Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 937, 125. löggjafarþing 199. mál: fjármálaeftirlit (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 11 14. apríl 2000.

Lög um breytingu á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

1. gr.

     7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

2. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila.
     Ákvæði þessara laga eiga, eftir því sem við á, við um eftirlit Fjármálaeftirlitsins, athuganir þess og upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðum sérlaga. Um starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins fer að öðru leyti eftir ákvæðum sérlaga.

3. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið skal athuga rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir. Þeim er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan.
     Vegna starfsemi sinnar getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að skipa sérfræðing til að gera athugun á tilteknum þáttum í starfsemi eða rekstri eftirlitsskylds aðila eða til að hafa að öðru leyti sértækt eftirlit með eftirlitsskyldum aðila. Sérfræðingurinn skal skipaður til tiltekins tíma, ekki lengri en fjögurra vikna í senn. Á hann rétt á að hafa starfsstöð hjá hinum eftirlitsskylda aðila og skal honum veittur aðgangur að öllu bókhaldi, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum og upplýsingum sem eftirlitsskyldi aðilinn hefur í sinni vörslu og óskað er eftir. Sérfræðingurinn hefur rétt til að sitja fundi í stjórn eftirlitsskylds aðila sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi. Um þagnarskyldu hans fer skv. IV. kafla þessara laga. Eftirlitsskyldur aðili sem um ræðir skal bera kostnað af starfi sérfræðingsins, að hluta eða öllu leyti, eftir mati Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera sérstakar athuganir á starfsstað og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að eftirlitsskyldur aðili hafi brotið gegn lögum eða reglum sem um viðkomandi starfsemi gilda eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Fjármálaeftirlitsins nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð opinberra mála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.

4. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Komi í ljós að eftirlitsskyldur aðili fylgir ekki lögum og öðrum reglum sem gilda um starfsemi hans skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
     Fjármálaeftirlitið skal gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur eftirlitsskylds aðila að öðru leyti óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti, enda þótt ákvæði 1. mgr. eigi ekki við, og er jafnframt heimilt að krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
     Þegar svo stendur á sem greinir í 1. eða 2. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til fundar í stjórn eða framkvæmdastjórn hins eftirlitsskylda aðila til þess að fjalla um athugasemdir þess og kröfur og leiðir til úrbóta. Fulltrúa Fjármálaeftirlitsins er heimilt að stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.

     Í stað 11. gr. laganna koma tvær nýjar greinar og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því. Greinarnar orðast svo ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (11. gr.)
Févíti og dagsektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt dagsektir á eftirlitsskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast þær þangað til farið hefur verið að kröfum Fjármálaeftirlitsins. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri hins eftirlitsskylda aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika hins eftirlitsskylda aðila. Ákvarðanir um dagsektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt févíti á eftirlitsskyldan aðila sem brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu. Til ákvarðana samkvæmt þessari grein teljast kröfur um úrbætur skv. 10. gr. Févíti getur numið frá 10.000 kr. til 2 millj. kr. Við ákvörðun um fjárhæð févítis skal tekið tillit til alvarleika brots og fjárhagslegs styrkleika hins eftirlitsskylda aðila. Ákvarðanir um févíti skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins.
     Ákvörðunum um févíti eða dagsektir má skjóta til kærunefndar samkvæmt lögum þessum innan sjö daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Sé ákvörðun skotið til kærunefndar er ekki heimilt að innheimta févíti eða dagsektir fyrr en úrskurður hefur verið felldur.
     Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þó að eftirlitsskyldur aðili verði síðar við kröfum Fjármálaeftirlitsins nema stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveði það sérstaklega.
     Févíti og dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæf. Sama gildir um úrskurði kærunefndar.
     Innheimt févíti og innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu févítis og dagsekta í reglugerð.
     
     b. (12. gr.)
Tilkynningarskylda.
     Ef brot eru alvarleg og hinn eftirlitsskyldi aðili hefur að mati Fjármálaeftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegur við lög ber Fjármálaeftirlitinu að greina ríkislögreglustjóra frá þeim.
     Kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skv. 4. mgr. 9. gr., 11. gr. og 1. mgr. þessarar greinar skulu þegar í stað tilkynntar viðskiptaráðherra, þeim ráðherra sem annars fer með viðkomandi málaflokk og stjórn hins eftirlitsskylda aðila eða viðkomandi aðila ef stjórn er ekki til að dreifa.

6. gr.

     12. gr. laganna, er verður 13. gr., orðast svo:
     Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.
     Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.
     Upplýsingar skv. 1. mgr. má veita í samandregnu formi þannig að einstakir eftirlitsskyldir aðilar séu ekki auðkenndir.
     Þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um skv. 1. mgr. Þagnarskyldan gildir þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna eftirlitsskylds aðila.
     Opinber umfjöllun af hálfu þess aðila sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda um trúnaðarupplýsingar veitir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins eða sérfræðingum sem starfa eða starfað hafa á vegum þess ekki heimild til að láta af hendi trúnaðarupplýsingar.

7. gr.

     13. gr. laganna, er verður 14. gr., orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samningsins upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu skv. 13. gr. sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og slík upplýsingagjöf sé gagnleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki. Þagnarskylda skv. 1. mgr. 13. gr. gildir um hliðstæðar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja.
     Semja má við eftirlitsstjórnvöld ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins um skipti á upplýsingum, en þó því aðeins að gætt sé þagnarskyldu í samræmi við ákvæði þessarar greinar. Ákvæði 1. mgr. gilda um skipti á upplýsingum við stjórnvöld hér á landi eða erlendis sem fjalla um gjaldþrot og slit eftirlitsskyldra aðila, eftirlit með þeim sem framkvæma endurskoðun hjá þeim eða tryggingastærðfræðilegar úttektir. Sama gildir um þá sem eftirlit hafa með þessum aðilum. Í því skyni að stuðla að stöðugleika og öryggi á fjármálasviði skulu upplýsingaskipti einnig heimil milli eftirlitsstjórnvalda og stjórnvalda og aðila sem starfa að því að rannsaka brot á félagarétti.
     Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki EES-samningsins er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis frá lögbærum yfirvöldum sem hafa afhent þær og þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.

8. gr.

     15. gr. laganna, er verður 16. gr., orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið skal gefa viðskiptaráðherra skýrslu um starfsemi sína fyrir 15. september ár hvert. Í framhaldi af því gerir viðskiptaráðherra Alþingi grein fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

9. gr.

     17. gr. laganna, er verður 18. gr., orðast svo:
     Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins má skjóta til sérstakrar kærunefndar.
     Kærunefndin er skipuð af viðskiptaráðherra til þriggja ára í senn. Nefndarmenn skulu vera þrír. Hæstiréttur tilnefnir nefndarmenn og formann nefndarinnar. Varamenn skulu vera jafnmargir og skipaðir á sama hátt.
     Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðuneytis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála.
     Kostnaður við störf kærunefndar greiðist úr ríkissjóði. Þóknun til nefndarmanna er ákveðin af viðskiptaráðherra.
     Úrskurður kærunefndar skal liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst henni. Úrskurðum nefndarinnar verður ekki skotið til viðskiptaráðherra.
     Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf og starfshætti nefndarinnar. Í slíkri reglugerð má jafnframt kveða nánar á um valdsvið kærunefndar, hvaða málefnum megi skjóta til hennar og kærufresti.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

10. gr.

     93. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, svo og starfsemi innlendra viðskiptabanka og sparisjóða erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit með dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og sjóðum sem stunda starfsemi þá sem talin er upp í 44. gr. að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í viðskiptabanka eða sparisjóði í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 10. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum sem teljast í nánum tengslum við viðskiptabanka eða sparisjóð, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

11. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Um stofnun lánastofnunar og meðferð eignarhlutar fer að öðru leyti eftir ákvæðum II. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

12. gr.

     Í stað orðsins „Seðlabankinn“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Fjármálaeftirlitið.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins og heimildir fer að öðru leyti en greinir í lögum þessum skv. XIV. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

14. gr.

     53. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu hér á landi, svo og starfsemi innlendra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Skal Fjármálaeftirlitið hafa aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem að þess mati eru nauðsynleg vegna eftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í fyrirtæki í verðbréfaþjónustu í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 12.–14. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum sem teljast í nánum tengslum við fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Hafi Fjármálaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum IV. kafla laga þessara skal því heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg til rannsóknar málsins.
     Um eftirlit með fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu gilda að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimilt er að beita ákvæðum þeirra laga um dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, með síðari breytingum.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
  1. 4. málsl. fellur brott.
  2. Við greinina bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í hlutafélagi sem starfar samkvæmt lögum þessum í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 6. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
         Hafi Fjármálaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum 19. eða 26. gr. laga þessara skal því heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg til athugunar á málinu.
         Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
         Um eftirlit samkvæmt þessum lögum gilda að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimilt er að beita ákvæðum þeirra laga um dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessum lögum.


VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

16. gr.

     Við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
     Stjórn vátryggingafélags skal setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti félagsins, stjórnar þess og starfsmanna. Verklagsreglurnar skulu staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.

17. gr.

     Við 55. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í vátryggingafélagi í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 39. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut skv. 39. og 40. gr.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum sem teljast í nánum tengslum við vátryggingafélag, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með vátryggingafélaginu.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

18. gr.

     Við 2. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 5. tölul., svohljóðandi: að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna. Verklagsreglurnar skulu staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
  1. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum lífeyrissjóða, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi lífeyrissjóði.


20. gr.

     45. gr. laganna orðast svo:
     Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimilt er að beita ákvæðum þeirra laga um dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessum lögum.

VIII. KAFLI
Gildistaka.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. apríl 2000.