Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1199, 128. löggjafarþing 601. mál: tekjuskattur og eignarskattur (hlutabréfasjóðir).
Lög nr. 21 20. mars 2003.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem orðast svo:
     Ákvæði þetta tekur til manna sem eiga hlutabréf í hlutafélagi um sameiginlega fjárfestingu sem fullnægir skilyrðum 5. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna og fá við slit þess á árunum 2003–2007 í stað hlutabréfs í hlutafélaginu afhent hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði, sem hefur verið stofnaður samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, og tekur við verðbréfaeign félagsins, eftir því sem nánar er kveðið á um í ákvæði þessu.
     Við slit skv. l. mgr. telst afhending hlutdeildarskírteinanna ekki til skattskylds arðs skv. 4. mgr. 9. gr. laganna. Stofnverð hlutdeildarskírteinis sem afhent er skv. 1. mgr. skal vera jafnt upphaflegu kaupverði bréfanna, að teknu tilliti til 4. mgr. 17. gr. laganna, sbr. þó 3. mgr. ákvæðis þessa.
     Tekjur við sölu eða innlausn hlutdeildarskírteinis sem afhent var skv. 1. mgr. í stað hlutabréfs sem keypt var á árunum 1990–1996 skulu ekki skattlagðar nema að því marki sem þær eru umfram fjárhæð er getur í 6. mgr. 17. gr. laganna, enda hafi hlutdeildarskírteini vegna þessara hlutabréfa verið sérgreind. Um ákvörðun stofnverðs að öðru leyti fer eftir 2. mgr.
     Afhending hlutabréfa skv. 1. mgr. telst ekki hafa í för með sér rof á eignarhaldi, sbr. 4. mgr. l. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna. Verði hlutdeildarskírteinið selt eða það innleyst áður en eignarhaldstími þess eða þeirra bréfa sem það kom í staðinn fyrir er liðinn gilda ákvæði um kaup í nýjum bréfum eða eftir atvikum tekjufærslu nýtts frádráttar, sbr. 3.–5. málsl. 4. mgr. 1. tölul. B-liðar l. mgr. 30. gr. laganna.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003 og koma til framkvæmda í álagningu 2004.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.