatíma, enda greiðist fyrir leiga sem nemur a.m.k. kostnaði fyrir rafmagn, hita, ræstingu og vörslu. Skólanefnd setur almennar reglur um slíka ráðstöfun skólahúsnæðis.
     Hagnaði af leigu skólahúsnæðis og heimavista, sbr. 40. gr., skal verja til viðhalds og endurnýjunar húsnæðis og búnaðar.

44. gr.

     Menntamálaráðherra getur heimilað framhaldsskóla að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerðum er settar kunna að verða samkvæmt þeim.
     Um fjárframlög til tilraunastarfs af þessu tagi fer samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og í leyfi kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.

45. gr.

     Árlega skal veita fé á fjárlögum til Þróunarsjóðs framhaldsskóla og heyrir hann undir menntamálaráðherra sem setur reglur um styrkveitingar úr sjóðnum.

46. gr.

     Menntamálaráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti.

XV. KAFLI
Gildistaka, brottfallin lög o.fl.

47. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996 og skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000–2001. Þó skal gildistöku 11. gr. laga þessara frestað þar til réttindi ríkisstarfsmanna til æviráðningar, sem leiða má af ákvæðum laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafa verið afnumin.

48. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, með áorðnum breytingum, að undanskildum ákvæðum 12. og 13. gr. þeirra laga sem halda skulu gildi sínu þar til ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, er kveða á um æviráðningu ríkisstarfsmanna, hafa verið afnumin, sbr. 47. gr. Einnig falla úr gildi við gildistöku laga þessara lög um fiskvinnsluskóla, nr. 55/1971, með áorðnum breytingum, lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992, lög um vélstjórnarnám, nr. 11/1985, og lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, nr. 22/1972.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ákvæði í 24. gr. um samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skulu ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000–2001.

II.
     Ákvæði um starfsnám í 25.–32. gr. skulu vera komin til fullra framkvæmda innan fjögurra ára frá gildistöku laga þessara. Menntamálaráðherra setur í reglugerð áætlun um framkvæmd ákvæða greina þessara að höfðu samráði við samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, sbr. 26. gr. Ef þörf þykir skal fara fram endurskoðun þessara lagagreina í kjölfar úttektar á framkvæmd þeirra.

III.
     Næstu tvö ár frá gildistöku laganna getur menntamálaráðherra veitt heimild til að umsækjandi gangist undir verklegt sveinspróf í löggiltri iðngrein án undangengins skólanáms. Að þeim tíma liðnum er óheimilt að gangast undir slíkt próf án undangengins skólanáms.
     Skilyrði fyrir próftöku eru eftirfarandi:
  1. vottorð um að viðkomandi hafi unnið við iðnina í tíu ár undir stjórn meistara,
  2. vottorð iðnmeistara um að hann telji umsækjanda hæfan til að gangast undir sveinspróf,
  3. umsagnir viðkomandi sveinafélags og starfsgreinaráðs.

     Standist umsækjandi prófið öðlast hann sveinsbréf sem veitir þó ekki rétt til inngöngu í meistaraskóla.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 1996.