Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1154, 127. löggjafarþing 503. mál: virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal.
Lög nr. 38 16. apríl 2002.

Lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.


1. gr.

     Landsvirkjun er heimilt að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal með allt að 750 MW afli ásamt aðalorkuveitum og virkja til þess vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal í tveimur áföngum (Kárahnjúkavirkjun).
     Í fyrri áfanga er Landsvirkjun heimilt að reisa þrjár stíflur við Fremri-Kárahnjúka (Kárahnjúkastíflu, Desjarárstíflu og Sauðárdalsstíflu), veita Jökulsá á Brú frá miðlunarlóni (Hálslóni) um aðrennslisgöng undir Fljótsdalsheiði að stöðvarhúsi, reisa stöðvarhús neðan jarðar í Fljótsdal með frárennsli eftir göngum og skurði út í farveg Jökulsár í Fjótsdal, í samræmi við uppdrátt í viðauka, svo og að reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar.
     Í síðari áfanga er Landsvirkjun heimilt að reisa stíflu í farvegi Jökulsár í Fljótsdal (Ufsarstíflu), veita ánni ásamt vatni af Hraunum inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar á Fljótsdalsheiði í samræmi við uppdrátt í viðauka og reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar.
     Leyfið fellur úr gildi 10 árum eftir gildistöku laga þessara ef leyfishafi hefur þá ekki hafið framkvæmdir og 15 árum eftir gildistöku laganna ef virkjunin er þá ekki komin í rekstur.

2. gr.

     Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 MW ásamt aðalorkuveitum, enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun:
  1. Í stað orðanna „60 MW“ kemur: 220 MW.
  2. Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Landsvirkjun reisir og rekur Kárahnjúkavirkjun með allt að 750 MW afli.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Viðauki.
Kárahnjúkavirkjun

Samþykkt á Alþingi 8. apríl 2002.