Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1205, 123. löggjafarþing 528. mál: náttúruvernd (heildarlög).
Lög nr. 44 22. mars 1999.

Lög um náttúruvernd.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið laganna.
     Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.
     Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.
     Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda á íslensku landi og í landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979.
     Lögin breyta í engu ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til lands og sjávar.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.
  2. Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
  3. Fólkvangur: Landsvæði í umsjón sveitarfélags eða sveitarfélaga sem friðlýst hefur verið til útivistar og almenningsnota.
  4. Ósnortið víðerni: Landsvæði sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu, er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum, og þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.
  5. Náttúruminjar:
    1. Náttúruverndarsvæði.
    2. Lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. gr.
  6. Náttúruverndarsvæði:
    1. Friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar, og náttúruvætti.
    2. Önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. gr.
    3. Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
  7. Ræktað land: Garðar og tún og akrar, þ.e. land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf, land í skógrækt eða land sem hvorki hefur þarfnast jarðvinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt.
  8. Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.


II. KAFLI
Stjórn náttúruverndarmála.

4. gr.

Yfirstjórn umhverfisráðherra.
     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn náttúruverndarmála.
     Við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skal ráðherra hafa samráð við hlutaðeigandi aðila, stofnanir og félagasamtök eftir því sem við á hverju sinni.

5. gr.

Náttúruvernd ríkisins.
     Náttúruvernd ríkisins er ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
     Umhverfisráðherra skipar forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólamenntun og sérþekkingu sem nýtist honum í starfi. Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, ber ábyrgð á rekstri hennar og ræður starfsmenn.
     Umhverfisráðherra skal setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra Náttúruverndar ríkisins og um innra skipulag stofnunarinnar.

6. gr.

Hlutverk Náttúruverndar ríkisins.
     Hlutverk Náttúruverndar ríkisins er:
  1. umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum í samræmi við lög,
  2. eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum; umhverfisráðherra skal, að höfðu samráði við aðrar stofnanir og aðila sem fara með eftirlit samkvæmt sérstökum lögum, setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit stofnunarinnar,
  3. eftirlit með umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum í samvinnu við önnur stjórnvöld,
  4. undirbúningur að friðlýsingu svæða, umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráning náttúruminja,
  5. mat á verndargildi náttúru Íslands og náttúruminja,
  6. fræðsla á náttúruverndarsvæðum og almenn fræðsla um náttúruvernd, m.a. í fjölmiðlum,
  7. rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum,
  8. álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar,
  9. friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar, sbr. 39. gr.,
  10. skýrslugerð til umhverfisráðherra um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar, framkvæmdir á þeim og annað sem máli skiptir og varðar vörslu svæðanna,
  11. undirbúningur og öflun gagna vegna náttúruverndaráætlunar, sbr. 65. gr., og skráningar náttúruminja og útgáfu náttúruminjaskrár, sbr. 67. gr.,
  12. veiting leyfa samkvæmt lögum þessum,
  13. önnur störf að náttúruvernd samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.


7. gr.

Framkvæmd eftirlits.
     Náttúruvernd ríkisins er heimilt að fela náttúrustofum, náttúruverndarnefndum, sbr. 11. gr., einstaklingum og lögaðilum að annast almennt eftirlit með náttúru landsins. Um slíkt skal gera samning sem umhverfisráðherra staðfestir. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslur fyrir eftirlitið, menntun eftirlitsmanna, skýrslugerð og annað sem máli skiptir.
     Telji Náttúruvernd ríkisins nauðsynlegt að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með framkvæmdum skal gera um það samkomulag við framkvæmdaraðila. Í samkomulaginu skal taka mið af innra eftirliti hans og eftirliti annarra opinberra aðila. Þar skulu kostnaðarliðir áætlaðir eins og mögulegt er hverju sinni og ber framkvæmdaraðila að endurgreiða Náttúruvernd ríkisins útlagðan kostnað við eftirlitið. Rísi ágreiningur milli aðila um efni samkomulagsins eða greiðslur fyrir eftirlitið sker ráðherra úr.
     Að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins setur ráðherra gjaldskrá um kostnað við eftirlit með framkvæmdum. Þar skal m.a. kveðið á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlitið beinist að.

8. gr.

Náttúruverndarráð.
     Náttúruverndarráð skal skipað níu mönnum. Umhverfisráðherra skipar fimm þeirra í upphafi náttúruverndarþings, fjóra að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Fjórir skulu kosnir á náttúruverndarþingi, sbr. 10. gr. Varamenn skulu skipaðir og kosnir með sama hætti. Náttúruverndarráð skal starfrækja skrifstofu með a.m.k. einum fastráðnum starfsmanni.
     Framlag skv. 3. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, rennur til Náttúruverndarráðs. Annan kostnað sem leiðir af störfum ráðsins skal greiða úr ríkissjóði.

9. gr.

Hlutverk Náttúruverndarráðs.
     Náttúruverndarráð skal stuðla að náttúruvernd og vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál.
     Náttúruverndarráð gerir tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir og fjallar um náttúruverndaráætlun, sbr. 65. og 66. gr., áður en hún er lögð fyrir Alþingi.
     Náttúruverndarráð fylgist með þróun náttúruverndar á alþjóðavettvangi.
     Náttúruverndarráð fer með málefni Friðlýsingarsjóðs, sbr. 71. gr.

10. gr.

Náttúruverndarþing.
     Umhverfisráðherra skal boða til náttúruverndarþings að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar.
     Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Á náttúruverndarþingi skulu m.a. eiga sæti Náttúruverndarráð og fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd, svo og forstjórar stofnana á sviði náttúrufræða. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, svo og sviðsstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra síðarnefndu stofnunarinnar.
     Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd og kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Skal ráðið leggja fyrir þingið skýrslu um störf sín.
     Formaður Náttúruverndarráðs setur þingið og stýrir því uns það hefur kosið forseta. Þingið setur sér þingsköp. Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal auglýsa á fullnægjandi hátt fjórum vikum fyrir upphaf náttúruverndarþings. Verði ágreiningur um kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa skal málum vísað til úrskurðar á þinginu sjálfu.
     Seta á náttúruverndarþingi er ólaunuð, en hlutaðeigandi aðilar greiða kostnað fulltrúa. Annar nauðsynlegur kostnaður af þinghaldinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra.

11. gr.

Náttúruverndarnefndir.
     Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar starfar þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna, kjósa þá til fjögurra ára, velja formann og setja nefndinni erindisbréf. Varamenn skulu kosnir með sama hætti. Sveitarstjórnir greiða kostnað sem hlýst af störfum náttúruverndarnefnda nema öðruvísi sé ákveðið. Tilkynnt skal eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til Náttúruverndar ríkisins um kjör í náttúruverndarnefndir.
     Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins.
     Náttúruverndarnefndir skulu leita aðstoðar og ráðgjafar Náttúruverndar ríkisins þegar ástæða er til. Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar náttúruverndarnefnda skulu halda a.m.k. einn sameiginlegan fund á ári. Náttúruverndarnefndir skulu veita Náttúruvernd ríkisins yfirlit yfir störf sín með skýrslu í lok hvers árs.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hlutverk náttúruverndarnefnda og tengsl þeirra við náttúrustofur samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992.

III. KAFLI
Almannaréttur, umgengni og útivist.

12. gr.

Réttindi og skyldur almennings.
     Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
     Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.

13. gr.

För um landið og umgengni.
     Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.
     Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði.
     För manna um landið er ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum.

14. gr.

Umferð gangandi manna.
     Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.
     För um ræktað land, sbr. 7. tölul. 3. gr., og dvöl þar er háð samþykki eiganda þess eða rétthafa. Sama gildir um skógræktarsvæði í byggð sem ekki eru í eigu eða umsjá ríkis eða sveitarfélaga, önnur en náttúrulega birkiskóga og kjarr. Sé skógrækt styrkt með opinberu fé skal kveða svo á í samningi við eiganda eða rétthafa lands að hann tryggi almenningi með reglum sem hann setur frjálsa för um landið eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.

15. gr.

Umferð hjólandi manna.
     Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.

16. gr.

Umferð ríðandi manna.
     Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er.
     Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.
     Heimilt er mönnum, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum, enda valdi það ekki spjöllum á náttúru landsins. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.
     Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum þegar farið er um eða dvalist á náttúruverndarsvæðum, sbr. IV. kafla.
     Umhverfisráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.

17. gr.

Akstur utan vega.
     Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.
     Umhverfisráðherra kveður, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, í reglugerð á um aðrar undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr., m.a. vegna starfa manna við landbúnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir. Ráðherra getur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, takmarkað eða bannað akstur á jöklum og á snjó þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð.
     Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu, sbr. 76. gr.

18. gr.

Umferð um vötn.
     Um umferð um vötn fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.

19. gr.

Takmörkun umferðar í óbyggðum.
     Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum, enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu skv. 2. mgr. Slíkar ákvarðanir skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.
     Skal stofnunin á hverju hausti gera úttekt á ástandi svæða í óbyggðum og gefa ráðherra skýrslu um niðurstöður úttektarinnar. Í skýrslunni skal koma fram hvaða svæði eru í hættu og hvar geti komið til lokana. Stofnunin skal birta niðurstöður skýrslunnar með auglýsingu í dagblöðum og Lögbirtingablaði.

20. gr.

Heimild til að tjalda.
     Við alfaraleið í byggð er heimilt, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 14. gr., að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi, en leita skal leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ og ætíð ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur.
     Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld.
     Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður göngutjöld nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði.
     Á ræktuðu landi, sbr. 7. tölul. 3. gr., má aðeins slá upp tjöldum með leyfi eiganda þess eða rétthafa.
     Við tjöldun skal ætíð virða ákvæði 17. gr. um bann við akstri utan vega, svo og gæta fyllsta hreinlætis og varúðar á tjaldstað.

21. gr.

Takmarkanir á heimild til að tjalda.
     Þegar sérstaklega stendur á getur eigandi lands eða rétthafi takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af.
     Hafi eigandi lands eða rétthafi útbúið sérstakt tjaldsvæði á landi sínu er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir veitta þjónustu þar.

22. gr.

Skipulagðar hópferðir.
     Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. Eftir því sem við verður komið skal tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í ferðinni.

23. gr.

Girðingar.
     Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Þegar girða á yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa þar hlið á girðingu eða göngustiga.
     Skylt er að halda girðingu svo vel við að mönnum og skepnum stafi ekki hætta af. Að öðru leyti fer um girðingar, viðhald þeirra og upptöku eftir girðingarlögum, nr. 10/1965, og eftir atvikum öðrum lögum.

24. gr.

Tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
     Í þjóðlendum og afréttum er öllum heimil tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
     Tínsla í eignarlöndum er háð leyfi eiganda lands eða rétthafa. Þó er mönnum heimil tínsla til neyslu á vettvangi.

25. gr.

Tínsla fjörugróðurs.
     Í fjörum þjóðlendna er öllum heimil tínsla sölva, þangs, þara og annars fjörugróðurs.
     Tínsla í fjörum eignarlanda er háð leyfi eiganda eða rétthafa lands. Þó er mönnum heimil tínsla til neyslu á vettvangi.

26. gr.

Tínsla í atvinnuskyni.
     Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni, m.a. um að tilkynna skuli Náttúrufræðistofnun Íslands um magn og tegund þess sem tínt er og tínslustað og þegar sérstaklega stendur á að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi til tínslu einstakra tegunda eða á einstökum svæðum.

27. gr.

Tæki og verkfæri til tínslu.
     Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um notkun tækja og verkfæra til tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs. Er honum heimilt að leggja bann við notkun þeirra ef hætta er á að hún valdi spjöllum á náttúru landsins.

IV. KAFLI
Rekstur náttúruverndarsvæða.

28. gr.

Umsjón með náttúruverndarsvæðum.
     Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með náttúruverndarsvæðum nema annað sé tekið fram í lögum. Umhverfisráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.

29. gr.

Landverðir.
     Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.

30. gr.

Umsjón falin öðrum.
     Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum. Gera skal sérstakan samning um umsjón og rekstur svæðanna sem umhverfisráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð á svæðunum og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu, svo og gjaldtöku, sbr. 32. gr. Náttúruvernd ríkisins hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingar.

31. gr.

Gestastofur.
     Náttúruvernd ríkisins er heimilt að stofna og reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Hafa skal samstarf við náttúrustofur, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, um rekstur gestastofa þegar við á. Gera skal sérstakan samning um samstarfið sem umhverfisráðherra staðfestir.
     Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur gestastofa. Um slíkt skal gera sérstakan samning sem ráðherra staðfestir.

32. gr.

Gjaldtaka o.fl.
     Náttúruvernd ríkisins eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Rekstraraðili náttúruverndarsvæðis getur enn fremur ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.
     Tekjum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.
     Eigi síðar en í september ár hvert skal Náttúruvernd ríkisins leggja fyrir umhverfisráðherra til staðfestingar skrá yfir gjöld sem stofnunin hyggst innheimta næsta ár á eftir. Staðfesti ráðherra gjaldskrána skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.
     Náttúruvernd ríkisins eða öðrum umsjónaraðila náttúruverndarsvæðis er heimilt að setja sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á náttúruverndarsvæðum og um önnur atriði er greinir í III. kafla, sbr. og 60. gr.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd greinarinnar í reglugerð.

V. KAFLI
Landslagsvernd.

33. gr.

Gerð skipulagsáætlana.
     Leita skal umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda, sbr. 11. gr., við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.

34. gr.

Meiri háttar framkvæmdir.
     Meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.

35. gr.

Hönnun mannvirkja.
     Við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra mannvirkja skal þess gætt að þau falli sem best að svipmóti lands.

36. gr.

Ræktun.
     Við túnrækt, skógrækt, uppgræðslu lands, skjólbeltagerð og aðra ræktun skal þess gætt að hún falli sem best að heildarsvipmóti lands og raski ekki náttúru- og menningarminjum.

37. gr.

Sérstök vernd.
     Eftirtaldar landslagsgerðir njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:
  1. eldvörp, gervigígar og eldhraun,
  2. stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri,
  3. mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri,
  4. fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri,
  5. sjávarfitjar og leirur.

     Leita skal umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda áður en veitt er framkvæmda- eða byggingarleyfi, sbr. 27. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun landslagsgerða skv. 1. mgr. nema fyrir liggi aðalskipulag samþykkt eftir gildistöku laga þessara þar sem umsögn skv. 33. gr. liggur fyrir.

38. gr.

Hætta á röskun náttúruminja.
     Leyfi Náttúruverndar ríkisins þarf til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum. Leita skal umsagnar og tilkynna Náttúruvernd ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr.
     Leiti framkvæmandi ekki leyfis skv. 1. mgr. er Náttúruvernd ríkisins heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að framkvæmdir verði ekki hafnar eða þær stöðvaðar. Verði ekki orðið við áskorun stofnunarinnar er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 73. gr., og leita atbeina lögreglu ef með þarf.

39. gr.

Vernd skóga og annarra gróðursamfélaga.
     Umhverfisráðherra getur í samráði við landbúnaðarráðherra ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir til að vernda skóga og önnur gróðursamfélög.
     Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs. Slíkt eftirlit má þó fela gróðurverndarnefndum að fengnu samþykki umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.
     Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.
     Ekki skal að óþörfu eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt.

40. gr.

Steindir.
     Umhverfisráðherra getur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og umsögn iðnaðarráðuneytis, mælt fyrir í reglugerð um vernd steinda, m.a. um að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi til töku ákveðinna tegunda þeirra úr föstum jarðlögum.

41. gr.

Innflutningur, ræktun og dreifing lifandi lífvera.
     Að því leyti sem ekki er kveðið á um í öðrum lögum, svo sem lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, getur ráðherra veitt leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera.
     Ráðherra skal í reglugerð kveða á um skráningu, innflutning, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera hér á landi, sbr. þó 1. mgr. Þar má m.a. birta skrá yfir tegundir sem óheimilt er að flytja til landsins, svo og yfir tegundir sem heimilt er að rækta hérlendis og sleppa í villtri náttúru, þar með talið á skógræktarsvæðum.
     Ráðherra skipar til fjögurra ára nefnd sérfræðinga stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera. Skulu stjórnvöld leita umsagnar nefndarinnar og Náttúruverndar ríkisins áður en tekin er ákvörðun um innflutning, ræktun eða dreifingu nýrra tegunda lifandi lífvera. Í nefndinni skulu eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar.
     Ákvæði greinar þessarar taka ekki til lifandi smitefna, sbr. lög um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978, erfðabreyttra lífvera, sbr. lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, sjávarafla, sbr. lög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, og þeirra tegunda sjávarspendýra sem lifa hér við land.

42. gr.

Áletranir á náttúrumyndanir.
     Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar og varða refsingu skv. 76. gr., sbr. og 75. gr.

43. gr.

Auglýsingar utan þéttbýlis.
     Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt, að uppfylltum ákvæðum annarra laga, að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni greinarinnar og úrskurðar um vafaatriði.

44. gr.

Eignir í hirðuleysi, eyðijarðir og úrbætur.
     Hafi byggingar, skip í fjöru, bifreiðir, áhöld eða mannvirki, þar á meðal girðingar, verið skilin eftir í hirðuleysi og grotni þar niður svo að telja verði til lýta eða spjalla á náttúru er eiganda skylt að fjarlægja það.
     Fari jörð í eyði er landeiganda skylt að ganga svo frá húsum, girðingum, brunnum og öðrum mannvirkjum að ekki valdi hættu fyrir fólk og skepnur né valdi náttúruspjöllum eða sé til lýta. Þegar sérstök ástæða er til og ætla má að um sé að ræða mannvirki eða mannvistarleifar sem hafi menningarsögulegt gildi skal gera Þjóðminjasafni Íslands, eða aðila sem starfar í umboði þess, viðvart áður en ráðist er í frágang mannvirkja eða mannvistarleifa samkvæmt þessari grein.
     Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir sem nauðsynlegar eru samkvæmt fyrirmælum þessum á kostnað þess er skylt var að annast þær en hefur látið það ógert. Sveitarstjórn getur þó, þegar sérstaklega stendur á og ljóst er af umfangi aðgerða að umrætt sveitarfélag hefur ekki með hliðsjón af fjölda íbúa og tekjum þess fjárhagslega getu til framkvæmda, leitað eftir því við umhverfisráðherra að hann annist nauðsynlegar framkvæmdir. Fallist ráðherra á þá málaleitan tekur hann við framkvæmd mála samkvæmt grein þessari.

VI. KAFLI
Nám jarðefna.

45. gr.

Gildissvið.
     Ákvæði kafla þessa gilda um efnistöku í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og, eftir því sem við á, um efnistöku af eða úr hafsbotni í íslenskri landhelgi og efnahagslögsögu.

46. gr.

Skipulag efnistökusvæða.
     Um skipulag efnistökusvæða fer eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.

47. gr.

Heimild til efnistöku.
     Um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer eftir ákvæðum laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Iðnaðarráðherra skal þó leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins áður en leyfi er veitt.
     Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þar sem ekki liggur fyrir samþykkt aðalskipulag sem Náttúruvernd ríkisins og náttúruverndarnefnd hefur gefið umsögn sína um, sbr. 33. gr., skal liggja fyrir umsögn þeirra um framkvæmdina áður en leyfi er veitt. Enn fremur gilda um efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða landslagsgerðir sem njóta verndar skv. 37. gr.

48. gr.

Áætlun um efnistöku.
     Áður en leyfi er veitt til náms jarðefna skv. 47. gr. skal liggja fyrir áætlun námuréttarhafa um væntanlega efnistöku þar sem m.a. skal gerð grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.
     Náttúruvernd ríkisins skal hafa eftirlit með efnistöku á landi, sbr. og b-lið 6. gr. og 2. og 3. mgr. 7. gr. Er stofnuninni heimilt að krefjast þess að námuréttarhafi leggi fram tryggingu sem stofnunin telur fullnægjandi fyrir áætluðum kostnaði við eftirlit og frágang efnistökusvæða.

49. gr.

Frágangur efnistökusvæða.
     Við upphaf efnistöku skal ganga frá gróðri og efsta hluta jarðvegs námasvæðis á þann hátt að auðvelt verði að jafna honum aftur yfir efnistökusvæði. Að loknum vinnslutíma skal ganga snyrtilega frá efnistökusvæði þannig að sem best falli að umhverfi.
     Sé frágangur ekki í samræmi við áætlun um efnistöku, sbr. 48. gr., getur Náttúruvernd ríkisins gefið námuréttarhafa fyrirmæli um að ljúka frágangi innan tiltekins frests sem þó skal aldrei vera lengri en eitt ár. Er stofnuninni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 73. gr.
     Beri aðgerðir Náttúruverndar ríkisins skv. 2. mgr. ekki árangur skal sveitarstjórn ganga frá efnistökusvæði á kostnað námuréttarhafa í samræmi við gerða áætlun, sbr. 48. gr. Skal trygging skv. 48. gr. ganga til greiðslu kostnaðar.
     Efnistökusvæði skal ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár. Náttúruvernd ríkisins getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu sérstakar ástæður fyrir tímabundinni stöðvun.
     Förgun úrgangs á efnistökusvæðum skal vera í samræmi við gerða áætlun, sbr. 48. gr., og lög og reglur um hollustuhætti og mengunarvarnir.

VII. KAFLI
Friðlýstar náttúruminjar.

50. gr.

Flokkar friðlýstra náttúruminja.
     Friðlýstar náttúruminjar skiptast í eftirfarandi flokka:
  1. þjóðgarða, sbr. 51. gr.,
  2. friðlönd, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 53. gr.,
  3. náttúruvætti á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr., og í hafi, sbr. 1. mgr. 54. gr.,
  4. friðlýstar lífverur, búsvæði og vistkerfi, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr.,
  5. fólkvanga, sbr. 55. gr.


51. gr.

Stofnun þjóðgarða.
     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag eða lífríki eða á því hvíli söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
     Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.
     Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.

52. gr.

Rekstur þjóðgarða.
     Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem forstjóri Náttúruverndar ríkisins ræður. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi.
     Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur þjóðgarða og gera tillögur til Náttúruverndar ríkisins um rekstur þeirra. Náttúruvernd ríkisins getur falið þjóðgarðsvörðum eftirlit og umsjón á öðrum svæðum sem stofnunin ber ábyrgð á.
     Náttúruvernd ríkisins gerir tillögur um verndaráætlun og landnotkun innan þjóðgarða og skulu þær staðfestar af ráðherra.
     Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.

53. gr.

Friðlýsing annarra náttúruminja á landi.
     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst:
  1. Landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Friðlýst landsvæði nefnast friðlönd.
  2. Náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúrumyndanir svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í friðlýsingu. Friðlýstar náttúrumyndanir nefnast náttúruvætti.
  3. Lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.

     Friðlýsing skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.

54. gr.

Friðlýsing náttúruminja í hafi.
     Umhverfisráðherra getur, að fengnu samþykki sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum að fengnum tillögum eða áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands eða Náttúruverndarráðs, friðlýst innan landhelgi og efnahagslögsögu náttúruminjar í hafi, þ.m.t. eyjar og sker, og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúruminjar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í friðlýsingu.
     Ákvæði annarra greina þessa kafla gilda eftir því sem við á um friðlýstar náttúruminjar í hafi.

55. gr.

Stofnun fólkvangs.
     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og áliti Náttúruverndar ríkisins, lýst tiltekið landsvæði, sem ætlað er til útvistar og almenningsnota, fólkvang.
     Vilji eitt sveitarfélag eða fleiri að tiltekið svæði verði lýst fólkvangur skal það eða þau gera tillögu um slíkt til Náttúruverndar ríkisins þar sem m.a. skal gerð grein fyrir mörkum fólkvangsins og hvaða takmarkanir ákvörðun um fólkvang kunni að setja umráðarétti eigenda eða rétthafa viðkomandi landsvæðis.

56. gr.

Kostnaður við stofnun og rekstur fólkvangs.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög bera allan kostnað af stofnun og rekstri fólkvangs að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði og skal honum skipt í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna næsta ár á undan. Hætti sveitarfélag þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs er því skylt að greiða áfallinn kostnað hlutfallslega.

57. gr.

Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs.
     Sveitarfélög sem standa að rekstri fólkvangs skulu gera með sér samvinnusamning og stofna samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.

58. gr.

Undirbúningur friðlýsingar.
     Náttúruvernd ríkisins annast undirbúning friðlýsingar, sbr. þó 2. mgr. 55. gr. Leita skal samráðs við Hafrannsóknastofnunina við undirbúning friðlýsingar skv. 54. gr. Náttúruvernd ríkisins skal gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.
     Náist samkomulag um friðlýsingu skal málinu vísað til umhverfisráðherra til frekari ákvörðunar.

59. gr.

Samkomulag næst ekki um friðlýsingu.
     Náist ekki samkomulag um friðlýsingu skal málinu vísað til meðferðar umhverfisráðherra. Ráðherra sendir landeigendum og öðrum rétthöfum lands er friðlýsing snertir, svo og sveitarfélögum, tillögu að friðlýsingu, jafnframt því að birta hana með auglýsingu í Lögbirtingablaði og eftir atvikum á þann hátt sem venja er að birta auglýsingar stjórnvalda á viðkomandi stað.
      Skal þeim sem hagsmuna eiga að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu, koma að mótmælum og gera bótakröfur til ráðherra innan þriggja mánaða.
     Að loknum þeim fresti skal ráðherra taka ákvörðun um friðlýsingu og um eignarnám ef þörf krefur, sbr. 64. gr.

60. gr.

Efni friðlýsingar.
     Í friðlýsingu skal m.a. kveðið á um:
  1. meginatriði verndunar náttúruminja,
  2. hversu víðtæk friðunin er,
  3. að hve miklu leyti framkvæmdir eru takmarkaðar,
  4. umferð og umferðarrétt almennings,
  5. notkun veiðiréttar.

     Í friðlýsingu má enn fremur setja fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur fái notið þess svæðis sem friðlýst er, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.
     Ef ætla má að fyrirhugaðar framkvæmdir á friðlýstu svæði raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir verulegum skaða getur umhverfisráðherra látið friðlýsingu taka til banns við slíkum framkvæmdum, enda sé áður fengin umsögn Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

61. gr.

Meðferð máls.
     Um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

62. gr.

Auglýsingar og merkingar.
     Umhverfisráðherra skal birta ákvörðun um friðlýsingu og ákvæði hennar í Stjórnartíðindum.
     Náttúruvernd ríkisins skal merkja og veita upplýsingar um friðlýst svæði eftir því sem við verður komið og nauðsynlegt þykir að mati stofnunarinnar.

63. gr.

Röskun friðlýstra náttúruminja.
     Friðlýstum náttúruminjum má enginn granda, spilla né breyta. Varðar röskun þeirra refsingu skv. 76. gr., sbr. og 75. gr.

64. gr.

Heimild til eignarnáms.
     Umhverfisráðherra er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðlýsingu samkvæmt lögum þessum. Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta fer eftir ákvæðum laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

VIII. KAFLI
Náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá.

65. gr.

Náttúruverndaráætlun.
     Umhverfisráðherra skal eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi.
     Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofur og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar.

66. gr.

Efni náttúruverndaráætlunar.
     Í náttúruverndaráætlun skv. 65. gr. skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi, sem ástæða þykir til að friðlýsa. Skal í áætluninni lýst sérkennum minjanna og þýðingu þeirra í náttúru landsins.
     Áætlunin skal m.a. taka til helstu tegunda búsvæða og vistkerfa hér á landi, svo og jarðmyndana. Við gerð hennar skal m.a. taka tillit til:
  1. menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar,
  2. nauðsynjar á endurheimt búsvæða,
  3. nýtingar mannsins á náttúrunni,
  4. ósnortinna víðerna.

     Þá skal m.a. miðað við að þau svæði sem áætlunin tekur til:
  1. hýsi sjaldgæfar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu,
  2. séu óvenjutegundarík eða viðkvæm fyrir röskun,
  3. séu nauðsynleg til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda,
  4. hafi verulegt vísinda-, félags-, efnahags- eða menningarlegt gildi,
  5. séu mikilvæg fyrir viðhald náttúrulegra þróunarferla,
  6. hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi,
  7. séu einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta.


67. gr.

Náttúruminjaskrá.
     Umhverfisráðherra skal gefa út heildstæða náttúruminjaskrá eigi sjaldnar en fimmta hvert ár og birta í Stjórnartíðindum. Birta má hvenær sem er ákvarðanir um ný svæði sem tekin eru á náttúruminjaskrá.
     Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi náttúrustofur og náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna viðbóta við náttúruminjaskrá og heildarútgáfu hennar.

68. gr.

Efni náttúruminjaskrár.
     Í náttúruminjaskrá skulu vera sem gleggstar upplýsingar um:
  1. friðlýstar náttúruminjar,
  2. náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun, sbr. 65. gr.,
  3. aðrar náttúruminjar, þ.e. landsvæði, náttúrumyndanir og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem rétt þykir að vernda.

     Í náttúruminjaskrá skal lýst sérkennum náttúruminja og þýðingu þeirra fyrir náttúru landsins.
     Umhverfisráðherra getur í reglugerð sett nánari fyrirmæli um skráningu náttúruminja.

69. gr.

Sala jarðar sem er á náttúruminjaskrá.
     Um sölu jarðar sem öll eða að hluta er á náttúruminjaskrá fer eftir ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976, en þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.

70. gr.

Útivistarsvæði.
     Til stuðnings við útivist geta sveitarfélög, Náttúruvernd ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum og svæðum sem ástæða er til að halda opnum til að greiða fyrir því að almenningur fái notið náttúrunnar; enn fremur sett upp göngubrýr, hlið og göngustiga og afmarkað tjaldsvæði og gert annað það er þurfa þykir í þessu skyni.
     Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki eigenda eða rétthafa lands.

71. gr.

Friðlýsingarsjóður.
     Á vegum umhverfisráðuneytis skal starfa Friðlýsingarsjóður. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að náttúruvernd og friðlýsingu svæða og auka fræðslu um náttúruvernd og náttúrufar.
     Náttúruverndarráð fer með vörslu Friðlýsingarsjóðs og er jafnframt stjórn sjóðsins.
     Umhverfisráðherra skal, að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Friðlýsingarsjóðs og úthlutanir úr honum.

72. gr.

Kostnaður við framkvæmd laganna.
     Kostnaður við framkvæmd laga þessara skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

73. gr.

Dagsektir.
     Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögunum eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt. Hámark dagsekta skal ákveða í reglugerð.

74. gr.

Ágreiningur um framkvæmd laganna.
     Rísi ágreiningur um ákvörðun annars aðila en umhverfisráðherra um framkvæmd laga þessara er heimilt að kæra umrædda ákvörðun til ráðherra sem kveður upp endanlegan úrskurð á stjórnsýslustigi. Um kærurétt og málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

75. gr.

Spjöll á náttúru landsins.
     Hver sá sem veldur á ólögmætan hátt spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur er af gáleysi eða ásetningi, skal sæta refsingu skv. 76. gr.

76. gr.

Refsiábyrgð.
     Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
     Með mál samkvæmt þessari grein skal farið að hætti opinberra mála, sbr. lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

77. gr.

Skaðabætur.
     Hver sá er fyrir fjártjóni verður vegna framkvæmda skv. VII. kafla laga þessara á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði sé ekki öðruvísi ákveðið. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

78. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999. Þá falla jafnframt úr gildi lög nr. 123/1940, um bann gegn jarðraski, með síðari breytingum, og náttúruverndarlög, nr. 93/1996, með síðari breytingum.
     Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett eru samkvæmt eldri lögum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi.

79. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
  2. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 21. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
  3. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 2. mgr. 22. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
  4. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 5. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, kemur: Náttúruverndar ríkisins og sérfræðinganefndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.
  5. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 4. gr. laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
  6. Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 7. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, kemur: Náttúruvernd ríkisins.
  7. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 4. mgr. 13. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, kemur: Náttúruverndar ríkisins.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Umhverfisráðherra skal eigi síðar en árið 2002 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn náttúruverndaráætlun skv. 65. gr.

II.
     Umhverfisráðherra skal fela Náttúruvernd ríkisins, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila, að gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun og ekki liggur fyrir áætlun um frágang á. Skal stofnunin gera áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann, svo og tillögur um greiðslu kostnaðar. Þá skal stofnunin enn fremur hafa umsjón með frágangi svæðanna. Skal honum lokið eigi síðar en árið 2003.

III.
     Sveitarstjórnir skulu eigi síðar en árið 2002 hafa lokið úttekt á ástandi skv. 44. gr. og skilað Náttúruvernd ríkisins skriflegri greinargerð þar að lútandi.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.