Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1137, 127. löggjafarþing 347. mál: bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur (reikningshald í erlendum gjaldmiðli).
Lög nr. 25 8. apríl 2002.

Lög um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

1. gr.

     7. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. A, svohljóðandi:
     Bókhaldsbækur skulu vera til staðar hér á landi. Skal texti þeirra vera á íslensku og fjárhæðir í íslenskum krónum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög, skv. 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, fengið heimild til að færa fjárhæðir í bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja ársreikning í þeim gjaldmiðli, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um ársreikninga. Texti í bókhaldsbókunum skal vera á íslensku, dönsku eða ensku.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félögum, sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 1. mgr. 11. gr. A laga um ársreikninga, heimilt að varðveita gögn skv. 1. mgr. erlendis í allt að sex mánuði. Yfirvöld geta þó krafist aðgangs að þeim hér á landi og skal þeim þá skilað innan hæfilegs tíma. Bókhaldsgögn, sem eru á rafrænu formi, skulu ætíð vera aðgengileg yfirvöldum.
  3. 2. mgr. sem verður 3. mgr. orðast svo:
  4.      Ef tölvubúnaði, sem nauðsynlegur er til að kalla fram bókhaldsgögn, er breytt eða fargað ber að yfirfæra bókhaldsgögnin á nýjan tölvutækan miðil þannig að áfram verði unnt að kalla þau fram.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.

4. gr.

     Á eftir 1. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög, sbr. 1. mgr. 1. gr., fengið heimild til að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja og birta ársreikning í þeim gjaldmiðli. Birti félag ársreikning sinn jafnframt í íslenskum krónum skal í skýringum geta um hvaða aðferðum er beitt við samningu ársreikningsins. Texti ársreiknings hjá félagi sem heimild hefur til færslu bókhalds og gerð ársreikninga í erlendum gjaldmiðli skal vera á íslensku, dönsku eða ensku.

5. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (11. gr. A.)
     Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Félög sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna skilyrða geta sótt um slíka heimild:
  1. Félög sem eru með meginstarfsemi sína erlendis eða eru hluti erlendrar félagasamstæðu þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en íslensk króna.
  2. Félög sem eiga erlend dótturfélög eða hlutdeild í erlendum félögum og meginviðskipti eru við þessi félög.
  3. Félög sem hafa meginstarfsemi sína hér á landi en eru með verulegan hluta viðskipta í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum, enda teljist hann vera starfrækslugjaldmiðill samkvæmt góðri reikningsskilavenju.
  4. Félög sem hafa verulegan hluta fjárfestinga sinna og skulda þeim tengdra skráðan í erlendum gjaldmiðlum, enda fari þau fram úr þeim stærðarmörkum sem tilgreind eru í 1. mgr. 6. gr.

     Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem meginhluti viðskipta félags eða félagasamstæðu fer fram í. Starfrækslugjaldmiðill skal vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi.
     Ráðherra getur sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu heimildar samkvæmt þessari grein.
     
     b. (11. gr. B.)
     Umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skal berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs.
     Félag sem fengið hefur heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skv. 2. mgr. 11. gr. skal viðhalda þeirri aðferð í að minnsta kosti fimm ár nema það uppfylli ekki lengur skilyrði 11. gr. A.
     Telji félag sig ekki lengur uppfylla skilyrði 11. gr. A ber því að tilkynna ársreikningaskrá um það. Að fenginni heimild ársreikningaskrár skal það færa bókhald sitt og semja ársreikning í íslenskum krónum miðað við næsta reikningsár.
     Ársreikningaskrá skal hafa eftirlit með því að félög sem fengið hafa heimild skv. 1. mgr. uppfylli skilyrði 11. gr. A, sbr. 78. gr.
     Uppfylli félag ekki skilyrði 11. gr. A skal ársreikningaskrá afturkalla heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli við upphaf næsta reikningsárs. Ársreikningaskrá getur veitt félagi frest í tvö reikningsár telji hún ástandið tímabundið.

6. gr.

     90. gr. laganna orðast svo:
     Félög sem fengið hafa heimild til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 11. gr. A, skulu umreikna fjárhæðir í efnahagsreikningi fyrra árs á lokagengi þess árs. Þó er heimilt að umreikna efnahagsliði, aðra en peningalegar eignir og skuldir, svo sem varanlega rekstrarfjármuni og eignarhluti, á upphaflegu kaupgengi. Jafnframt er heimilt að umreikna innborgað hlutafé eða stofnfé á því gengi sem gilti þegar innborganir fóru fram. Við umreikninginn skal lögbundinn varasjóður nema sama hlutfalli af hlutafé í erlendum gjaldmiðli og hann nam í íslenskum krónum. Hinar umreiknuðu fjárhæðir mynda upphafsstærðir í bókhaldi í erlendum gjaldmiðli og skal gera grein fyrir umreikningsaðferðum í skýringum við ársreikning.

7. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Félög, sem óska eftir að færa bókhald og semja ársreikning vegna reikningsársins 2002 í erlendum gjaldmiðli, hafa frest til 30. apríl 2002 til að sækja um slíka heimild.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

8. gr.

     Á eftir 91. gr. laganna kemur ný grein, 91. gr. A, svohljóðandi:
     Skýrslu lögaðila sem heimild hafa til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 11. gr. A laga um ársreikninga, skal fylgja undirritaður ársreikningur í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð, sbr. 1. mgr. 91. gr., um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skulu fjárhæðir vera í íslenskum krónum.
     Fjárhæðir í greinargerð skv. 1. mgr. skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á eftirfarandi hátt:
  1. Tekjur og gjöld á árinu, þ.m.t. fyrningar, skulu umreiknuð í íslenskar krónur á meðalgengi reikningsársins.
  2. Eignir, skuldir og eigið fé skal umreiknað í íslenskar krónur á gengi í lok viðkomandi reikningsárs.
  3. Gengismunur sem kann að myndast við umreikning ársreiknings úr erlendum gjaldmiðli í íslenskar krónur skv. a- og b-liðum skal ekki hafa áhrif á tekjur í rekstrarreikningi.

     Við umreikning í starfrækslugjaldmiðil skal umreikna fyrningargrunn eigna og fengnar fyrningar, stofnverð ófyrnanlegra eigna og eigna sem ekki hafa verið teknar í notkun á lokagengi þess reikningsárs og skal skattalegt stofnverð ákvarðast í samræmi við þann umreikning. Við sölu á eignarhlutum í félögum sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996 skal stofnverð ákvarðast í samræmi við ákvæði 2. málsl. 4. mgr. 17. gr. eða 3. mgr. 18. gr. eftir því sem við á í íslenskum krónum en söluverðið skal umreikna í íslenskar krónur á daggengi við sölu. Við sölu eignarhluta í félögum sem seljandi hefur eignast eftir 1996 skal stofnverð þeirra ákvarðað í íslenskum krónum miðað við daggengi við kaup en söluverð skal umreiknað miðað við daggengi við sölu. Fasteignir skal telja til eignar skv. 1. tölul. 1. mgr. 74. gr. og eignarhlutir í félögum skulu færðir til eignar skv. 5. tölul. 1. mgr. 74. gr. Hlutafé félags, sbr. 77. gr., skal fært á nafnverði í íslenskum krónum. Þegar frestaður hluti söluhagnaðar er skattlagður skal fjárhæð hans færð til tekna óbreytt í krónum talið frá því ári sem hann myndaðist. Rekstrartap frá fyrri árum skv. 8. tölul. 31. gr. skal fært til frádráttar rekstrarhagnaði ársins óbreytt í krónum talið frá því sem fram kemur í greinargerðum skv. 1. mgr. á þeim rekstrarárum er tapið myndaðist. Um skattskil lögaðila, sem byggð eru á bókhaldi og ársreikningi í erlendum gjaldmiðli, gilda að öðru leyti sömu reglur og gilda um skattskil lögaðila í íslenskum krónum.
     Heimilt er lögaðila, sem færir bókhald sitt í íslenskum krónum auk bókhalds í starfrækslugjaldmiðli, að byggja greinargerð sína skv. 1. mgr. á bókhaldi í íslenskum krónum, en þá skal viðhalda þeirri aðferð í að minnsta kosti fimm ár.

9. gr.

     Við 92. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skýrslur félaga sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 11. gr. A laga um ársreikninga skulu byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum eða umreiknuðum á daggengi.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda frá 1. janúar 2002.

Samþykkt á Alþingi 5. apríl 2002.