Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1458, 127. löggjafarþing 630. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (gróðurhúsaafurðir og garðávextir).
Lög nr. 84 15. maí 2002.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
     Garðyrkjubýli, gróðrarstöð og garðyrkjustöð merkir í lögum þessum lögaðila eða býli, með virðisaukaskattsskylda veltu, sem framleiðir grænmeti (útirækt/ylrækt), skrautjurtir, garðplöntur eða tré og runna.

2. gr.

     Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða 2002–2011, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina og millivísanir samkvæmt því:
     
     a. (50. gr.)
     Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu og verðmyndun gróðurhúsaafurða eru:
  1. að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum,
  2. að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar grænmetisframleiðslu til hagsbóta fyrir grænmetisframleiðendur og neytendur,
  3. að treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda,
  4. að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu þegar hún er nægjanleg að magni og gæðum.

     
     b. (51. gr.)
     Landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samning við Bændasamtök Íslands eða Samband garðyrkjubænda um verkefni til þess að ná settum markmiðum skv. 50. gr. Heimilt er að semja um beinar greiðslur til framleiðenda til lækkunar á verði einstakra tegunda afurða, framlög til rekstraraðfanga, framlög til fjárfestinga, framlög til úreldingar á gróðurhúsum og framlög til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna.
     Heimilt er landbúnaðarráðherra að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að annast faglega umsjón með verkefnum sem samið er um skv. 1. mgr. og framkvæmd þeirra, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.
     Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um framkvæmd verkefna skv. 1. mgr. Þar skal m.a. kveðið á um heildarfjárhæð beingreiðslna og skiptingu eftir tegundum, fjárhæð á kíló tegundar/afurðar og gæðaflokka eftir tímabilum og lækkun eða hækkun fjárhæðar á kíló tegundar/afurðar þegar frávik verða frá áætlun um selt magn. Landbúnaðarráðherra auglýsir áætlaðar beingreiðslur á kíló tegundar fyrir 15. desember og koma þær til greiðslu á næsta almanaksári.
     
     c. (52. gr.)
     Rétt til beingreiðslna eiga allir framleiðendur tegunda sem samið er um skv. 51. gr. en réttur til beingreiðslna takmarkast jafnframt við að um sé að ræða viðskipti milli bókhaldsskyldra einstaklinga eða lögaðila með virðisaukaskattsskylda veltu samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
     Landbúnaðarráðherra er heimilt að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna samkvæmt þessum kafla. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslna.
     
     d. (53. gr.)
     Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um uppgjör beingreiðslna, þar á meðal um skyldu umsækjenda til að taka fram upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör og um frágang viðskiptaskjala.
     Ef framleiðandi verður ekki við kröfum skv. 1. mgr. skal réttur til beingreiðslna felldur niður þar til framleiðandi hefur gert fullnægjandi úrbætur. Framleiðandi sem hefur tekið við beingreiðslum á grundvelli vísvitandi rangrar upplýsingagjafar skal endurgreiða ofteknar beingreiðslur með 50% álagi.
     
     e. (54. gr.)
     Ákvæði 42. gr. um úrskurðarnefnd gilda einnig um ágreining um beingreiðslur samkvæmt þessum kafla.
     Allir framleiðendur vörutegunda sem samningar skv. 51. gr. ná til eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerðum og öðrum stjórnvaldsreglum nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Réttur til beingreiðslna skv. XI. kafla árin 2002 og 2003 skal takmarkaður við að hafin sé framleiðsla á viðkomandi vörutegund 1. mars 2002 í þeirri garðyrkjustöð sem sótt er um beingreiðslur vegna, eða vörutegundin hafi verið framleidd þar á árinu 2001. Þessi réttur er bundinn framleiðslustað en ekki framleiðanda.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2002.