Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 545, 125. löggjafarþing 276. mál: skipulags- og byggingarlög (deiliskipulagsáætlanir o.fl.).
Lög nr. 117 28. desember 1999.

Lög um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sveitarstjórn er heimilt að víkja frá ákvæðum þessara laga um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í sérstakri samþykkt, sbr. 5. og 6. mgr. 37. gr., og að fenginni staðfestingu ráðherra.

2. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Þeir einstaklingar sem fengu útgefið eða áttu rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hafa lokið meistaraskóla eiga rétt á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd skv. 2. mgr. 52. gr., enda hafi þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. Heimilt er að taka gjald vegna kostnaðar við námskeiðahald. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis en heimild þessi gildir til 1. júlí 2001.
  2. Deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 gilda án tillits til þess hvort þær hafa verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þegar sótt er um byggingarleyfi í götureit eða reit þar sem framkvæmt hefur verið í verulegu ósamræmi við samþykkt deiliskipulag skal endurskoðun á deiliskipulagi fara fram áður en byggingarleyfisumsókn er afgreidd, enda sé um verulega framkvæmd að ræða. Að öðru leyti fer um málsmeðferð skv. 26. gr.
  3. Samþykktir sem reynslusveitarfélög hafa sett sér með heimild í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, halda gildi sínu til 1. mars 2000.


3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.