Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1110, 126. löggjafarþing 314. mál: barnalög (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum).
Lög nr. 18 7. maí 2001.

Lög um breyting á barnalögum, nr. 20 22. maí 1992.


1. gr.

     Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, 37. gr. A, sem hljóðar svo:
     Sýslumaður skal bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf til lausnar máli. Tilgangur ráðgjafar er að aðstoða aðila við að finna lausn máls með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sýslumaður skal einnig bjóða barni, sem náð hefur tólf ára aldri, ráðgjöf og getur einnig boðið yngra barni ráðgjöf ef hann telur það þjóna hagsmunum þess.
     Sýslumaður getur látið hjá líða að bjóða sérfræðiráðgjöf skv. 1. mgr. ef hann telur hana ónauðsynlega eða þýðingarlausa.
     Þeim sem veitir ráðgjöf skv. 1. mgr. er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ráðgjöf skv. 1. mgr., svo og um tilhögun þjónustusamninga við þá sem annast slíka ráðgjöf.

2. gr.

     1. málsl. 38. gr. laganna hljóðar svo: Nú tálmar aðili, sem hefur forsjá barns, þeim sem á umgengnisrétt samkvæmt úrskurði að njóta umgengni við barnið og getur sýslumaður þá að kröfu þess sem meinuð er umgengnin skyldað þann sem með forsjá barnsins fer til að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum að fjárhæð allt að 5.000 kr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2001.

Samþykkt á Alþingi 24. apríl 2001.