Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1190, 127. löggjafarþing 594. mál: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (viðmiðunarlaun, réttur barna og maka o.fl.).
Lög nr. 43 18. apríl 2002.

Lög um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


1. gr.

     2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Falli iðgjaldagreiðslur til B-deildar sjóðsins niður af öðrum ástæðum en segir í 1. mgr., t.d. vegna þess að viðkomandi sjóðfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf, hefur sjóðfélagi áfram rétt til aðildar að B-deildinni, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni eigi síðar en tólf mánuðum frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla hins vegar niður lengur en tólf mánuði, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins.

2. gr.

     6. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
     Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað er við til greiðslu lífeyris og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

3. gr.

     Við 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna bætist: sbr. þó 6. mgr. 23. gr.

4. gr.

     Við 1. mgr. 27. gr. laganna bætist: eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið.

5. gr.

     1. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
     Börn eða kjörbörn sem sjóðfélagi lætur eftir sig er hann andast og yngri eru en 18 ára skulu fá lífeyri úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið þar til þau eru fullra 18 ára að aldri. Sama gildir um börn eða kjörbörn sem sá maður lætur eftir sig er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.

6. gr.

     Við 35. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi skv. 1. mgr. og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 6. mgr. 23. gr. laganna, skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. apríl 2002.