Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1416, 125. löggjafarþing 502. mál: stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Lög nr. 76 23. maí 2000.

Lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er nefnist Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, til hins nýja félags.

2. gr.

     Utanríkisráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins og fer með hlut íslenska ríkisins í því.

3. gr.

     Unnið skal að því að nafnverð stofnhlutafjár félagsins nemi allt að 80% af bókfærðu eigin fé Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 30. júní 2000 sem jafnframt skal gilda sem stofnefnahagsreikningur félagsins, en 20% af eigin fé færist í varasjóð. Endanleg upphæð hlutafjár skal þó taka breytingum til hækkunar eða lækkunar í samræmi við niðurstöðu matsnefndar, sbr. 4. gr.

4. gr.

     Utanríkisráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna, þar sem sitji a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi, til að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og leggja mat á hvert hlutafé hlutafélagsins skuli vera. Nefndin skal hafa fullan aðgang að öllum gögnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og skulu stjórnendur og starfsmenn hennar veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir eigi síðar en í lok júlí 2000.

5. gr.

     Hlutafé félagsins eins og það er ákveðið skv. 3. og 4. gr. telst að fullu innborgað með yfirtöku félagsins á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öllu því er henni fylgir skv. 1. gr.

6. gr.

     Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og ráðstöfun óheimil án samþykkis Alþingis.

7. gr.

     Tilgangur félagsins er að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist.

8. gr.

     Heimili og varnarþing félagsins skulu vera á Keflavíkurflugvelli, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

9. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í félaginu né heldur skulu ákvæði 2. mgr. 14. gr. hlutafélagalaga gilda um félagið. Að öðru leyti og ef annað leiðir ekki af lögum þessum taka ákvæði hlutafélagalaga til félagsins.

10. gr.

     Félagið greiðir opinber gjöld á sama hátt og önnur hlutafélög hér á landi.

11. gr.

     Þegar stofnunin Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður lögð niður, sbr. 13. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, eftir því sem við á.

12. gr.

     Stofnfund félagsins skal halda fyrir lok ágúst 2000. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið. Á stofnfundi skal kjósa félaginu stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar.

13. gr.

     Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. skal hinn 1. október 2000 yfirtaka stofnunina Flugstöð Leifs Eiríkssonar með öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum sem henni fylgja. Stofnunin skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð ráðgefandi stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

14. gr.

     Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. ber í allri starfsemi sinni að virða og standa við þær skuldbindingar á starfssviði og starfssvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem íslenska ríkið undirgengst og varða flugstöðina og starfsemi þá sem félagið yfirtekur. Er félaginu skylt að sæta eftirliti og fara að fyrirmælum stjórnvalda hér að lútandi sem og öðrum fyrirmælum er varða flugstöðina og starfsemi hennar. Utanríkisráðherra skal útfæra nánar ákvæði þessarar greinar í reglugerð.

15. gr.

     Stjórn félagsins er heimilt að setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða og jafnframt tekið tillit til nýjunga sem geta haft áhrif á söluverð þjónustu félagsins.
     Þjónustugjaldskrá öðlast gildi þegar hún hefur verið staðfest af utanríkisráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

16. gr.

     Allur kostnaður Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar greiðist af félaginu.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 2000.