Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1441, 127. löggjafarþing 649. mál: Tækniháskóli Íslands.
Lög nr. 53 8. maí 2002.

Lög um Tækniháskóla Íslands.


I. KAFLI
Hlutverk.

1. gr.

     Tækniháskóli Íslands er menntastofnun á háskólastigi. Háskólinn veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu þar sem æðri menntunar er krafist. Tækniháskóli Íslands leggur áherslu á að veita menntun á tæknisviðum. Háskólanum er heimilt að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum, auk þess að veita símenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

II. KAFLI
Kennarar og nemendur.

2. gr.

     Kennarar við Tækniháskóla Íslands eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
     Háskólaráð setur nánari reglur um starfsheiti og starfsskyldur kennara.

3. gr.

     Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
     Þeir sem ráðnir eru í starf prófessors, dósents eða lektors skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar.
     Rektor skipar þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina og er annar þeirra formaður. Annar fulltrúa háskólaráðs skal starfa utan háskólans. Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
     Að ábendingu viðkomandi deildar skal rektor hverju sinni tilnefna sérfræðing til ráðgjafar fyrir dómnefnd um mat á fræðistörfum umsækjenda.
     Dómnefnd skal gefa rökstutt álit um hvort ráða megi af námsferli umsækjanda og störfum að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni má veita starf prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
     Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að ákvæði 3. mgr. gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við háskólann.
     Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna.

4. gr.

     Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deilda, staðfesta reglur um skráningu nemenda í einstakar deildir þar sem nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild. Þeir einir teljast nemendur við Tækniháskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms samkvæmt þeim reglum.
     Við skrásetningu til náms greiðir nemandi skrásetningargjald, allt að 32.500 kr. Háskólaráð tekur ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalda. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.

5. gr.

     Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans nema annað sé ótvírætt tekið fram í lögum. Í háskólaráði eiga sæti:
  1. Rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess.
  2. Tveir fulltrúar kennara sem ráðnir eru ótímabundið við háskólann og tveir til vara, kosnir á almennum fundi þeirra til tveggja ára í senn.
  3. Einn fulltrúi nemenda og einn til vara kosnir til tveggja ára í senn samkvæmt reglum nemendafélags skólans.
  4. Tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra og tveir til vara til tveggja ára í senn.

     Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa ótímabundið ráðinna kennara.

6. gr.

     Rektor boðar til fundar í háskólaráði eftir þörfum. Óski tveir háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
     Háskólaráðsfundur er ályktunarhæfur ef helmingur atkvæðisbærra manna sækir fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess sem gegnir forsetastörfum.
     Varamenn skulu sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalmanna.

7. gr.

     Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors.
     Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans. Hann hefur almennt eftirlit með allri starfsemi háskólans. Á milli funda háskólaráðs fer rektor í umboði þess með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum háskólans.

8. gr.

     Háskólaráð ákvarðar deildaskipan háskólans. Háskólaráð setur deildum starfsreglur og hvert skuli vera verksvið, vald og ábyrgð hverrar stjórnunareiningar innan háskólans. Háskólaráð setur reglur um yfirstjórn deilda og um val á deildarforsetum.

IV. KAFLI
Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög o.fl.

9. gr.

     Fyrir hverja deild háskólans og skilgreindar námsbrautir innan hennar skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar á meðal starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við.
     Á grundvelli námskrár skal árlega gefa út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varða skipulag náms.
     Háskólaráð samþykkir námskrá og kennsluskrá en deildir bera ábyrgð á gerð þeirra.

10. gr.

     Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endurtekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólakennarar standa fyrir prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.
     Nemandi á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Rektor skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar.

11. gr.

     Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum nemendum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemanda sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms ef aðstæður hafa breyst. Nemanda er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

V. KAFLI
Rannsóknir og gjaldtaka fyrir þjónustu.

12. gr.

     Tækniháskóla Íslands er heimilt að starfrækja rannsóknastofnun, á eigin vegum eða í samvinnu við aðra, sem sinnir hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum í þágu atvinnulífsins. Kennarar háskólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
     Rannsóknastofnunin skal eftir því sem aðstæður leyfa veita nemendum háskólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
     Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rannsóknastofnunarinnar, um skipan stjórnar og gjaldtöku fyrir þjónustu sem stofnunin veitir.
     Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknasjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá.

13. gr.

     Tækniháskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir símenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um slík þjónustugjöld.
     Háskólaráði er heimilt að semja við félög nemenda, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir Tækniháskóla Íslands, enda sé farið að ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

14. gr.

     Tækniháskólanum er heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Háskólaráð setur nánari reglur um stöðu þeirra starfsmanna innan háskólans sem þannig eru ráðnir til starfa.

VI. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.

15. gr.

     Við gildistöku laga þessara renna eignir Tækniskóla Íslands til Tækniháskóla Íslands og um leið tekur Tækniháskóli Íslands við skuldbindingum sem gerðar hafa verið í nafni Tækniskóla Íslands.

16. gr.

     Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

17. gr.

     Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli laga þessara skulu birtar í Stjórnartíðindum.

18. gr.

     Lög þessi eru sett með hliðsjón af lögum um háskóla, nr. 136/1997, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 18. gr. gildir eftirfarandi:
     Tækniskóli Íslands skal starfa áfram fram að brautskráningu nemenda 1. júní 2002 í samræmi við lög nr. 66/1972, með síðari breytingum.
     Um þá sem við gildistöku laga þessara eru starfsmenn eða nemendur í Tækniskóla Íslands gildir eftirfarandi:
  1. Nemendur sem við gildistöku laga þessara stunda nám í Tækniskóla Íslands eiga rétt á að ljúka námi frá Tækniháskóla Íslands samkvæmt gildandi námsskipulagi Tækniskóla Íslands.
  2. Embætti rektors Tækniskóla Íslands er lagt niður 3. júní 2002. Þó skal sá sem gegnir því embætti við gildistöku laga þessara eiga rétt til starfa við Tækniháskóla Íslands skv. d- og e-lið.
  3. Eftir gildistöku laga þessara skipar menntamálaráðherra háskólaráð til 1. júní 2003. Hlutverk ráðsins er að tryggja yfirfærslu starfsemi Tækniskóla Íslands til Tækniháskóla Íslands og framkvæmd laga þessara að öðru leyti, þar með talið að ganga frá tilnefningu rektors, sem ráðherra skal skipa skv. 7. gr. eigi síðar en 1. júlí 2002. Staða rektors skal auglýst eins og lög þessi gera ráð fyrir. Háskólaráð skal meta hæfni umsækjenda um stöðu rektors og taka ákvörðun um þann sem tilnefndur verður með meiri hluta greiddra atkvæða í kosningu innan ráðsins. Almennur fundur kennara sem ráðnir eru ótímabundið við Tækniskóla Íslands tilnefnir tvo fulltrúa í háskólaráð og tvo til vara. Nemendafélag Tækniskóla Íslands tilnefnir einn fulltrúa í ráðið og einn til vara. Menntamálaráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar, þar af einn sem gegnir störfum forseta ráðsins þar til rektor hefur verið skipaður. Eftir að rektor hefur verið skipaður skal fulltrúum sem skipaðir eru í háskólaráð án tilnefningar fækka um einn. Varaforseti ráðsins skal valinn úr hópi háskólaráðsfulltrúa ótímabundið ráðinna kennara.
  4. Skipaðir og ótímabundið ráðnir kennarar við Tækniskóla Íslands sem uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla eru starfsmenn Tækniháskóla Íslands frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um þá starfsmenn sem gegna öðrum störfum en talin eru upp í e-lið.
  5. Störf skipaðra og ótímabundið ráðinna kennara við Tækniskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla skulu lögð niður frá og með 1. ágúst 2002. Þó er heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 2005. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfanna nýtt teljast starfsmenn samkvæmt þessum lið vera starfsmenn Tækniháskóla Íslands frá og með 1. ágúst 2002, en störf þeirra verða þá lögð niður í síðasta lagi 31. júlí 2005 fullnægi þeir ekki hæfisskilyrði laga um háskóla á þeim tíma.


Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2002.