Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1494, 126. löggjafarþing 484. mál: réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga (réttur til starfsheitis o.fl.).
Lög nr. 41 30. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga, hagfræðinga eða nota heiti sem felur í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur hafa þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi viðskiptaráðherra. Þeir sem lokið hafa BS- eða cand. oecon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensks háskóla eða meistaranámi úr framangreindum deildum, sbr. lög nr. 136/1997, um háskóla, þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra.

2. gr.

     3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Áður en leyfi er veitt skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar skal leita álits þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar á eftirfarandi hátt: Einn nefndarmaður samkvæmt tilnefningu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og tveir samkvæmt tilnefningu ráðherra og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Umboð nefndar sem menntamálaráðherra hefur skipað skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 27/1981, frá 1. október 2000 til 1. október 2001, fellur niður við gildistöku laga þessara. Frá sama tíma skal viðskiptaráðherra skipa í nefnd skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 27/1981.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.