Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1196, 128. löggjafarþing 547. mál: samkeppnislög (ábyrgðarlýsingar, EES-reglur).
Lög nr. 23 20. mars 2003.

Lög um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ábyrgðaryfirlýsing er lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans.

2. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 24. gr. a, svohljóðandi:
     Ef ábyrgðaryfirlýsing er veitt skal seljandi vöru eða þjónustu upplýsa neytanda á skýran og greinargóðan hátt um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett til þess að neytandi geti borið fyrir sig ábyrgðina. Jafnframt skal seljandi upplýsa neytanda á skýran hátt um þau ófrávíkjanlegu réttindi sem hann nýtur samkvæmt ákvæðum laga og ábyrgðaryfirlýsingin hefur engin áhrif á. Ef neytandi óskar þess ber seljanda að afhenda honum skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ritaða á pappír eða á öðrum varanlegum miðli sem er neytandanum aðgengilegur. Skriflegar ábyrgðaryfirlýsingar skulu vera á íslensku.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2003.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.