Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 890, 126. löggjafarþing 520. mál: stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja.
Lög nr. 10 19. mars 2001.

Lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja.


1. gr.

     Heimilt er að sameina Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar og stofna hlutafélag um reksturinn er nefnist Hitaveita Suðurnesja hf. Ríkisstjórninni er heimilt að leggja hlutafélaginu til hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja.

2. gr.

     Eignarhlutir í Hitaveitu Suðurnesja við sameiningu skulu skiptast á eftirfarandi hátt:
Reykjanesbær 43,500%
Ríkissjóður Íslands 16,667%
Hafnarfjarðarbær 16,667%
Grindavíkurbær 9,308%
Sandgerðisbær 5,825%
Gerðahreppur 5,058%
Vatnsleysustrandarhreppur 2,975%


3. gr.

     Stjórn Hitaveitu Suðurnesja annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við sameigendur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og eigendur Rafveitu Hafnarfjarðar.

4. gr.

     Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
     Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

5. gr.

     Heimili og varnarþing Hitaveitu Suðurnesja hf. skulu vera í Reykjanesbæ, en heimilt að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

6. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár í Hitaveitu Suðurnesja hf.

7. gr.

     Hlutir í Hitaveitu Suðurnesja hf. við stofnun þess skiptast á eigendur í þeim hlutföllum er um getur í 2. gr.

8. gr.

     Hitaveita Suðurnesja hf. tekur við einkarétti Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar til starfrækslu hita- og/eða rafveitu.
     Iðnaðarráðherra veitir Hitaveitu Suðurnesja hf. einkaleyfi til starfrækslu hita- og rafveitu innan sveitarfélaga, sem aðild eiga að fyrirtækinu, eftir því sem um semst við einstök sveitarfélög og ríkissjóð um yfirtöku á veitukerfi þeirra.
     Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Hitaveitu Suðurnesja hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

9. gr.

     Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf. skal skipuð a.m.k. fimm aðalmönnum og fimm til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
     Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf.

10. gr.

     Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða.
     Gjaldskrá öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

11. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.
     Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

12. gr.

     Stofna skal hlutafélagið Hitaveitu Suðurnesja á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2001.
     Allur kostnaður Hitaveitu Suðurnesja hf. af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Hitaveitu Suðurnesja greiðist af félaginu.

13. gr.

     Hitaveita Suðurnesja hf. skal taka til starfa eigi síðar en 1. júlí 2001 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar. Hitaveita Suðurnesja og Rafveita Hafnarfjarðar skulu lagðar niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækjanna.

14. gr.

     Um skyldu Hitaveitu Suðurnesja hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu sveitarfélaga er slíkan rekstur hafa með höndum. Hitaveita Suðurnesja hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 100/1974, um Hitaveitu Suðurnesja, með áorðnum breytingum, falla úr gildi þegar Hitaveita Suðurnesja hf. tekur til starfa, sbr. ákvæði 13. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Sameignarfélagar Hitaveitu Suðurnesja og eigandi Rafveitu Hafnarfjarðar bera áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Rafveitu Hafnarfjarðar hins vegar sem stofnast hafa fyrir samruna fyrirtækjanna og áður en hlutafélag er stofnað um reksturinn. Innbyrðis skiptist ábyrgð sameigenda Hitaveitu Suðurnesja samkvæmt eignarhlutföllum svo sem þau voru fyrir samruna Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar.

II.
     Á stofnfundi skal kjósa stjórn félagsins og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar, en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.

III.
     Rekstrarlega séð skal yfirtaka Hitaveitu Suðurnesja hf. á Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar miðuð við 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2001.