Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1344, 125. löggjafarþing 420. mál: verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.).
Lög nr. 99 22. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

1. gr.

     Inngangsmálsliður 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Lög þessi, að undanskildum ákvæðum IV. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga og V. kafla um samningsbundið uppgjör afleiðusamninga, taka ekki til.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 4. tölul. orðast svo: Almennt útboð: Sala samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups í fyrsta sinn með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar.
 2. Við greinina bætast sex nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Afleiðusamningur: Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs. Andvirði slíks samnings er háð breytingu þessara viðmiðunarþátta á tilteknu tímabili.
  2. Framvirkur vaxtasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um vaxtaviðmiðun á ákveðnu tímabili og reiknast vextir af fyrir fram ákveðinni grunnfjárhæð sem ekki kemur til greiðslu. Samningurinn er gerður upp á fyrir fram ákveðnum uppgjörsdegi.
  3. Valréttarsamningur: Afleiðusamningur sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kaupréttur) eða selja (söluréttur) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki eða innan tiltekins tíma. Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans.
  4. Framvirkur samningur: Afleiðusamningur sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma.
  5. Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um að samningsaðilar greiði vexti hvor til annars af tiltekinni viðmiðunarfjárhæð í sama gjaldmiðli eða greiði vexti og höfuðstól hvor til annars hvor í sínum gjaldmiðli á samningstímanum.
  6. Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga: Samningur á milli tveggja eða fleiri aðila sem eiga kröfu hver á annan um að í stað þess að gera upp hverja kröfu fyrir sig sérstaklega skuli láta kröfurnar jafnast hverja á móti annarri og aðeins mismunurinn (jaðargreiðsla) komi til greiðslu.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 2. og 3. málsl. 3. tölul.
 2. 6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Verðbréfamiðlun skv. 9. gr. setji tryggingu fyrir tjóni sem hún kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.


4. gr.

     11. gr. laganna verður 2. mgr. 10. gr. laganna.

5. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 11. gr., svohljóðandi:
     Starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr., skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Í reglugerð skal kveða á um prófkröfur og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild ef aðili hefur lokið jafngildu námi.
     Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða ber fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn skv. 1. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

6. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum í starfsemi sinni og ber þeim ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Skulu viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra, veittar greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
     Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu sýna fram á að 1. mgr. sé fylgt og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrum aðskilnaði einstakra starfssviða þeirra. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta reglur fyrirtækjanna sem miða að þessu. Í reglunum skal gera sérstaka grein fyrir eftirliti innan fyrirtækisins með því að þeim sé fylgt. Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.
     Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna.

7. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir varðandi vitneskju eða grun um að viðskipti brjóti gegn 30. gr.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Vakni grunur skv. 1. mgr. skal fyrirtækið þegar í stað tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.


8. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skal vegna eigin viðskipta með verðbréf og vegna viðskipta eigenda virkra eignarhluta skv. 12. gr., stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila meðal annars gæta eftirtalinna atriða:
 1. að fyllsta trúverðugleika fyrirtækisins sé gætt,
 2. að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt,
 3. að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum,
 4. að tryggt sé að viðskiptin stangist ekki á við IV. kafla þessara laga,
 5. að viðskiptin séu sérstaklega skráð,
 6. að stjórn fyrirtækisins fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og hafi eftirlit með þeim.

     Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu setja sér reglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Fyrirtæki ber að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum reglnanna. Þær skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

9. gr.

     2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
     Um heimildir framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna fyrirtækisins varðandi þau atriði sem í 1. mgr. greinir fer eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins setur og Fjármálaeftirlitið staðfestir.

10. gr.

     3. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Tilkynningar til kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan, sbr. lög um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

11. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. KAFLI, Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga, með þremur nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra kafla og greina samkvæmt því:
     
     a. (32. gr.)
     Ákvæði þessa kafla taka til framvirkra vaxtasamninga, vaxta- og gjaldmiðlavalréttarsamninga, framvirkra vaxta- og gjaldmiðlasamninga, vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga og annarra afleiðusamninga með gjaldmiðla og vexti.
     Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að þessi kafli skuli einnig gilda um aðra afleiðusamninga.
     
     b. (33. gr.)
     Skriflegur samningur, einn eða fleiri, milli tveggja aðila um að skyldur þeirra samkvæmt samningum þeim sem nefndir eru í 32. gr. skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnun, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, skal halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
     
     c. (34. gr.)
     Tryggingarréttindum vegna samninga sem nefndir eru í 32. gr. sem sett eru til tryggingar viðskiptum í greiðslujöfnunarstöð í samræmi við þær reglur sem gilda í stöðinni verður ekki rift samkvæmt ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

12. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og hafa staðist próf í verðbréfamiðlun samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð. Honum er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.

III. KAFLI
Gildistaka.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu hafa lagað starfsemi sína að 5. gr. laga þessara fyrir 1. janúar 2002.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.