Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1189, 127. löggjafarþing 493. mál: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (lögreglumenn).
Lög nr. 41 18. apríl 2002.

Lög um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


1. gr.

     Við lögin bætast tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (39. gr.)
     Lögreglumanni, sem leystur er frá embætti sínu þegar hann er fullra 65 ára, skal reiknaður ellilífeyrir skv. 15. eða 24. gr. eftir því sem við á hverju sinni en þó þannig að lífeyrir skal reiknaður eins og hann hefði starfað til 70 ára aldurs.
     Við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í A-deild samkvæmt þessari grein skal miðað við meðalstigaávinning vegna lögreglustarfa síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris. Á sama hátt skal við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í B-deild samkvæmt þessari grein miða við meðalstarfshlutfall síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris.
     Ákvæði 4. mgr. 15. gr. um hækkun lífeyris sjóðfélaga A-deildar vegna frestunar á töku lífeyris tekur ekki til þeirra sem taka lífeyri skv. 1. mgr.
     Ákvæði 25. gr. um rétt vaktavinnufólks til viðbótarlífeyris falla ekki undir útreikning viðbótarréttinda skv. 1. mgr.
     
     b. (40. gr.)
     Við upphaf lífeyristöku lögreglumanns sem fær reiknuð réttindi skv. 39. gr. skal reikna út kostnað vegna aukinna lífeyrisréttinda samkvæmt ákvæðum greinarinnar og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð. Útreikningur þessara réttinda skal byggður á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins. Með greiðslunni hefur ríkissjóður einnig gert að fullu upp skuldbindingar vegna lífeyrishækkana skv. 33. gr. vegna þeirra viðbótarréttinda sem reiknuð eru skv. 39. gr.

2. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Lagaskil og sérákvæði.

3. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þeim lögreglumönnum, sem þegar eru orðnir fullra 65 ára við gildistöku laganna en eru ekki enn orðnir 70 ára og hafa ekki fengið lausn frá embætti, skal reiknaður lífeyrir skv. 39. gr., enda hafi þeim verið veitt lausn frá embætti fyrir 1. maí 2003.
     Ákvæði 39. gr. tekur einnig til þeirra lögreglumanna sem eru orðnir fullra 65 ára og hafa látið af embætti eftir 13. júlí 2001 og hafið töku lífeyris í framhaldi af því.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. apríl 2002.