Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 712, 127. löggjafarþing 425. mál: stjórn fiskveiða (handfæraveiðar með dagatakmörkunum).
Lög nr. 3 31. janúar 2002.

Lög um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Bátar sem fá leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum skulu frá og með 1. september 2001 stunda veiðar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. apríl til 31. október ár hvert. Þeim er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til veiða á botndýrum og háffiskum með sérhæfðum veiðarfærum og til hrognkelsaveiða í net.
     Sameiginlegur viðmiðunarþorskafli báta sem stunda veiðar samkvæmt þessari grein skal á hverju fiskveiðiári vera 0,67% af leyfilegum heildarafla í þorski, að teknu tilliti til þeirrar aukningar sem leiðir af 5. mgr. a-liðar 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001. Leyfilegir sóknardagar í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002 skulu vera 23. Fjöldi leyfilegra sóknardaga á fiskveiðiárunum þar á eftir skal ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár á grundvelli hlutfalls milli viðmiðunarþorskafla skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar og raunafla sóknardagabáta í þorski á næstliðnu fiskveiðiári og skal sóknardögum fækka eða fjölga í sama hlutfalli. Sóknardögum hvers báts skal fækka eða fjölga um heila daga og sleppa broti. Sóknardögum skal þó aldrei fækka um meira en 10% milli fiskveiðiára.
     Sókn hvers báts skal reiknuð í heilum klukkustundum frá því að bátur lætur úr höfn til þess tíma er bátur kemur til hafnar. Hver hafin klukkustund telst heil klukkustund í þessu sambandi. Fiskistofa skal í eftirlitsskyni hafa aðgang að sjálfvirku tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög nr. 40 13. maí 1977, um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, með síðari breytingum, en ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar samkvæmt lokamálslið 1. mgr. séu utan sóknardaga.
     Heimilt er að flytja sóknardaga innan hvers fiskveiðiárs eða varanlega milli báta sem hafa leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Sé sá bátur sem sóknardagar eru fluttir til stærri, í brúttótonnum talið, en sá sem sóknardagar eru fluttir frá skal skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna og sleppa broti. Á sama hátt skal skerða sóknardagafjölda báts sem er stækkaður. Óheimilt er að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti, umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts, en nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998. Í því sambandi skal miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu fiskveiðiáranna. Séu sóknardagar fluttir frá báti skulu þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn vera mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt er að flytja frá bátnum og þeirra sem fluttir hafa verið, að teknu tilliti til sóknardaga sem fluttir hafa verið til bátsins. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning sóknardaga milli báta og öðlast flutningurinn ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann. Ráðherra setur nánari reglur um flutning sóknardaga vegna endurnýjunar eigin báts.
     Óheimilt er að veita bátum 6 brúttótonn eða stærri, sem ekki hafa haft leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, leyfi til að stunda veiðar samkvæmt þessari grein. Þá er óheimilt að stækka bát sem hefur leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. janúar 2002.