Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 621, 126. löggjafarþing 264. mál: tekjuskattur og eignarskattur (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.).
Lög nr. 149 20. desember 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., sem orðast svo:
 1. Vextir af stofnsjóðseign í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar eða ráðstöfunar.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. B:
 1. Við 1. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hlutabréfum og hlutum starfsmanna skulu fylgja sömu réttindi og öðrum hlutabréfum eða hlutum félags.
 2. 4. tölul. orðast svo: Kaupverð sé eigi lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf félags tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð eins og það er skilgreint í 8. gr. A.
 3. Í stað „kaupréttar“ í 7. tölul. kemur: kaupa.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Ríkisskattstjóri skal birta með aðgengilegum hætti jöfnunarstuðul fyrir hlutabréf eða hluti í félögum, þ.e. hlutfall jöfnunarverðmætis, sem skattstjóri hefur staðfest samkvæmt þessari grein, og nafnverðs hlutabréfa eða hluta í félögum.
 2. 7. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „reikningsár“ í 2. málsl. 5. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. kemur: sem endurskoðaður hefur verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga.
 2. Í stað fjárhæðanna „22.368.780“ og „44.737.560“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 27.000.000, og: 54.000.000.
 3. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjárhæðir samkvæmt þessari málsgrein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.


5. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæðir samkvæmt þessari grein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.

6. gr.

     Orðin „kaupleigu eða“ í 4. tölul. 52. gr. falla brott.

7. gr.

     Fyrirsögn 57. gr. B laganna verður svohljóðandi: Samsköttun félaga.

8. gr.

     Á eftir 4. mgr. 57. gr. B laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nú er dótturfélag í eigu samvinnufélags og gilda þá ákvæði þessarar greinar, enda sé skilyrðum hennar fullnægt.

9. gr.

     Við 1. mgr. 60. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Hafni skattstjóri ósk aðila um breytt reikningsár sætir sú ákvörðun kæru til ríkisskattstjóra og skal úrskurður ríkisskattstjóra vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.

10. gr.

     3. mgr. 64. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
 1. Í stað fjárhæðarinnar „83.933“ í 2. mgr., sbr. c-lið í ákvæði til bráðabirgða VI með lögum nr. 65/1997, kemur: 86.451.
 2. 3. og 4. málsl. 3. mgr. falla brott.
 3. Í stað orðanna „Sama gildir“ í 5. málsl. 3. mgr. kemur: Þó skal ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda.


12. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „671“ í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur: 691.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
 1. 7. mgr. A-liðar orðast svo:
 2.      Komi í ljós að maður hefur fengið greiddar barnabætur án þess að eiga rétt á þeim skal honum gert að endurgreiða þær að viðbættu 15% álagi. Álag samkvæmt þessari málsgrein skal þó fellt niður ef maður færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka á framtali er leiddu til ákvörðunar skattstjóra.
 3. Við 9. mgr. A-liðar bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu barnabóta er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra berst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
 4. Á eftir orðinu „fyrirframgreiðsluna“ í 12. mgr. B-liðar kemur: til skattstjóra.
 5. Við 12. mgr. B-liðar bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu vaxtabóta er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra berst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.


14. gr.

     2. málsl. 4. tölul. 71. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 93. gr. laganna:
 1. Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Í upphafi hvers árs skal fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra ákveða með auglýsingu hvenær álagningu skuli vera lokið. Álagningu skal þó vera lokið eigi síðar en tíu mánuðum eftir lok tekjuárs, sbr. 60. gr.
       Ríkisskattstjóri skal í upphafi hvers árs ákveða fresti skattaðila til að skila framtali, sbr. 91. gr., og þeim gögnum sem um ræðir í 92. gr. Heimilt er að breyta þeim frestum ef nauðsyn krefur.
 3. 5. mgr. fellur brott.


16. gr.

     Í stað orðanna „Eigi síðar en 30. júní ár hvert skulu skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skv. 95. gr. og eftir því sem við á skv. 3. mgr. 96. gr. og skulu skattstjórar þá“ í 1. málsl. 1. mgr. 98. gr. laganna kemur: Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir.

17. gr.

     Á eftir 3. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ríkisskattstjóri getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni leiðrétt álagningu á skattaðila eða falið það skattstjóra ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra var byggð á. Breyting af þessu tilefni getur tekið til skattstofns eða skatts frá og með því tekjuári sem um var fjallað í máli því sem hliðstætt er talið, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar úrskurður eða dómur var kveðinn upp. Beiðni um endurupptöku skal borin fram innan eins árs frá því að skattaðila var eða mátti vera kunnugt um tilefni hennar. Skattaðila er heimilt að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, svo og má bera synjun um breytingu á skattákvörðun samkvæmt þessari málsgrein undir yfirskattanefnd.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 117. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „ríkisskattstjóra“ kemur: skattstjóra.
 2. Orðin „eða ábendingu skattstjóra“ falla brott.


19. gr.

     118. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisskattstjóra er heimilt að breyta tímaákvörðunum og frestum skv. 99. gr. ef nauðsyn krefur.

20. gr.

     Á eftir orðinu „fjármagnstekjur“ í 1. málsl. 1. mgr. 121. gr. laganna kemur: og við mismun sem í ljós kemur við álagningu fjármagnstekjuskatts lögaðila, sbr. 4. mgr. 72. gr.

21. gr.

 1. Ákvæði 1., 2., 3., 4., 6., 7., 8., 9., 10., b- og c-liðar 11. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr., 16. gr., 17. gr., 18. gr., 19. gr. og ákvæði til bráðabirgða öðlast þegar gildi.
 2. Ákvæði a-liðar 11. gr. og 12. gr. öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á því ári.
 3. Ákvæði 5. gr. og 20. gr. öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2002 vegna tekna og eigna á árinu 2001.
 4. Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 2. mgr. 67. gr. og B-lið 68. gr. laganna sem hér segir: 1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 3,0% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002 og eigna í lok þess árs. 1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,25% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna á árinu 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Um skattlagningu söluhagnaðar manna sem fengið hafa frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. 7. mgr. 17. gr. laganna vegna sölu hlutabréfa og hluta á árunum 1998 og 1999 og nýta ekki heimildir til fjárfestinga í öðrum hlutabréfum innan frests skv. 7. mgr. 17. gr. laganna eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara skal fara skv. 3. mgr. 67. gr. laganna.
     Unnt er að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa einstaklinga á árinu 2000 um ein áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð söluhagnaðarins er umfram 3.230.672 kr. hjá einstaklingum og 6.461.344 kr. hjá hjónum. Séu önnur hlutabréf keypt í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði hinna nýju bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréfa. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á því ári þegar hann myndast og skattleggst hann þá skv. 3. mgr. 67. gr. laganna. Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til söluhagnaðar sem myndaðist í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

II.
     Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2001 skal árið 2002 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
     Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.359.899 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 6.719.798 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
     Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.359.899 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.359.899 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
     Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.

III.
     Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2002 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 2001. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2001 vegna tekna á árinu 2000 umfram 3.359.899 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.719.798 kr. hjá hjónum.
     Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrstu dagar mánaðanna ágúst til og með desember. Um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar skal kveða nánar á í reglugerð.
     Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
     Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
     Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal bæta 2,5% álagi við mismuninn.

IV.
     Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II og III skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.