Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1279, 126. löggjafarþing 554. mál: Norðurlandasamningur um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði (skilnaðarmál o.fl.).
Lög nr. 39 19. maí 2001.

Lög um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.


1. gr.

     Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulag, sem undirritað var í Stokkhólmi 6. febrúar 2001 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og prentað er sem fylgiskjal með lögum þessum, um breytingar á samningi sömu ríkja frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem staðfestur var með lögum nr. 29 8. september 1931.

2. gr.

     Þegar samkomulag það sem um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þess hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal

Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931.
     
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:
I.
     Á samningnum milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, sem undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sbr. breytingar þær er fram koma í samkomulagi um breytingar á samningnum, sem undirritað var í Ósló 25. febrúar 2000, sem enn hafa ekki öðlast gildi, eru gerðar eftirfarandi breytingar:
     
      7. gr. hljóði svo:
     Krafa um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað hjóna sem eru ríkisborgarar í og eiga heimilisfang í samningsríki skal ákvarðast í því ríki þar sem:
 1. hjónin eiga heimilisfang,
 2. hjónin áttu síðast samtímis heimilisfang og annað þeirra býr ennþá,
 3. hjónin eru ríkisborgarar,
 4. það hjónanna sem kröfunni er beint gegn á heimilisfang,
 5. annað hvort hjónanna á heimilisfang ef um sameiginlega kröfu er að ræða,
 6. það hjónanna sem leggur kröfuna fram á heimilisfang og hefur búið a.m.k. síðasta árið áður en krafan er borin fram, eða
 7. það hjónanna sem leggur kröfuna fram er ríkisborgari og á heimilisfang ef viðkomandi hefur búið þar a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en krafan er lögð fram.

     Einnig má ákvarða kröfu um lögskilnað á grundvelli skilnaðar að borði og sæng í því ríki þar sem skilnaður að borði og sæng var veittur.
     
      8. gr. hljóði svo:
     Í sambandi við kröfu um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað getur sama eða annað yfirvald einnig tekið ákvörðun um sambúðarslit um stundarsakir og um búskipti. Það getur enn fremur tekið ákvörðun um forsjá, búsetu barns og umgengni við barn að því tilskildu:
 1. að hjónin eigi barnið saman, og
 2. að barnið eigi heimilisfang í því ríki þar sem krafan um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað er til meðferðar.

     Eigi barnið ekki heimilisfang í því ríki þar sem krafan um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað er til meðferðar má samt sem áður taka þar ákvörðun um forsjá, búsetu barns og umgengni við barn ef:
 1. barnið á heimilisfang í samningsríki,
 2. hjónin eiga barnið saman og a.m.k. annað þeirra hefur forsjá þess,
 3. hjónin hafa samþykkt að úrskurðað verði í málinu í því ríki þar sem fjallað er um kröfuna um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað, og
 4. það er barninu fyrir bestu að með málið sé farið í því ríki.

     Í málum um forsjá, búsetu barns og umgengni við barn skal beita heimildinni skv. 1. og 2. mgr. í samræmi við Haagsamninginn frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Sérstaklega skal tekið tillit til 3. og 16. gr. samningsins.
     
      Ný 8. gr. a hljóði svo:
     Ef mál sem 7. eða 8. gr. tekur til, milli sömu aðila, er borið undir þar til bært yfirvald í fleiri en einu samningsríkjanna skal það yfirvald sem málið var síðar borið undir vísa málinu frá af sjálfsdáðum og láta hinu yfirvaldinu eftir að taka ákvörðun í málinu.
     Við beitingu 1. mgr. telst skilnaður að borði og sæng og lögskilnaður vera sama málið.
     
      9. gr. hljóði svo:
     Við meðferð mála sem 7. og 8. gr. taka til skal beita gildandi lögum í viðkomandi samningsríki. Þó skal ávallt taka ákvarðanir í málum sem snerta búskipti samkvæmt þeim lögum sem eiga við um fjármál hjónanna skv. 3. gr.
     Skilnaður að borði og sæng sem fengist hefur í einu ríkjanna veitir sama rétt til lögskilnaðar í hinum ríkjunum og skilnaður að borði og sæng er þar hefur fengist.
     Í samningsríki þar sem ekki eru í lögum ákvæði um skilnað að borði og sæng en í vissum tilvikum byggt á að umhugsunarfrestur sé undanfari lögskilnaðar eiga hjón, sem veittur hefur verið skilnaður að borði og sæng í öðru samningsríki og hafa síðan búið hvort í sínu lagi svo lengi sem svarar umhugsunarfrestinum og ekki tekið upp sambúð að nýju, rétt á að fá lögskilnað án undanfarandi umhugsunarfrests.
     
      22. gr. hljóði svo:
     Ákvörðun stjórnvalds eða aðfararhæfur dómsúrskurður sem gengið hefur í einu samningsríkjanna skv. 5., 7., 8., 11., 13., 14., 15., 19. eða 21. gr. skal gilda í hinum ríkjunum án sérstakrar staðfestingar og án rannsóknar á því hvort ákvörðunin sé rétt eða tekin af þar til bæru yfirvaldi. Þetta á einnig við um aðfararhæfan dómsúrskurð sem gengið hefur í einu ríkjanna og kveður á um ógildi eða ógildingu hjúskapar milli ríkisborgara í samningsríki.
II.
     Að því er varðar beitingu samkomulagsins í Færeyjum og á Grænlandi getur danska dómsmálaráðuneytið, að undangengnum samningaviðræðum við dómsmálaráðuneyti hinna samningsríkjanna, ákveðið þau frávik sem sérstakar færeyskar eða grænlenskar aðstæður krefjast.
III.
     Samningsríkin geta gerst aðilar að samkomulagi þessu með

      a)    undirritun án fyrirvara um fullgildingu, eða

      b)    undirritun með fyrirvara um fullgildingu, ásamt eftirfarandi fullgildingu.

     Fullgildingarskjölunum skal komið í vörslu hjá sænska utanríkisráðuneytinu.
     Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar er hefst tveimur mánuðum eftir að öll samningsríkin hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjalanna til vörslu og hvenær samkomulagið öðlast gildi.
IV.
     Þar til samkomulag þetta öðlast gildi getur hvert samningsríkjanna, í tengslum við aðild sína að samkomulaginu eða síðar, gefið yfirlýsingu um að samkomulagið skuli gilda milli þess ríkis og annarra samningsríkja sem hafa gefið slíka yfirlýsingu. Yfirlýsingin öðlast gildi fjórtán dögum eftir að hún er móttekin til vörslu í sænska utanríkisráðuneytinu.
V.
     Frumrit þessa samkomulags skal varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur hverju samningsríki í té staðfest endurrit.
     Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar, sem hafa fullt umboð, undirritað samkomulag þetta.
     Gjört í Stokkhólmi hinn 6. febrúar 2001 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og að því er sænskuna varðar í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð, og eru allir textarnir jafngildir.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2001.