Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1314, 125. löggjafarþing 559. mál: meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög (nálgunarbann).
Lög nr. 94 22. maí 2000.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum (nálgunarbann).


I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

1. gr.

     Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     3. Skylt er dómara að verða við ósk manns um að skipa honum verjanda ef þess er krafist að hann sæti nálgunarbanni.

2. gr.

     Á eftir orðinu „sinnt“ í d-lið 98. gr. laganna kemur: kvaðningu skv. 110. gr. b eða.

3. gr.

     Á eftir XIII. kafla laganna kemur nýr kafli, XIII. kafli A, Nálgunarbann, með fjórum nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (110. gr. a.)
     Heimilt er leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.
     
     b. (110. gr. b.)
     1. Lögregla gerir kröfu um nálgunarbann.
     2. Eftir að dómara hefur borist krafa um nálgunarbann ákveður hann stað og stund þinghalds til að taka kröfuna fyrir og gefur út kvaðningu á hendur þeim sem krafan beinist að. Í kvaðningu skal greina stað og stund þinghalds ásamt áskorun til viðtakanda um að sækja þing. Þá skal þess getið í kvaðningu að verði henni ekki sinnt megi lögregla færa viðtakanda fyrir dóm með valdi ef með þarf.
     
     c. (110. gr. c.)
     1. Þegar krafa um nálgunarbann er tekin fyrir kynnir dómari hana þeim sem hún beinist að. Skal honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Heimilt er í því skyni að veita frest sem ekki skal vera lengri en tveir sólarhringar. Að svo búnu leggur dómari úrskurð á kröfuna.
     2. Nálgunarbanni skal markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár. Nálgunarbann verður ekki framlengt nema til komi nýr dómsúrskurður.
     3. Dómari ákveður sakarkostnað í úrskurði sínum.
     
     d. (110. gr. d.)
     1. Nú er sá sem sætir nálgunarbanni ekki viðstaddur þegar úrskurður er kveðinn upp og skal þá úrskurður birtur honum með venjulegum hætti, sbr. 20. gr.
     2. Þegar ástæður þær sem lágu til grundvallar nálgunarbanni eru ekki lengur fyrir hendi getur lögregla fellt bannið úr gildi. Ákvörðun lögreglu um að fella úr gildi bann verður ekki borin undir dómara.
     3. Lögregla skal tilkynna þeim sem njóta á verndar með nálgunarbanni um að krafa verði lögð fyrir dóm, um lyktir máls og lok nálgunarbanns.

II. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

4. gr.

     1. mgr. 232. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 16/1976, orðast svo:
     Ef maður brýtur gegn nálgunarbanni samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 2 árum.

III. KAFLI
Gildistaka.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.