Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1359, 126. löggjafarþing 684. mál: Lífeyrissjóður bænda (iðgjald).
Lög nr. 66 26. maí 2001.

Lög um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999.


1. gr.

     3. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Iðgjaldsstofn bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri, skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01, jarðrækt og garðyrkju, þ.m.t. ylrækt og búfjárrækt, og 02, skógrækt, í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra sem reikna sér ekki laun en þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila sem rekur bú, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa til þeirra vegna búrekstrar, sbr. 3. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal vera 50% hærra en iðgjald skv. 1. málsl. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
     Greiðsla iðgjalds og mótframlags skv. 2. mgr. skal fara fram mánaðarlega og skulu gjalddagar vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir launatímabil og eindagi 30 dögum síðar. Stofn til innheimtu á mánaðarlegu iðgjaldi bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri og reikna sér laun, skal miða við reiknað endurgjald í hverjum mánuði eins og það er ákveðið skv. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. málsl. 6. mgr. Liggi ekki fyrir upplýsingar um reiknað endurgjald yfirstandandi árs skal miðað við laun næstliðins tekjuárs. Einkahlutafélög og aðrir lögaðilar sem reka bú, sbr. 3. málsl. 1. mgr., skulu standa skil á iðgjaldi fyrir alla menn sem að búrekstrinum starfa, sbr. 1. mgr. Greiðandi skal sundurliða iðgjöld eftir sjóðfélögum.
     Sjóðurinn annast innheimtu iðgjalda. Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal, þrátt fyrir 1. málsl. 3. mgr., halda eftir af þeim iðgjaldi þeirra sjóðfélaga sem beingreiðslna njóta fyrir næstliðinn mánuð og skila því til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að það er greitt og skal það sundurliðað eftir sjóðfélögum og tímabilum.
     Sé iðgjald ekki greitt á eindaga eða sé það vangreitt skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga til greiðsludags.
     Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í ljós að iðgjald bónda hefur verið vangreitt eða ofgreitt skal sjóðstjórn innheimta vangreidd iðgjöld eða úrskurða um bakfærslu og endurgreiðslu ofgreiddra iðgjalda. Iðgjald sem flutt hefur verið í annan lífeyrissjóð, lán verið veitt út á eða lífeyrir verið úrskurðaður og greiddur út á skal hvorki endurgreitt né réttindi sem af því leiða bakfærð. Sjóðfélagi getur enn fremur óskað eftir því að iðgjaldsstofn hans sé reiknað endurgjald í staðgreiðslu sé það hærra en reiknuð laun hans, sbr. 1. málsl. 1. mgr., samkvæmt álagningu að liðnu tekjuári. Vextir skulu reiknaðir á endurgreiðslu iðgjalda samkvæmt vaxtalögum, nr. 25/1987.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda vegna iðgjaldsákvörðunar á tekjur frá og með 1. janúar 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr., sbr. 4. mgr. 1. gr., skulu iðgjöld vegna 1. janúar 2001 til gildistöku laganna falla í gjalddaga með iðgjöldum þess greiðslutímabils sem næst fer á eftir gildistöku laganna.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu ákvæði 6. mgr. 1. gr. koma til framkvæmda vegna iðgjalda af tekjum ársins 2000.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 2001.