Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1505, 126. löggjafarþing 742. mál: tekjuskattur og eignarskattur (stofnverð hlutabréfa í sparisjóði).
Lög nr. 60 26. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, skal skattskyldur söluhagnaður þeirra bréfa sem stofnfjáreigandi fékk í skiptum fyrir stofnbréf sín vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins endurmetið til ársloka 1996, skv. 23. gr. laga nr. 113/1996, að viðbættu innborguðu stofnfé frá þeim tíma þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa sem rekstraraðili hefur fengið afhent sem stofnfjáreigandi skal þó ákvarðað sem kaupverð samkvæmt framangreindu þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. þessara laga, frá árslokum 1996 til söluárs, enda hafi hlutabréfin verið eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði sem sjálfseignarstofnun hefur eignast samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996 ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins í árslok 1996 að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.