Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 542, 125. löggjafarþing 68. mál: ættleiðingar (heildarlög).
Lög nr. 130 31. desember 1999.

Lög um ættleiðingar.


I. KAFLI
Ættleiðingar og lagaskilyrði fyrir þeim.

1. gr.

Leyfi til ættleiðingar.
     Dómsmálaráðherra veitir leyfi til ættleiðingar.

2. gr.

Hverjir geta verið ættleiðendur.
     Hjón eða karl og kona sem hafa verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár skulu bæði standa að ættleiðingu, enda þeim einum heimilt að ættleiða saman með þeim frávikum sem í grein þessari getur.
     Öðru hjóna eða karli eða konu í óvígðri sambúð má þó með samþykki hins veita leyfi til að ættleiða barn þess eða kjörbarn.
     Öðru hjóna eða karli eða konu í óvígðri sambúð má og veita leyfi til ættleiðingar ef hitt er horfið eða geðrænum högum þess svo háttað að það beri ekki skyn á gildi ættleiðingar.
     Heimilt er að leyfa einhleypum manni að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta.
     Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð karls og konu sem skráð er í þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum.

3. gr.

Hverja má ættleiða.
     Lög þessi taka til ættleiðinga barna innan 18 ára aldurs. Sama er um ættleiðingar þeirra sem eldri eru, nema annars sé getið og eftir því sem við á. Með orðinu barn samkvæmt lögum þessum er átt við barn eða ungmenni allt til 18 ára aldurs.
     Eigi er manni heimilt að ættleiða kynbarn sitt, nema það hafi verið ættleitt áður og ættleiðing af hálfu kynforeldris þyki bæta hag barnsins.

4. gr.

Almenn skilyrði ættleiðingar.
     Eigi má veita leyfi til ættleiðingar, nema sýnt þyki eftir könnun viðkomandi barnaverndarnefndar á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra sem óska ættleiðingar að ættleiðing sé barninu fyrir bestu, enda sé ætlun ættleiðenda að annast og ala barnið upp eða sá sem ættleiða á hafi verið alinn upp hjá þeim eða aðrar alveg sérstakar ástæður mæli með ættleiðingu.

5. gr.

Aldur ættleiðanda.
     Leyfi til ættleiðingar verður veitt þeim einum sem náð hefur 25 ára aldri, en þó má, ef sérstaklega stendur á, veita þeim sem orðinn er 20 ára leyfi til ættleiðingar.

6. gr.

Samþykki þess sem ættleiða á.
     Eigi má ættleiða þann sem orðinn er 12 ára án samþykkis hans, nema andlegum högum hans sé svo farið að hann geti ekki gefið marktækt samþykki eða ef varhugavert þykir vegna hagsmuna hans að leita eftir því.
     Áður en barn samþykkir ættleiðingu skv. 1. mgr. skal ræða við það á vegum barnaverndarnefndar sem í hlut á og veita því leiðsögn um ættleiðingu og réttaráhrif hennar.
     Ef barn sem ættleiða á er yngra en 12 ára skal með sama hætti og greinir í 2. mgr. leita eftir afstöðu þess til fyrirhugaðrar ættleiðingar ef slíkt þykir gerlegt miðað við aldur þess og þroska.

7. gr.

Samþykki þess sem fer með forsjá barns eða sérstaks lögráðamanns.
     Samþykki foreldra sem fara með forsjá barns þarf til ættleiðingar þess.
     Ef högum annars foreldris sem fer með forsjá barns er svo farið að það getur ekki látið uppi marktækt samþykki eða það er horfið nægir samþykki hins. Ef þannig er ástatt um báða foreldra þarf samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns barns.
     Nú fer barnaverndarnefnd með forsjá barns og þarf þá samþykki nefndarinnar til ættleiðingar þess.
     Veita má leyfi til ættleiðingar, þrátt fyrir að samþykki skv. 1. eða 2. mgr. skorti, ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt.

8. gr.

Form og efni samþykkis.
     Samþykki til ættleiðingar skal vera skriflegt og skal viðkomandi staðfesta það fyrir starfsmanni dómsmálaráðuneytisins eða sýslumanni sem vottar að viðkomanda hafi verið leiðbeint um réttaráhrif samþykkis og ættleiðingar.
     Samþykki er eigi gilt nema það hafi verið staðfest a.m.k. þremur mánuðum eftir fæðingu barns, nema alveg sérstaklega hagi til.
     Samþykki foreldra eða sérstaklega skipaðs lögráðamanns er gilt, þótt væntanlegir kjörforeldrar séu eigi nafngreindir, ef samþykki lýtur að því að ráðstafa barni til ættleiðingar til þeirra sem barnaverndarnefnd ákveður. Endranær er samþykki eigi gilt, nema væntanlegir kjörforeldrar séu nafngreindir.
     Nú er samþykki til ættleiðingar meira en 12 mánaða gamalt og skal það þá staðfest að nýju áður en afstaða er tekin til umsóknar um ættleiðingu, nema sérstaklega standi á.

9. gr.

Samþykki veitt erlendis.
     Dómsmálaráðherra getur ákveðið að samþykki sem gefið er fyrir þar til bæru stjórnvaldi, dómstóli eða stofnun erlendis jafngildi samþykki sem staðfest er fyrir starfsmanni dómsmálaráðuneytisins eða sýslumanni, sbr. 1. mgr. 8. gr., og má þá heimila frávik frá meginreglum 2.–4. mgr. 8. gr.

10. gr.

Afturköllun samþykkis.
     Nú tekur aðili, sem veita skal samþykki skv. 6. og 7. gr., aftur samþykki sitt áður en ættleiðingarleyfi er veitt og er þá eigi heimilt að gefa út leyfi.
     Veita má leyfi til ættleiðingar þrátt fyrir að foreldri eða sérstaklega skipaður lögráðamaður taki aftur samþykki sitt ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt og afturköllun á samþykki styðst eigi við gild rök.

11. gr.

Umsögn foreldris.
     Leita skal umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns, ef unnt er, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar.

12. gr.

Umsögn lögráðamanns.
     Nú er sá lögræðissviptur sem ættleiða á og skal þá afla umsagnar lögráðamanns áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar.

13. gr.

Umsögn maka eða sambúðarmaka.
     Ef sá sem ættleiða á er í hjúskap eða í óvígðri sambúð skal leita umsagnar maka hans eða sambúðarmaka.

14. gr.

Gjald.
     Ættleiðingarleyfi verður ekki veitt ef einhver sá sem samþykkja á ættleiðingu innir af hendi eða veitir viðtöku gjaldi eða fríðindum í tengslum við samþykkið, þar á meðal vegna missis atvinnutekna. Má ganga eftir skriflegum yfirlýsingum þeirra sem málið varðar um þetta.

II. KAFLI
Meðferð og úrlausn ættleiðingarmála.

15. gr.

Umsókn um ættleiðingarleyfi.
     Umsókn um leyfi til ættleiðingar og yfirlýsing um samþykki til ættleiðingar skulu rituð á eyðublöð sem dómsmálaráðuneytið lætur í té.

16. gr.

Umsögn varðandi umsókn um leyfi til ættleiðingar.
     Leita skal umsagnar barnaverndarnefnda varðandi umsókn um leyfi til ættleiðingar í umdæmi þar sem barn býr og þar sem umsækjendur búa, svo og þeirrar barnaverndarnefndar sem ráðstafað hefur barni í fóstur ef því er að skipta.
     Enn fremur má leita umsagnar ættleiðingarnefndar til viðbótar umsögn barnaverndarnefndar ef ástæða þykir til, sbr. 17. gr.
     Dómsmálaráðuneytið skal setja reglugerð um gerð umsagna barnaverndarnefnda.

17. gr.

Ættleiðingarnefnd.
     Dómsmálaráðherra skal skipa nefnd sem veitir umsagnir í ættleiðingarmálum sem ráðuneytið leggur fyrir hana. Ráðherra getur falið nefndinni fleiri verkefni og sett nánari reglur um störf hennar.
     Nefndarmenn skulu vera þrír og jafnmargir til vara. Þeir skulu skipaðir til fjögurra ára í senn. Skal einn nefndarmanna vera lögfræðingur og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar læknir og þriðji sálfræðingur eða félagsráðgjafi.
     Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.

18. gr.

Útgáfa ættleiðingarleyfis.
     Að fenginni umsögn barnaverndarnefndar og ættleiðingarnefndar, ef því er að skipta, og að fullnægðum öðrum lögmæltum skilyrðum leysir dómsmálaráðherra svo fljótt sem auðið er úr því hvort ættleiðingarleyfi verður veitt.
     Ef ráðherra ákveður að veita leyfi til ættleiðingar gefur hann út leyfisbréf til umsækjenda um ættleiðinguna.

19. gr.

Ákvörðun um fyrirhugaða veitingu ættleiðingarleyfis.
     Ef dómsmálaráðherra ákveður að veita leyfi til ættleiðingar þótt samþykki skv. 7. gr. liggi ekki fyrir eða samþykki hafi verið afturkallað, sbr. 10. gr., skal með sannanlegum hætti tilkynna þeim sem fer með forsjá barns eða sérstökum lögráðamanni það með rökstuddri ákvörðun. Þar skal greina úrlausnarefni, helstu gögn málsins, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaðan byggist á, og önnur atriði er máli skipta. Enn fremur skal þar greina heimild til að bera ákvörðunina undir dómstóla og málshöfðunarfrest.

20. gr.

Synjun umsóknar um ættleiðingu.
     Ef synjað er um ættleiðingu skal það gert með úrskurði. Í úrskurði skal greina úrlausnarefni, helstu gögn málsins, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á, og önnur atriði er máli skipta.

21. gr.

Staðfesting ættleiðingarleyfis þrátt fyrir ágalla.
     Dómsmálaráðherra getur að ósk þeirra sem málið varðar staðfest með afturvirkum réttaráhrifum ættleiðingarleyfi sem veitt hefur verið án þess að lögmæltra skilyrða hafi verið gætt. Þegar sérstaklega stendur á getur staðfesting átt sér stað eftir andlát kjörbarns eða kjörforeldris.

III. KAFLI
Dómsmál vegna ættleiðingar.

22. gr.

Dómsmál vegna ákvörðunar um veitingu ættleiðingarleyfis.
     Þeim sem fer með forsjá barns eða sérstaklega skipuðum lögráðamanni er heimilt að bera ákvörðun dómsmálaráðherra um veitingu ættleiðingarleyfis skv. 19. gr. undir héraðsdóm innan 30 daga frá því að þeim barst ákvörðunin.
     Nú er ákvörðun skv. 19. gr. staðfest með úrskurði héraðsdóms og verður þá leyfi til ættleiðingar ekki veitt fyrr en að liðnum fresti til kæru úrskurðar til Hæstaréttar.
     Dómsúrskurður um ógildingu ákvörðunar dómsmálaráðherra skv. 19. gr. er ekki því til fyrirstöðu að hann taki málið upp að nýju að ósk aðila ef aðstæður hafa breyst til muna eða nýjar upplýsingar er skipta verulegu máli hafa komið fram.

23. gr.

Málskostnaður.
     Stefnandi skal hafa gjafsókn í héraði og Hæstarétti í dómsmáli vegna ættleiðingar skv. 22. gr.

24. gr.

Málsmeðferð o.fl.
     Dómsmál skv. 22. gr. sæta almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum.
     Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem gerst hefur í slíkum málum en úrskurðinn eða dóminn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
     Nú er úrskurður eða dómur í slíku máli birtur, þar á meðal að tilstuðlan dómsins, og skal þá gæta leyndar á nöfnum og upplýsingum sem bent geti til þess hverjir séu aðilar máls eða hvaða barn úrskurðurinn eða dómurinn varði.

IV. KAFLI
Réttaráhrif ættleiðingar.

25. gr.

Réttaráhrif.
     Við ættleiðingu öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og væri það eigið barn kjörforeldra, nema lög mæli annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra þess, önnur ættmenni og þá sem eru í kjörsifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á.
     Nú ættleiðir annað hjóna barn hins eða kjörbarn og fær barnið þá réttarstöðu sem væri það eigið barn þeirra hjóna. Sama er ef sá sem er í óvígðri sambúð ættleiðir barn hins.

V. KAFLI
Upplýsingaskylda kjörforeldra og aðgangur kjörbarns að upplýsingum.

26. gr.

Upplýsingaskylda kjörforeldra.
     Kjörforeldrar skulu skýra kjörbarni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé ættleitt. Skal það að jafnaði gert eigi síðar en er barn nær sex ára aldri.
     Kjörforeldrar eiga rétt á ráðgjöf viðkomandi barnaverndarnefndar við upplýsingagjöf skv. 1. mgr.

27. gr.

Aðgangur kjörbarns að upplýsingum.
     Þegar kjörbarn hefur náð 18 ára aldri á það rétt á að fá tiltækar upplýsingar um það frá dómsmálaráðuneytinu hverjir séu kynforeldrar þess eða fyrri kjörforeldrar.

VI. KAFLI
Ættleiðingar barna erlendis.

28. gr.

Framkvæmd Haag-samnings frá 29. maí 1993 um ættleiðingar.
     Dómsmálaráðherra hefur yfirumsjón með framkvæmd Haag-samnings frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa. Tekst ráðherra á hendur vegna íslenska ríkisins þau verkefni og skuldbindingar sem hvíla á svonefndu miðstjórnvaldi samkvæmt samningnum.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglugerð sem kveður á um framkvæmd samningsins hér á landi.

29. gr.

Ættleiðingar erlendis.
     Þeim sem búsettir eru hér á landi er óheimilt að ættleiða barn erlendis, nema dómsmálaráðherra samþykki það með útgáfu forsamþykkis til ættleiðingarinnar.

30. gr.

Umsókn um forsamþykki.
     Umsókn um forsamþykki til ættleiðingar barns erlendis skal beint til dómsmálaráðuneytis. Umsókn skal rituð á eyðublað sem dómsmálaráðuneytið lætur í té.
     Dómsmálaráðherra getur mælt fyrir um að með umsókn skv. 1. mgr., eða áður en forsamþykki er gefið út, skuli umsækjendur leggja fram staðfestingu á að þeir hafi sótt námskeið um ættleiðingar erlendra barna. Ráðherra getur sett nánari reglur um inntak þess, skipulagningu og gjaldtöku.

31. gr.

Umsögn varðandi umsókn um forsamþykki.
     Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar varðandi umsókn um forsamþykki í umdæmi þar sem umsækjendur búa.
     Enn fremur má leita umsagnar ættleiðingarnefndar til viðbótar umsögn barnaverndarnefndar ef ástæða þykir til, sbr. 17. gr.

32. gr.

Útgáfa forsamþykkis.
     Að fenginni umsögn barnaverndarnefndar og ættleiðingarnefndar, ef því er að skipta, og að uppfylltum öðrum lögmæltum skilyrðum tekur dómsmálaráðherra afstöðu til umsóknar um forsamþykki svo fljótt sem föng eru á.
     Í forsamþykki skal m.a. koma fram að væntanlegir kjörforeldrar teljist hæfir til að ættleiða barn frá tilteknu erlendu ríki, að væntanlegt kjörbarn fái landvist hér á landi til frambúðar og að íslensk stjórnvöld taki ábyrgð á barninu frá þeim tíma sem það yfirgefur heimaland sitt eins og væri það íslenskur ríkisborgari.
     Forsamþykki skal ekki gilda lengur en í tvö ár frá útgáfudegi.
     Ráðherra er heimilt að afturkalla forsamþykki, enda telji hann að aðstæður umsækjenda hafi breyst verulega frá útgáfu þess eða upplýsingar er máli skipta hafi reynst rangar.

33. gr.

Synjun um forsamþykki.
     Ef synjað er um forsamþykki skal það gert með úrskurði á sama hátt og greinir í 20. gr.

34. gr.

Ættleiðingarfélög.
     Dómsmálaráðherra löggildir félög til að hafa milligöngu um ættleiðingar barna erlendis.
     Löggilding skal vera tímabundin og skal í löggildingarskjali greint til hvaða erlendra ríkja hún taki.
     Dómsmálaráðherra setur reglur um skilyrði fyrir löggildingu ættleiðingarfélaga og hefur eftirlit með starfsemi þeirra. Ráðherra getur afturkallað löggildingu ef félag fullnægir ekki lengur skilyrðum fyrir henni.

35. gr.

Milliganga um ættleiðingar.
     Löggilt ættleiðingarfélög ein mega hafa milligöngu um ættleiðingar. Með milligöngu um ættleiðingar er átt við starfsemi sem hefur þann megintilgang að koma á sambandi milli þeirra sem óska eftir að ættleiða erlent barn og stjórnvalda og annarra opinberra aðila og löggiltra ættleiðingarfélaga í heimalandi barns og að öðru leyti að láta í té það liðsinni sem nauðsynlegt er til þess að af lögmætri ættleiðingu geti orðið.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að þeim sem óska eftir að ættleiða erlent barn sé skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem hefur löggildingu skv. 34. gr.
     Starfsemi er varðar ættleiðingar erlendra barna skal ávallt hafa að leiðarljósi það sem telja verður að sé barni til gagns og má ekki verða neinum fjárhagslega eða á annan hátt til óhæfilegs ávinnings.
     Brot gegn ákvæðum þessarar greinar varðar sektum.

VII. KAFLI
Lögsögureglur o.fl.

36. gr.

Lögsaga í ættleiðingarmálum.
     Manni sem búsettur er hér á landi er einungis heimilt að ættleiða barn samkvæmt ákvæðum þessara laga.

37. gr.

Umsókn manns er býr erlendis um leyfi til ættleiðingar.
     Manni sem búsettur er erlendis er einungis heimilt að ættleiða barn samkvæmt ákvæðum laga þessara ef hann eða maki hans eru íslenskir ríkisborgarar og geta sökum þess ekki fengið leyfi til ættleiðingar í landi þar sem hann býr, enda megi ætla að íslenskt ættleiðingarleyfi verði metið gilt þar sem hann er búsettur.
     Dómsmálaráðherra getur einnig heimilað að umsókn um ættleiðingarleyfi verði tekin til meðferðar hér á landi vegna sérstakra tengsla umsækjenda við landið.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda þó ekki um ættleiðingar sem fram fara samkvæmt Haag-samningi frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa.

38. gr.

Réttaráhrif ættleiðinga barna erlendis.
     Ef forsamþykki hefur verið gefið út samkvæmt ákvæðum þessara laga gildir ættleiðing sem veitt hefur verið erlendis á grundvelli þess hér á landi.
     Dómsmálaráðherra getur ákveðið að réttaráhrif ættleiðingar barns sem veitt hefur verið erlendis verði þau sömu og ættleiðingar sem heimiluð hefur verið hér á landi.

39. gr.

Erlend ættleiðing sem andstæð er grunnreglum íslenskra laga.
     Ættleiðing sem fram fer erlendis er ekki gild hér á landi ef hún gengur í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu).

40. gr.

Frávik vegna þjóðréttarsamninga.
     Dómsmálaráðherra getur ákveðið að víkja megi frá einstökum ákvæðum laga þessara ef það er talið nauðsynlegt til að fullnægja skyldum sem Ísland hefur bundist eða kann að bindast með þjóðréttarsamningum.

VIII. KAFLI
Stjórnvaldsreglur, gildistaka, brottfall laga og lagaskil.

41. gr.

Stjórnvaldsreglur.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

42. gr.

Gildistaka og brottfallin lög.
     Lög þessi taka gildi þegar sex mánuðir eru liðnir frá birtingu þeirra.
     Frá sama tíma falla úr gildi æ ttleiðingarlög, nr. 15/1978.

43. gr.

Lagaskil.
     Úr ættleiðingarumsóknum og umsóknum um forsamþykki sem borist hafa dómsmálaráðuneytinu fyrir gildistöku laga þessara skal leysa samkvæmt lögum nr. 15/1978. Ef umsækjendur óska þess er þó heimilt að beita reglum þessara laga.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.