Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 994, 128. löggjafarþing 157. mál: skráning skipa (þurrleiguskráning fiskiskipa).
Lög nr. 10 26. febrúar 2003.

Lög um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
     Siglingastofnun Íslands getur heimilað að fiskiskip sem skráð er á íslenska skipaskrá sé skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá. Þurrleiguskráning er tímabundin skráning skips, sem leigt hefur verið án áhafnar, á erlenda skipaskrá án þess að það sé afmáð af íslenskri skipaskrá. Siglingastofnun Íslands getur ákveðið að heimild til þurrleiguskráningar takmarkist við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip með þessum hætti til allt að fimm ára og framlengja þurrleiguskráningu í framhaldi af því um allt að eitt ár í senn. Með umsókn um heimild til þurrleiguskráningar skulu fylgja:
 1. upplýsingar um leigutaka skipsins,
 2. upplýsingar um hvar óskað er að skrá skipið þurrleiguskráningu,
 3. upplýsingar um hvar skipi er ætlað að stunda veiðar og á hvaða tegundum,
 4. afrit þurrleigusamnings, auk löggiltrar þýðingar á samningnum ef hann er á öðru tungumáli en íslensku eða ensku,
 5. staðfesting erlendrar skipaskrár á því að heimilt sé að skrá skipið þurrleiguskráningu þar,
 6. staðfesting erlendrar skipaskrár á því að skipið verði tafarlaust afmáð af skipaskránni ef íslensk stjórnvöld fara fram á það,
 7. skriflegt samþykki veðhafa fyrir þurrleiguskráningunni,
 8. aðrar upplýsingar sem samgönguráðherra getur kveðið á um í reglugerð.

     Áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
 1. skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
 2. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar,
 3. verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
 4. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um,
 5. sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki,
 6. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga,
 7. önnur skilyrði sem sjávarútvegsráðherra getur kveðið á um í reglugerð.

     Skip, sem skráð er á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá, siglir undir þjóðfána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis, þ.m.t. ákvæðum um eftirlit með skipum, búnað skipa og mönnun þeirra, meðan á þurrleiguskráningu stendur. Veðbönd skips, sem skráð er með þessum hætti, skulu skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra hér á landi.
     Heimild til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður þegar:
 1. þurrleigusamningur fellur úr gildi,
 2. forsendur heimildar til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. eru brostnar að mati Siglingastofnunar Íslands,
 3. skilyrði fyrir heimild til þurrleiguskráningar skv. 2. mgr. er ekki lengur uppfyllt að mati sjávarútvegsráðuneytisins,
 4. leigutaki skipsins óskar þess,
 5. 1. mgr. 15. gr. á við um skipið.

     Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður skal Siglingastofnun Íslands fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afmáð af henni. Uppfylli skipið ekki skilyrði íslenskra laga ber forráðamönnum þess að sjá til þess að úr því sé bætt innan þriggja sólarhringa frá því að tilkynning berst um að það hafi verið afmáð af hinni erlendu skipaskrá. Þegar skilyrði hafa verið uppfyllt skal tilkynna það til Siglingastofnunar.
     Þurrleiguskráningu skips telst lokið þegar tilkynning berst frá erlendu skipaskránni um að það hafi verið afmáð af henni.

2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skip sem er skráð á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá telst þó ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslendinga meðan á þurrleiguskráningunni stendur.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. febrúar 2003.