Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 531, 126. löggjafarþing 81. mál: Norðurlandasamningar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði (framfærsluskylda með maka, barni eða móður barns o.fl.).
Lög nr. 178 20. desember 2000.

Lög um breytingar á Norðurlandasamningum um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og um innheimtu meðlaga.


1. gr.

     Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd eftirgreinda Norðurlandasamninga sem undirritaðir voru í Ósló 25. febrúar 2000 og prentaðir eru sem fylgiskjöl með lögum þessum:
  1. Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi sömu ríkja frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem staðfestur var með lögum nr. 29 8. september 1931.
  2. Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi sömu ríkja frá 23. mars 1962 sem staðfestur var með lögum nr. 93 29. desember 1962.


2. gr.

     Þegar samningar þeir sem um ræðir í 1. gr. hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þeirra hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal I.

Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931.
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:
I.
     Á 8. gr. samningsins milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, sem undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, eru gerðar eftirfarandi breytingar:
     Í 1. mgr. falli brott orðið „framfærsluskyldu“. Í 1. málsl. 2. mgr. falli brott orðin „framfærsluskyldu og“ og 3. málsl. falli brott.
II.
     Varðandi beitingu samkomulagsins í Færeyjum og á Grænlandi getur danska dómsmálaráðuneytið, að undangengnum samningaviðræðum við dómsmálaráðuneyti hinna samningsríkjanna, ákveðið þau frávik sem sérstakar færeyskar eða grænlenskar aðstæður krefjast.
III.
     Samningsríkin geta gerst aðilar að samkomulagi þessu með
  1. undirritun án fyrirvara um fullgildingu, eða
  2. undirritun með fyrirvara um fullgildingu, ásamt eftirfarandi fullgildingu.

     Fullgildingarskjölin skulu varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu.
     Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar er hefst tveimur mánuðum eftir að öll samningsríkin hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjalanna til vörslu og hvenær samkomulagið öðlast gildi.
IV.
     Frumrit þessa samkomulags skal varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur öðrum samningsríkjum í té staðfest endurrit.
     Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar með fullgilt umboð undirritað samkomulag þetta.
     
     Gjört í Ósló hinn 25. febrúar 2000 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og að því er sænskuna varðar í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð.

Fylgiskjal II.

Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga er undirritaður var í Ósló 23. mars 1962.
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:
I.
     Á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga, sem undirritaður var í Ósló hinn 23. mars 1962, eru gerðar eftirfarandi breytingar:
     
      1. gr. hljóði svo:
     Aðfararhæfur dómur, úrskurður stjórnvalds eða samningur, staðfestur af opinberu stjórnvaldi, sem hefur lagt einhverjum á herðar í einu samningsríkjanna að greiða meðlag til maka, fyrrverandi maka, barns, stjúpbarns eða móður barns, skal viðurkenndur í öðrum samningsríkjum án sérstakrar staðfestingar.
     Aðfararhæfum dómi, úrskurði stjórnvalds, samningi staðfestum af opinberu stjórnvaldi, eða öðrum skriflegum samningi, sem hefur lagt einhverjum á herðar í einu samningsríkjanna að greiða slíkt meðlag og sem unnt er að fullnusta í því ríki, skal þegar í stað fullnægt í öðru samningsríki, sé þess farið á leit. Hið sama gildir um dóm sem ekki er orðinn aðfararhæfur, svo og úrskurð eða ákvörðun dómara eða dómstóls, sem fullnægja má samkvæmt reglum um aðfararhæfa dóma.
     
      2. mgr. 2. gr. hljóði svo:
     Eigi fullnusta að fara fram í öðru samningsríki en því þar sem beiðni kemur fram samkvæmt 1. mgr. skal senda beiðnina til fyrrnefnds ríkis. Í því tilviki er beiðnin send til og móttekin af:
     í Danmörku hlutaðeigandi stjórnvaldi (statsamtet, í Kaupmannahöfn Overpræsidiet) eða, ef óvíst er hvaða stjórnvald sé til þess bært að fjalla um málið, dómsmálaráðuneytinu;
     í Finnlandi hlutaðeigandi stjórnvaldi (utmätningsman) eða, ef óvíst er hvaða stjórnvald sé til þess bært að fjalla um málið, dómsmálaráðuneytinu;
     á Íslandi dómsmálaráðuneytinu;
     í Noregi utanríkismálaskrifstofu almannatrygginga (folketrygdkontoret for utenlandssaker);
     í Svíþjóð hlutaðeigandi stjórnvaldi (kronofogdemyndighet) eða, ef óvíst er hvaða stjórnvald sé til þess bært að fjalla um málið, ríkisskattstjóra (Riksskatteverket).
     
      1. mgr. 3. gr. hljóði svo:
     Stjórnvaldið sem á að framkvæma innheimtuna getur, ef nauðsynlegt þykir, krafist vottorðs um að dómurinn, úrskurðurinn, ákvörðunin eða samningurinn fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í 2. mgr. 1. gr. fyrir fullnustu. Vottorðið skal gefið út af því stjórnvaldi sem kveðið er á um í 2. mgr. 2. gr. í ríki því þar sem dómurinn eða úrskurðurinn er kveðinn upp, ákvörðunin er tekin eða samningurinn gerður.
     
      Ný 6. gr. a hljóði svo:
     Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að viðurkenna eða leita fullnustu á grundvelli heimilda í öðrum alþjóðasamningum sem gilda milli hlutaðeigandi ríkja eða samkvæmt lögum þess ríkis þar sem álitaefnið um viðurkenningu eða fullnustu kemur upp.
II.
     Varðandi beitingu samkomulagsins í Færeyjum og á Grænlandi getur danska dómsmálaráðuneytið, að undangengnum samningaviðræðum við dómsmálaráðuneyti hinna samningsríkjanna, ákveðið þau frávik sem sérstakar færeyskar eða grænlenskar aðstæður krefjast.
III.
     Samningsríkin geta gerst aðilar að samkomulagi þessu með
  1. undirritun án fyrirvara um fullgildingu, eða
  2. undirritun með fyrirvara um fullgildingu, ásamt eftirfarandi fullgildingu.

     Fullgildingarskjölin skulu varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu.
     Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar er hefst tveimur mánuðum eftir að öll samningsríkin hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjalanna til vörslu og hvenær samkomulagið öðlast gildi.
IV.
     Samkomulag þetta gildir einnig um ákvarðanir eða samninga sem getið er í 1. gr. þótt þær hafi verið teknar eða þeir gerðir fyrir gildistöku samkomulagsins.
V.
     Frumrit þessa samkomulags skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu er lætur öðrum samningsríkjum í té staðfest endurrit.
     Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar með fullgilt umboð undirritað samkomulag þetta.
     
     Gjört í Ósló hinn 25. febrúar 2000 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og að því er sænskuna varðar í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2000.