Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 512, 126. löggjafarþing 118. mál: skráning skipa (kaupskip).
Lög nr. 153 20. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Heimilt er að skrá kaupskip þurrleiguskráningu þegar aðilar skv. 1. mgr. hafa aðeins umráð skipsins með samningi og skilyrðum 1. mgr. um eignarhald er ekki fullnægt. Heimilt er að skrá skip með slíkum hætti til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn. Áður en óskað er slíkrar skráningar skal leggja fram upplýsingar um skipið, skráðan eiganda í frumskráningarríki og fulltrúa hans, leigutaka og leigutíma, ásamt upplýsingum um hvar skipið er frumskráð og kenninúmer skipsins (IMO-númer). Með umsókn um þurrleiguskráningu skal fylgja afrit þurrleigusamnings á íslensku eða ensku, staðfesting frá skipaskrá frumskráningarríkis um að skipið megi sigla undir fána annars ríkis á leigutímanum og útskrift úr skipaskrá frumskráningarríkis sem sýnir hver er skráður eigandi skipsins. Skip sem skráð er þurrleiguskráningu skal sigla undir íslenskum fána og skal uppfylla ákvæði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæði um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð í frumskráningarríki. Skip skráð þurrleiguskráningu skal afmáð af skipaskrá þegar:
  1. þurrleigusamningur fellur úr gildi;
  2. skilyrðum skráningar er ekki lengur fullnægt;
  3. leigutaki óskar afskráningar;
  4. skip hefur ekki lengur heimild frumskráningarríkis til að sigla undir fána annars ríkis og
  5. 2.–5. tölul. 15. gr. á við um skipið.

     Heimilt er að skrá kaupskip sem frumskráð er á íslenska skipaskrá þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá þegar skilyrðum 1. mgr. um eignarhald er fullnægt. Siglingastofnun er þó heimilt að ákveða að heimild þessi sé bundin við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip með slíkum hætti til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn. Áður en óskað er slíkrar skráningar skal leggja fram upplýsingar um leigutaka og fulltrúa hans, ásamt upplýsingum um hvar eigi að skrá skipið þurrleiguskráningu. Með umsókn um slíka skráningu skal fylgja afrit þurrleigusamnings á íslensku eða ensku, staðfesting frá erlendri skipaskrá um að heimilt sé að skrá skipið þar þurrleiguskráningu og skriflegt samþykki frá veðhöfum um að skipið megi sigla undir erlendum fána. Skip, sem frumskráð er á íslenska skipaskrá og þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá, siglir undir fána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæðum um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð hjá þinglýsingarstjórum hér á landi.

2. gr.

     1. málsl. 10. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Fullt nafn og heimilisfang eigenda eða leigutaka samkvæmt 1. gr.

3. gr.

     1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Heimahöfn skráðs skips skal vera þar sem eigandi eða leigutaki samkvæmt 1. gr. ætlar því heimilisfang.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2000.