Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1312, 125. löggjafarþing 490. mál: sóttvarnalög (samstarfsnefnd, kostnaður o.fl.).
Lög nr. 90 22. maí 2000.

Lög um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.


1. gr.

     2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Við embætti landlæknis skal starfa sóttvarnalæknir sem ber ábyrgð á sóttvörnum. Sóttvarnalæknir skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra.

2. gr.

     2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Telji sóttvarnalæknir hættu á að dýr, matvæli, starfsemi, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum sem ógna heilsu manna skal ráðherra skipa sérstaka samstarfsnefnd til að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu. Samstarfsnefndin skal skipuð þremur mönnum, sóttvarnalækni, sem jafnframt er formaður, einum tilnefndum af Hollustuvernd ríkisins og öðrum tilnefndum af yfirdýralækni. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndinni er heimill aðgangur að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin skal gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta smithættu. Að öðru leyti skal framkvæmd vera í samræmi við lög þessi og, eftir því sem við á, sérlög um einstaka eftirlitsaðila.

3. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Brjótist út hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna skal sóttvarnalæknir gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits og hefur í slíkum tilvikum sama rétt til aðgangs að gögnum og til skoðunar og kveðið er á um í 2. mgr. 11. gr.

4. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Telji sóttvarnalæknir hættu á að næmar sóttir sem ógnað geta almannaheill berist til landsins getur hann beint tilmælum til ráðherra um að setja reglugerð um að þeir sem koma til landsins og talin er hætta á að beri með sér slíkar sóttir skuli sæta læknisrannsókn.

5. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður sem hlýst af framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði. Greiðsluhlutdeild sjúklinga skal fylgja lögum um almannatryggingar. Heimilt er þó með reglugerð að veita undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga, svo sem þegar sjúklingar leita til göngudeilda smitsjúkdóma vegna greiningar og meðferðar tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, sjúklingar eru kvaddir til rannsókna til að leita að smiti og þegar fólki er gert að sæta læknisrannsókn.

6. gr.

     Á eftir orðunum „opinberar sóttvarnaráðstafanir skv. 12. gr.“ í 1. málsl. 18. gr. laganna kemur: heimild til að kveða á um læknisrannsókn eftir tilmælum sóttvarnalæknis skv. 14. gr.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2000. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.