Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1490, 127. löggjafarþing 520. mál: Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur).
Lög nr. 92 15. maí 2002.

Lög um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.


1. gr.

     Orðin „með ríkisaðild í kjördæmum“ í 1. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að taka gjald til að standa straum af rekstrarkostnaði fyrir rannsóknir og ráðgjöf sem falla undir 4. gr., greiningu vegna inn- og útflutnings á dýrum og plöntum sem heyra undir samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á hveraörverum samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, leyfisveitingar vegna útflutnings á náttúruminjum og fyrir greiningar á náttúrusýnum. Ráðherra getur að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands sett gjaldskrá um þá starfsemi sem að framan er talin.
     Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum, náttúrugripum og sambærilegum gjöfum frá einstaklingum eða öðrum.

3. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa er starfa á vegum sveitarfélaga óháð kjördæmaskipan og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu. Náttúrustofur og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu hafa með sér samvinnu samkvæmt nánari ákvörðun þeirra hverju sinni.

4. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Eitt eða fleiri sveitarfélög geta átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofu er hjá þeim sveitarfélögum sem gert hafa samning um rekstur hennar. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs er háð því að fyrir liggi samningur um rekstur náttúrustofu, sbr. 9. gr. Í samningi skal meðal annars kveðið á um aðsetur og starfssvæði náttúrustofu, framlag ríkissjóðs og fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna reksturs hennar sem skulu miðast við 30% af framlagi ríkisins.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
  1. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
  2. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
  3. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
  4. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
  5. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar; Náttúruvernd ríkisins skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.

 3. Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
 4.      Náttúrustofur skulu fyrir lok apríl ár hvert skila skýrslu til ráðherra um starfsemi sína næstliðið ár ásamt ársreikningi.


6. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn náttúrustofu skal skipuð að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofu skipa þrjá menn í stjórn og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

7. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Stjórn náttúrustofu getur sett gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf á verksviði stofunnar, sbr. d-lið 1. mgr. 11. gr.

8. gr.

     Orðin „með ríkisaðild“ í 16. gr. laganna falla brott.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ráðherra skal fyrir 1. ágúst 2002 gera samning, sbr. 9. gr. laganna, við sveitarfélög sem standa að þeim náttúrustofum sem eru starfandi við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2002.