Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1217, 125. löggjafarþing 207. mál: útvarpslög (heildarlög).
Lög nr. 53 17. maí 2000.

Útvarpslög.


I. KAFLI
Skilgreiningar.

1. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
 1. Með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, er átt við hvers konar útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.
 2. Útvarpsstöð er sá aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem leyfi hefur til útvarps, annast og ber ábyrgð á samsetningu útvarpsdagskrár í skilningi a- og c-liða, sendir hana út eða lætur annan aðila annast útsendingu hennar.
 3. Útvarpsdagskrá er heildarsamsetning dagskrárliða í útvarpi.
 4. Auglýsing er hvers konar tilkynning sem útvarpað er gegn endurgjaldi eða í eigin þágu útvarpsstöðvar og felur í sér kynningu á vöru eða þjónustu.
 5. Dulin auglýsing er sýning eða önnur kynning í máli eða myndum á vöru, þjónustu, vörumerki eða starfsemi aðila er framleiðir vöru eða veitir þjónustu í útvarpsdagskrám utan afmarkaðra auglýsingatíma sé slík sýning til þess ætluð af hálfu útvarpsstöðvar að þjóna auglýsingamarkmiðum og villa um fyrir notendum.
 6. Kostun er hvers konar fémætt framlag lögaðila eða einstaklinga til framleiðslu eða útsendingar dagskrárliða í útvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni sínu, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum.
 7. Fjarsala er beint tilboð sem sjónvarpað er til almennings með það í huga að bjóða fram vöru og þjónustu gegn greiðslu. Fjarsala tekur hér einnig til fasteigna og þeirra réttinda og skyldna sem um slík kaup gilda.
 8. Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).
 9. Myndlykill er búnaður sem einum sér eða með öðrum búnaði er ætlað að veita aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.


II. KAFLI
Lögsaga.

2. gr.

Lögsaga yfir sjónvarpsstöðvum.
     Lögin gilda um útsendingar á sjónvarpsdagskrám ef sendingu verður náð á Íslandi og/eða í einhverjum öðrum þeim ríkjum sem bundin eru af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið („EES-ríkjum“), sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, og sú sjónvarpsstöð sem í hlut á:
 1. hefur staðfestu á Íslandi samkvæmt skilgreiningu 3. mgr.,
 2. hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki en notar senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi,
 3. hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki en notar gervitunglaflutningsgetu sem tilheyrir íslenskum aðila,
 4. hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglaflutningsgetu sem heyrir undir Ísland eða aðila í öðru EES-ríki en notar gervitunglajarðstöð sem staðsett er hér á landi,
 5. hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglaflutningsgetu sem tilheyrir íslenskum aðila eða aðila í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglajarðstöð sem staðsett er hér á landi eða í öðru EES-ríki en telst hafa staðfestu á Íslandi samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. sérstaklega 2. kafla III. hluta samningsins um staðfesturétt.

     Enn fremur taka lögin til hvers þess aðila sem hefur öðlast staðfestu í öðru EES-ríki með það að markmiði að fara á svig við íslensk lög, enda beinist starfsemin aðallega að Íslendingum og íslenskum markaði.
     Sjónvarpsstöð telst hafa staðfestu á Íslandi samkvæmt lögum þessum, sbr. a-lið 1. mgr., í eftirfarandi tilvikum:
 1. Ef sjónvarpsstöðin hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi og ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar hér á landi.
 2. Ef sjónvarpsstöðin hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi, en ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar í öðru EES-ríki, telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfar hér á landi. Þó að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi einnig í öðru EES-ríki telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef aðalskrifstofa hennar er hér. Þó að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi hvorki hér á landi né í öðru EES-ríki telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef hún hefur hafið útsendingar samkvæmt útvarpsleyfi sem veitt var með stoð í íslenskum lögum, enda hafi stöðin haldið stöðugum og virkum tengslum við íslenskt efnahagslíf.
 3. Ef sjónvarpsstöð hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi, en ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar utan EES-ríkja, eða öfugt, telst stöðin hafa staðfestu hér á landi að því tilskildu að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi hér á landi.


3. gr.

Lögsaga yfir hljóðvarpsstöðvum.
     Lög þessi gilda um allar hljóðvarpssendingar aðila sem nota senditíðni sem íslensk stjórnvöld hafa úthlutað eða dreifikerfi sem staðsett er á Íslandi.

4. gr.

Útsendingar sem lögin ná ekki til.
     Ákvæði þessara laga ná ekki til dreifingar útvarpsdagskrár eða útsendinga sem eingöngu eru ætlaðar þröngum hópi og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, svo sem einstök íbúðarhús, sjúkrahús, gistihús, skóla og verksmiðjur.

5. gr.

Tímabundin stöðvun á endursendingum sjónvarps frá EES-ríkjum.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. og skyldu íslenska ríkisins til þess að tryggja frelsi til móttöku á sjónvarpsútsendingum frá öðrum EES-ríkjum getur útvarpsréttarnefnd stöðvað tímabundið sjónvarpsútsendingar frá öðrum EES-ríkjum að uppfylltum eftirgreindum skilyrðum:
 1. útsendingin brýtur ljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum 14. gr. laga þessara eða telst að öðru leyti geta haft alvarleg skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, eða útsending telst geta kynt undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, trúarskoðana eða þjóðernis;
 2. sjónvarpsstöðin, sem í hlut á, hefur að minnsta kosti tvívegis á síðastliðnum 12 mánuðum brotið gegn ákvæðum a-liðar;
 3. útvarpsréttarnefnd hefur tilkynnt sjónvarpsstöðinni, og íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem þau hyggjast grípa til ef um verður að ræða endurtekningu á broti;
 4. samráð við útsendingarríki og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, hefur ekki leitt til lausnar innan 15 daga frá tilkynningu skv. c-lið og framhald er á meintu broti.


III. KAFLI
Leyfi til útvarps.

6. gr.

Leyfi til útvarps.
     Til útvarps, sem á uppruna sinn hér á landi, þarf leyfi útvarpsréttarnefndar, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum, sbr. lög um Ríkisútvarpið.
     Útvarpsréttarnefnd skipa sjö menn. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
     Útvarpsréttarnefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til útvarps. Leyfi til hljóðvarps má lengst veita til fimm ára í senn en til sjónvarps lengst til sjö ára í senn. Nánari ákvæði um gildistíma útvarpsleyfa skulu sett í reglugerð. Heimilt er að binda leyfi við afmörkuð svæði.
     Leyfi til útvarps hér á landi er háð eftirfarandi almennum skilyrðum:
 1. Leyfishafi skal hafa staðfestu í EES-ríki. Um heimild erlends aðila utan EES-ríkis eða íslensks lögaðila, sem slíkur aðili á hlut í, til að reka útvarpsstöðvar fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
 2. Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir til þeirra sem fengið hafa leyfi til útvarps, og skal þá kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár erlendra sjónvarpsstöðva skal einvörðungu heimilað um þráð og/eða þráðlaust um örbylgju.
 3. Útvarpsstöðvar skulu gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er, svo og fyrirhugaðri grundvallarbreytingu á áður kynntri dagskrá.
 4. Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarsmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hver sé útvarpsstjóri er beri ábyrgð á útvarpsefni skv. IX. kafla laga þessara. Breyting í þeim efnum skal og tilkynnt útvarpsréttarnefnd.
 5. Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hvert sé kallmerki hennar.
 6. Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum útvarpsstöðvar skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum útvarpsleyfishafa. Útvarpsréttarnefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum útvarpsstöðvar, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafi verið brotnir. Skal sérstakur trúnaðarmaður nefndarinnar annast öflun og könnun slíkra gagna í umboði nefndarinnar. Nefndarmenn, starfsmenn og trúnaðarmenn nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem leynt á að fara.
 7. Hafi útvarpsstöð ekki hafið útvarp innan átta mánaða frá dagsetningu leyfis útvarpsréttarnefndar fellur leyfið sjálfkrafa niður. Sé útvarpsrekstri hætt og hann eigi hafinn á ný innan fjögurra mánaða telst útvarpsleyfi sjálfkrafa niður fallið.
 8. Leyfi til útvarps verður ekki framselt, leigt eða flutt með nokkrum öðrum hætti til annars aðila. Nú er bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta, og fellur þá leyfið þegar í stað úr gildi.

     Útvarpsréttarnefnd fylgist með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt og hefur að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpsútsendingum er lúta íslenskri lögsögu skv. 2. og 3. gr. laga þessara. Útvarpsréttarnefnd getur áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur sjónvarpsstöðva um útsendingu á evrópsku dagskrárefni skv. 7. gr. og um sýningu efnis sem framleitt er af sjálfstæðum framleiðendum, sbr.10. gr. Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinga.
     Ákvarðanir útvarpsréttarnefndar samkvæmt lögum þessum eru fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslusviði og sæta ekki stjórnsýslukæru.
     Kostnaður við starfsemi útvarpsréttarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

IV. KAFLI
Skyldur útvarpsstöðva.

7. gr.

Dagskrárframboð.
     Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.
     Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.
     Í reglugerð skal það nánar skilgreint hvað telst vera evrópskt efni.

8. gr.

Tal og texti á íslensku.
     Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
     Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Þau eiga ekki heldur við þegar útvarpsstöð hefur fengið leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, sbr. 1. mgr. 7. gr.

9. gr.

Lýðræðislegar grundvallarreglur.
     Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.

10. gr.

Dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum.
     Sjónvarpsstöðvar skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. mgr. 7. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er sé sýndur innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk.
     Í reglugerð skal það nánar skilgreint hverjir teljast vera sjálfstæðir framleiðendur samkvæmt þessari grein.

11. gr.

Andsvarsréttur.
     Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara á viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu send út innan hæfilegs tíma frá því að rök voru færð fyrir beiðninni og á þeim tíma og með þeim hætti sem hæfir þeirri útsendingu er beiðnin tekur til.

12. gr.

Kærur vegna 9. og 11. gr.
     Telji einhverjir að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt skilyrði 9. og 11. gr. gagnvart þeim og þeim er synjað um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá á þann hátt sem þeir vilja við una geta þeir lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá, eins fljótt og við verður komið, fella úrskurð um kæruefni, og er sá úrskurður bindandi fyrir aðila.

13. gr.

Skyldur vegna almannaheilla.
     Skylt er útvarpsstöð að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.

14. gr.

Vernd barna gegn óheimilu efni.
     Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni.
     Dagskrárefni, sem ekki er talið við hæfi barna, sbr. 1. mgr., skal jafnframt einungis sýnt á þann hátt að tryggt sé með tæknilegum ráðstöfunum að börn á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Þegar slíkt dagskrárefni er sent út skal fara á undan því munnleg viðvörun eða það auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsendingin stendur yfir.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

V. KAFLI
Tekjustofnar útvarpsstöðva.

15. gr.

Tekjustofnar.
     Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með afnotagjaldi, áskriftargjaldi, auglýsingum, fjarsöluinnskotum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þeirra.

VI. KAFLI
Auglýsingar, fjarsala og kostun.

16. gr.

Almennar meginreglur.
     Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Sama gildir um fjarsöluinnskot.
     Duldar auglýsingar eru bannaðar, sem og dulin fjarsöluinnskot.
     Í auglýsingum og fjarsöluinnskotum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.

17. gr.

Tímar fyrir auglýsingar og fjarsöluinnskot.
     Almennt skulu auglýsingar fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Sama skal gilda um fjarsöluinnskot.
     Einstök auglýsinga- og fjarsöluinnskot skulu ekki leyfð nema í undantekningartilvikum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal vera heimilt að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa, svo sem hér segir:
 1. Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilega dagskrárliði, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum á þann veg að auglýsingum og fjarsöluinnskotum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
 2. Útsendingu kvikmynda, þar á meðal kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma eða fjarsöluinnskoti. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
 3. Ef dagskrárliðir, aðrir en þeir sem fjallað er um í a-lið, eru rofnir með auglýsingum eða fjarsöluinnskotum skulu líða a.m.k. 20 mínútur milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.

     Óheimilt er að skjóta auglýsingum eða fjarsöluinnskotum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn. Þó er heimilt að rjúfa fréttatengda dagskrárliði ef þeir eru lengri en 30 mínútur.

18. gr.

Takmarkanir á auglýsingatíma í sjónvarpi.
     Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin fjarsöluinnskot að undanskildum fjarsöluþáttum í skilningi 19. gr. Hlutfall auglýsinga og fjarsöluinnskota innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%. Hvað þessa grein varðar telst eftirfarandi ekki til auglýsinga:
 1. Tilkynningar frá sjónvarpsstöð í tengslum við dagskrárefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni.
 2. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.


19. gr.

Sérákvæði um fjarsöluþætti.
     Um fjarsöluþætti í dagskrám sem ekki eru eingöngu helgaðar fjarsölu gilda eftirfarandi ákvæði:
 1. Þeir skulu standa yfir í að minnsta kosti 15 mínútur órofið.
 2. Slíkir þættir mega ekki vera fleiri en átta á degi hverjum. Heildarlengd þeirra má ekki vera meiri en þrjár klukkustundir á dag. Þeir skulu vera skýrt auðkenndir sem fjarsöluþættir með hljóðmerkjum og sjónrænt.

     Öll ákvæði laga þessara gilda eftir því sem við á og að breyttu breytanda um sjónvarpsdagskrár sem eingöngu eru helgaðar fjarsölu. Auglýsingar eru leyfðar í slíkum dagskrám innan þeirra daglegu marka sem tiltekin eru í 18. gr., þó þannig að a- og b-liðir eiga ekki við.
     Ákvæði laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga skulu gilda um fjarsölu samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á.

20. gr.

Vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum.
     Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:
 1. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
 2. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
 3. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða
 4. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.

     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um fjarsöluþætti. Í slíkum þáttum er óleyfilegt að hvetja börn til þess að gera samninga um kaup eða leigu á vöru eða þjónustu.

21. gr.

Kostun.
     Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, svo framarlega sem kostandi hefur ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og raskar ekki ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar.
     Óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni.
     Nú er dagskrárliður kostaður og má þá efni hans ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa slíka vöru eða þjónustu sérstaklega. Heimilt er að ákveða með reglugerð að sérstakar reglur skuli gilda um dagskrárliði sem kostaðir eru af góðgerðar- eða líknarfélögum.
     Kostaðar útvarpsdagskrár skulu vera ljóslega auðkenndar sem slíkar með kynningu, nafni og/eða vörumerki kostanda í upphafi og/eða lok dagskrár.
     Óheimilt er að aðrir aðilar en sá sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.
     Útvarpsdagskrár mega ekki vera kostaðar af aðilum sem bannað er að auglýsa vöru sína eða þjónustu. Þó er framleiðendum og söluaðilum lyfja heimilt að kynna nafn eða ímynd fyrirtækis síns með kostun útvarpsdagskrár, án þess þó að um sé að ræða kynningu á einstökum lyfjategundum eða læknisfræðilegri meðferð.

VII. KAFLI
Aðgangur að almennum fjarskiptanetum.

22. gr.

Aðgangur að almennum fjarskiptanetum.
     Nú óskar útvarpsstöð að fá aðgang að kapalkerfi eða öðru almennu fjarskiptaneti sem hagnýtt er til útvarpssendinga, þar á meðal breiðbandi, og skal þá fara með málið svo sem fyrir er mælt í fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, hvort tveggja eftir því sem við á.
     Ef þurfa þykir er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um takmörkun á fjölda rása sem útvarpsstöðvar í eigu sömu eða tengdra aðila fá til afnota í framangreindum fjarskiptavirkjum.

VIII. KAFLI
Takmörkun á einkaréttindum.

23. gr.

Aðgangur almennings að þýðingarmiklum viðburðum.
     Heimilt er að ákveða í reglugerð að einkaréttindi sjónvarpsstöðva til sjónvarps frá innlendum og erlendum viðburðum sem taldir eru hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu sé einungis heimilt að nýta á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum í beinum eða seinkuðum útsendingum án sérstaks endurgjalds. Í reglugerðinni skal vera tæmandi og nákvæm skrá um þá viðburði sem ákvörðun er ætlað að taka til, og skal ákvörðun um skrána tekin með góðum fyrirvara. Í reglugerð skulu enn fremur vera ákvæði um það hvort hinir tilteknu viðburðir skuli vera sýndir í heild eða að hluta í beinum útsendingum, eða í heild eða að hluta í seinkuðum útsendingum, ef það telst nauðsynlegt eða hagfellt vegna þarfa almennings, sem og önnur atriði sem nauðsynlegt þykir að kveða á um.
     Sjónvarpsstöð, sem aflar sér einkaréttar sem um ræðir í þessari grein og gildir fyrir Ísland og önnur EES-ríki, skal þegar í stað tilkynna það til útvarpsréttarnefndar sem skal hafa eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.
     Bjóði sjónvarpsstöð annarri sjónvarpsstöð að senda út frá viðburði til þess að uppfylla skyldu sína skv. 1. mgr. skal rétturinn boðinn gegn sanngjörnu endurgjaldi.
     Rísi ágreiningur milli stöðvar sem fullnægir útbreiðsluskilyrðinu og annarrar sjónvarpsstöðvar um endurgjald fyrir sölu sjónvarpsréttarins getur hvor aðili um sig leitað úrskurðar útvarpsréttarnefndar um sanngjarnt endurgjald fyrir réttinn. Endurgjaldið skal nefndin meta með hliðsjón af því hvað telst vera eðlilegt markaðsverð á samkeppnismarkaði fyrir réttindi þau sem um ræðir.
     Úrskurði útvarpsréttarnefndar um endurgjaldið verður skotið til dómstóla. Málskot til dómstóla frestar þó ekki framkvæmd á úrskurði útvarpsréttarnefndar, og fær sjónvarpsstöð, sem fullnægir útbreiðsluskilyrðinu, rétt til sýningar frá þeim viðburði sem um er að ræða, enda setji hún tryggingu fyrir greiðslu endurgjaldsins sem útvarpsréttarnefnd metur fullnægjandi.
     Heimilt er að ákveða með reglugerð tilteknar takmarkanir á nýtingu sjónvarpsstöðva á einkaréttindum sínum til dreifingar á sjónvarpsútsendingum frá þýðingarmiklum viðburðum þannig að aðrar sjónvarpsstöðvar eigi þess kost með tilteknum skilmálum að flytja stuttar fréttir af þess háttar viðburðum.

24. gr.

Gagnkvæm viðurkenning á reglum EES-ríkja.
     Sjónvarpsstöðvum, sem lúta íslenskri lögsögu, er einungis heimilt að nýta einkaréttindi sín til sjónvarps frá viðburðum sem ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ákveðið að teljist hafa verulega þýðingu í því þjóðfélagi á þann hátt að meginhluti íbúanna í viðkomandi ríki eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds.
     Einkaréttindi skulu nýtt í samræmi við reglur viðkomandi ríkis um útsendingu í heild eða að hluta og um beina eða seinkaða útsendingu frá viðburðunum.
     Útvarpsréttarnefnd skal hafa eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.

IX. KAFLI
Ábyrgð á útvarpsefni.

25. gr.

Skylda til varðveislu á frumsömdu útvarpsefni.
     Hver sá sem heimild hefur til rekstrar útvarps samkvæmt lögum þessum skal varðveita í a.m.k. 18 mánuði upptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Þó skal heimilt að varðveita fréttir í handriti. Skylt er að láta þeim sem telur misgert við sig í útsendingu í té afrit af upptöku þeirrar útsendingar. Skylt er að láta útvarpsréttarnefnd í té afrit af upptöku útsendingar samkvæmt ósk nefndarinnar.

26. gr.

Ábyrgð.
     Ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fer um refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
 1. Sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni ber ábyrgð á því. Gildir það bæði um efni sem útvarpað er samtímis því að það er flutt og efni sem útvarpað er samkvæmt áður gerðri upptöku. Ákvæði þessarar málsgreinar taka einnig til samtals í útvarpi þannig að hver sem tekur þátt í samtali í eigin nafni ber ábyrgð á sínu framlagi í því.
 2. Flytjandi ber ábyrgð á efni sem annar maður hefur samið.
 3. Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu.
 4. Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.
 5. Útvarpsstöð ber ábyrgð á greiðslu fésekta og skaðabóta sem starfsmanni stöðvar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein. Má innheimta fésektir og skaðabætur hjá útvarpsstöð með fjárnámi.


27. gr.

Upplýsingaskylda, fyrning sakar o.fl.
     Skylt er útvarpsstöð að veita hverjum þeim sem telur rétti sínum hafa verið hallað með útsendingu á útvarpsefni fullnægjandi upplýsingar um hver hafi borið ábyrgð á útsendingunni samkvæmt ákvæðum 26. gr.
     Um rétt til málssóknar út af brotum í sambandi við útsendingu útvarpsefnis fer eftir almennum reglum laga. Refsiábyrgð fellur niður ef sex mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber rannsókn út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn.

X. KAFLI
Viðurlög.

28. gr.

Refsingar.
     Eftirtalin brot gegn lögum þessum varða fésektum:
 1. Útvarp án leyfis útvarpsréttarnefndar, sbr. 1. mgr. 6. gr.
 2. Misbrestur á tal- eða textasetningu efnis á erlendu máli, sbr. 1. mgr. 8. gr.
 3. Misbrestur á efndum skyldna vegna almannaheilla, sbr. 13. gr.
 4. Sýning efnis sem bannað er skv. 1. mgr. 14. gr. og misbrestur á varúðarráðstöfunum vegna velferðar barna sem ákveðnar verða í reglugerð skv. 2. mgr. 14. gr.
 5. Óheimil nýting á einkaréttindum samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem sett kann að verða með stoð í 23. gr.
 6. Óheimil nýting á einkaréttindum skv. 24. gr.
 7. Misbrestur á efnd skyldu til varðveislu á frumsömdu útvarpsefni og til afhendingar á afriti af upptöku á útsendingu, sbr. 25. gr.
 8. Misbrestur á efnd upplýsingaskyldu, sbr. 1. mgr. 27. gr.
 9. Óheimil hagnýting útvarpsefnis, sbr. 32. gr.
 10. Óheimil meðferð myndlykla, sbr. 33. gr.

     Alvarleg eða ítrekuð brot skv. 1. mgr. geta varðað fangelsi.

29. gr.

Upptaka eigna.
     Hluti og búnað, sem notaðir hafa verið við brot gegn ákvæðum 33. gr., skal gera upptæka, nema þeir séu eign aðila sem ekki er við brotið riðinn. Ávinning, sem aflað hefur verið með broti, skal gera upptækan. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga forgang til andvirðis hins upptæka ef bætur fást ekki á annan hátt.
     Gera má upptæk viðtæki sem notuð hafa verið til hagnýtingar á útvarpsefni í tekjuöflunarskyni, sbr. 32. gr.

30. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fari útvarpsstöð ekki að fyrirmælum 9. og 11. gr. og VI. kafla, um auglýsingar, fjarsölu og kostun, varðar það stjórnvaldssektum samkvæmt úrskurði útvarpsréttarnefndar. Gildir þetta nema brot varði refsiviðurlögum samkvæmt öðrum lögum.
     Við ákvörðun stjórnvaldssekta skv. 1. mgr. skal m.a. tekið tillit til tekna útvarpsstöðvar af broti. Skal stjórnvaldssekt ákveðin sem tvöfalt til tífalt margfeldi af þeim tekjum sem útvarpsstöð hefur aflað sér með broti gegn VI. kafla laganna.
     Sektarúrskurðir útvarpsréttarnefndar eru aðfararhæfir.
     Útvarpsstöð getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð útvarpsréttarnefndar. Málskot frestar aðför.
     Ef brot gegn þessari grein telst ekki alvarlegt eða er ekki ítrekað getur útvarpsréttarnefnd látið við það sitja að beita áminningu.

31. gr.

Afturköllun útvarpsleyfis.
     Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

32. gr.

Óheimil hagnýting útvarpsefnis.
     Óheimilt er útvarpsnotanda að hagnýta sér útvarpsefni til tekjuöflunar, t.d. með upptöku þess, útgáfu eða með því að selja aðgang að viðtæki sínu.

33. gr.

Myndlyklabrot.
     Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við myndlykla í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.
     Óheimilt er að nota myndlykil til þess að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið.

34. gr.

Stafrænt útvarp.
     Heimilt er menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi.
     Útvarpsstöðvum skal gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúning að stafrænu útvarpi.
     Við útgáfu allra nýrra útvarpsleyfa samkvæmt lögum þessum og við endurnýjun annarra útvarpsleyfa skal sett að skilyrði að með reglugerð megi mæla fyrir um breytingu á merkjum útvarpsstöðvar í stafrænt form, enda verði slík breyting ákveðin með eðlilegum fyrirvara að teknu tilliti til tæknilegra og fjárhagslegra ástæðna. Ákvæði þetta gildir einnig um lögbundið leyfi Ríkisútvarpsins.

35. gr.

Setning reglugerðar.
     Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra.

36. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi ákvæði ú tvarpslaga, nr. 68/1985, með síðari breytingum, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum laganna sem varða Ríkisútvarpið: 1. mgr. 2. gr., III. kafli, IV. kafli, 31. gr. og 32. gr. Heiti þeirra laga verður: Lög um Ríkisútvarpið. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum kafla- og greinanúmerum.

XII. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.

37. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum:
 1. Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnunina“ í 2. mgr. kemur: aðra aðila.

 2. Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnunin“ í 1. málsl. kemur: fjarskiptafyrirtæki.
  2. Í stað tilvísunarinnar „sbr. 3. gr.“ í 3. málsl. kemur: sbr. ákvæði útvarpslaga.
  3. Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnunarinnar“ í 5. málsl. kemur: Póst- og fjarskiptastofnunarinnar.Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir það sem segir í 2. gr., 3. mgr. 6. gr. og a-lið 4. mgr. 6. gr. í lögum þessum er utanríkisráðuneytinu heimilt að veita varnarliðinu leyfi til áframhaldandi útvarpsrekstrar, sbr. lög nr. 110/1951 og lög nr. 106/1954, og skal þá tekið mið af ákvæðum I.–IV. kafla að svo miklu leyti sem við getur átt.
     Núverandi stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva skal sitja áfram eftir gildistöku laga þessara þar til hún hefur lokið starfi sínu, þó ekki lengur en til 31. desember 2001. Hlutverk hennar skal þá einvörðungu vera það að hafa eftirlit með framvindu þegar styrktra verkefna, að framvinda og framkvæmd sé í samræmi við umsóknir og forsendur styrkveitinga, að innheimta ógreidd menningarsjóðsgjöld og að koma að öðru leyti fram fyrir hönd sjóðsins.
     Þar til sett hefur verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laga þessara skulu reglugerðir samkvæmt ú tvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem við getur átt.
     Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2000.