Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 558, 126. löggjafarþing 197. mál: tekjuskattur og eignarskattur (barnabætur).
Lög nr. 166 22. desember 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 69. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: skv. 3. og 4. mgr.
  2. Í stað 3. og 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Barnabætur skulu árlega nema 33.470 kr. með öllum börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu.
         Til viðbótar barnabótum skv. 3. mgr. skal greiða tekjutengdar barnabætur með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu sem árlega skulu nema 113.622 kr. með fyrsta barni en 135.247 kr. með hverju barni umfram eitt. Tekjutengdar barnabætur með börnum einstæðra foreldra skulu vera 189.244 kr. með fyrsta barni en 194.125 kr. með hverju barni umfram eitt. Barnabætur samkvæmt þessari málsgrein skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 1.290.216 kr. hjá hjónum og umfram 645.109 kr. hjá einstæðu foreldri. Með tekjuskattsstofni í þessu sambandi er átt við tekjur skv. II. kafla laganna, þó ekki tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 5% með einu barni, 9% með tveimur börnum og 11% með þremur börnum eða fleiri.
  4. 5. mgr. fellur brott.


2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2001 og fyrirframgreiðslu á því ári.
     Hækka skal fjárhæðir barnabóta sem um ræðir í 3. mgr. og 1. og 2. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna sem hér segir:
  1. 1. janúar 2002 skulu fjárhæðirnar hækka um 3% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
  2. 1. janúar 2003 skulu fjárhæðirnar hækka um 2,75% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.

     Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 3. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna sem hér segir:
  1. 1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
  2. 1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 4% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.

     Skerðingarhlutföll í 5. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna lækka sem hér segir:
  1. 1. janúar 2002 skal skerðingarhlutfallið vera 4% með einu barni, 8% með tveimur börnum og 10% með þremur börnum eða fleiri og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu 2002 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
  2. Frá 1. janúar 2003 skal skerðingarhlutfallið vera 3% með einu barni, 7% með tveimur börnum og 9% með þremur börnum eða fleiri og kemur breytingin fyrst til framkvæmda við álagningu 2003 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.


Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.