Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 664, 116. löggjafarþing 9. mál: samkeppnislög.
Lög nr. 8 9. febrúar 1993.

Samkeppnislög.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið laganna.

1. gr.

     Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
  1. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
  2. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
  3. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.


2. gr.

     Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
     Lögin taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum.

3. gr.

     Lög þessi taka til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi.
     Lögin taka ekki til samninga, skilmála og athafna sem aðeins er ætlað að hafa áhrif utan Íslands, sbr. þó ákvæði XI. kafla og reglur um viðskipti á sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
     Samkeppnisstofnun skal aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.

II. KAFLI
Orðskýringar.

4. gr.

     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:       Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
      Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
      Fyrirtækjasamstæða er samband fyrirtækja með þannig eignauppbyggingu að eitt fyrirtæki á svo stóran hlut í öðru fyrirtæki eða fleiri fyrirtækjum að það fer með meiri hluta atkvæða. Það fyrirtæki skoðast því sem móðurfyrirtæki, en hitt eða hin fyrirtækin sem dótturfyrirtæki. Til fyrirtækjasamstæðu telst einnig fyrirtæki þar sem móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki eða eitt eða fleiri dótturfyrirtæki eiga saman svo mörg hlutabréf eða hluti að þau fara með meiri hluta atkvæða í þeim.
      Markaðsráðandi staða er þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
      Markaður er sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti getur komið í stað annarrar.
      Neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.
      Sölustig framleiðslu ber að líta á sem eitt sölustig, heildsölu annað sölustig, smásölu hið þriðja o.s.frv.
      Þjónusta er hvers konar fyrirgreiðsla, vinna eða þjónusta gegn endurgjaldi, nema launuð vinna í þjónustu annarra.
      Vara er samkvæmt lögum þessum fasteignir og lausafé, þar með talin skip, loftför, lofttegundir, rafmagn og aðrir orkugjafar.
      Verð er andvirði vöru og þjónustu, þ.e. hvers konar endurgreiðsla án tillits til þess hvort notað er annað heiti, svo sem endurgjald, laun, þóknun, frakt, flutningsgjald, taxti, leiga eða því um líkt.
      Virk yfirráð eru yfirráð sem gera aðila kleift að hafa úrslitaáhrif á rekstur og stjórnun fyrirtækis hvort sem þau áhrif eru til komin vegna þess að hann getur:
  1. haft áhrif á skipun stjórnar, atkvæðagreiðslur eða ákvarðanir fyrirtækisins,
  2. notað eða ráðstafað eignum eða hluta eigna fyrirtækis.


     Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtök þessi sker samkeppnisráð úr þeim ágreiningi.

III. KAFLI
Stjórnsýsla.

5. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara en í umboði hans annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
     Hlutverk samkeppnisráðs er sem hér segir:
  1. að framfylgja boðum og bönnum laga þessara og leyfa undanþágur samkvæmt þeim,
  2. að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja og óréttmætum viðskiptaháttum,
  3. að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins,
  4. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði.


6. gr.

     Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins.
     Skipunartími samkeppnisráðs er fjögur ár í senn. Látist aðal- eða varamaður í ráðinu eða forfallist varanlega skal skipa nýjan mann til loka skipunartíma ráðsins.
     Nú er aðalmaður vanhæfur til meðferðar einstaks máls sökum tengsla við málsaðila og tekur varamaður þá sæti hans. Sé þess ekki kostur getur ráðherra að ósk formanns samkeppnisráðs skipað mann í ráðið til að taka þátt í umfjöllun þess um málið.

7. gr.

     Samkeppnisráði til ráðgjafar er fastanefnd, skipuð þremur mönnum.
     Nefnist hún auglýsinganefnd og skal fjalla um auglýsingar og gæta þess að þær veiti ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar og brjóti ekki að öðru leyti í bága við ákvæði 21. og 22. gr. laga þessara.
     Nefndin skal skipuð af ráðherra og skal formaður og varamaður hans vera úr hópi aðal- og varamanna í samkeppnisráði samkvæmt ákvörðun ráðsins. Aðra nefndarmenn og varamenn þeirra skipar ráðherra að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila er hlut eiga að máli, þar með talin samtök neytenda. Skipunartími nefndarmanna fellur niður um leið og skipunartíma samkeppnisráðs lýkur.
     Ráðherra setur nánari starfsreglur fyrir nefndina og gerir hún tillögur um afgreiðslu mála til samkeppnisráðs.

8. gr.

     Samkeppnisstofnun undirbýr mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og ráðgjafarnefndir þess og annast dagleg störf ráðsins. Stofnuninni er jafnframt heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál. Skulu slíkar ákvarðanir lagðar fyrir samkeppnisráð á næsta fundi ráðsins og skal ráðið taka afstöðu til ákvörðunarinnar innan sex vikna ella fellur hún úr gildi. Samkeppnisráð getur falið Samkeppnisstofnun ákvörðunarvald sitt á afmörkuðum sviðum samkvæmt nánari reglum sem ráðið setur.
     Ráðherra skipar forstjóra Samkeppnisstofnunar til sex ára að fenginni umsögn samkeppnisráðs og stjórnar hann rekstri hennar. Forstjóri eða staðgengill hans sitja fundi samkeppnisráðs með málfrelsi og tillögurétti.

9. gr.

     Ákvörðunum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar má áfrýja til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Úrskurður áfrýjunarnefndar skal liggja fyrir innan sex vikna frá áfrýjun. Áfrýjun frestar ekki gildistöku ákvarðana samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar.
     Í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sitja þrír menn og jafnmargir til vara, skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varamaður hans, sem jafnframt er varaformaður, skulu uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu á sviði samkeppnis- og viðskiptamála.
     Skipunartími áfrýjunarnefndar er hinn sami og skipunartími samkeppnisráðs.

IV. KAFLI
Bann við samkeppnishömlum.

10. gr.

     Samningar og samþykktir, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja á sama sölustigi eru bannaðar þegar þær lúta að eða er ætlað að hafa áhrif á:
  1. verð, afslætti eða álagningu,
  2. skiptingu markaða eftir svæðum, eftir viðskiptavinum eða eftir sölu og magni,
  3. gerð tilboða.

     Samvinna á sama sölustigi um leiðsögn við útreikning á verði, afslætti og álagningu er bönnuð.

11. gr.

     Óheimilt er að ákveða eða semja um eða á annan hátt að hafa áhrif á verð, afslætti eða álagningu er gilda skal við endursölu vöru á næsta sölustigi. Bannið nær einnig til leiðsagnar um útreikning á verði, afslætti og álagningu.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur seljandi gefið upp leiðbeinandi endursöluverð, enda láti hann koma skýrt fram í tilkynningum sínum að verðið sé leiðbeinandi. Jafnframt getur seljandi með heimild Samkeppnisstofnunar ákveðið hámarksverð sem endurseljandi getur notað við verðlagningu á vörum, enda komi skýrt fram í öllum tilkynningum seljanda að um hámarksverð sé að ræða. Þess skal gætt að ákvörðun um hámarksverð takmarki ekki óhæfilega svigrúm til álagningar á endursölustigi og valdi ekki hærra verði. Seljanda ber að tilkynna endurseljanda í hverju tilviki að honum sé frjálst að selja vöruna á verði sem sé lægra en hámarksverðið.

12. gr.

     Samtökum fyrirtækja er óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 17.–19. gr.
     Bann þetta nær einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna.

13. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 10., 11. og 12. gr. geta fyrirtæki gert með sér samninga eða haft með sér samvinnu enda þótt það leiði til takmörkunar á samkeppni ef takmörkunin hefur að mati samkeppnisráðs aðeins lítil áhrif á þann markað sem um er að ræða. Ákvæðin eru heldur ekki til fyrirstöðu samvinnu milli lítilla fyrirtækja ef samvinnan styrkir stöðu þeirra gagnvart stærri fyrirtækjum í sömu grein.
     Óski fyrirtæki eða samtök fyrirtækja eftir því að fá skýra afstöðu Samkeppnisstofnunar til þess hvort samningar eða samvinna þeirra falli undir ákvæði 1. mgr. geta þau sent tilkynningu þar að lútandi til stofnunarinnar. Geri stofnunin ekki athugasemd við tilkynninguna innan tveggja mánaða frá móttöku hennar telst samkomulagið falla undir 1. mgr. Gildir það í þrjú ár frá því að tveggja mánaða fresturinn er liðinn.

14. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 10. og 11. gr. geta móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki í sömu grein eða fyrirtæki innan sömu fyrirtækjasamstæðu gert með sér samninga eða haft með sér samvinnu enda þótt af því leiði takmörkun samkeppni.
     Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.

15. gr.

     Bannákvæði skv. a- og b-liðum 1. mgr. 10. gr., sbr. 2. mgr. sömu greinar, tekur ekki til samninga og samþykkta um samkeppnishömlur sem rétthafi og nytjaleyfishafi hafa gert sín á milli um rétt til að nota skráð einkaleyfi eða mynstur á sviði iðnaðar.

16. gr.

     Samkeppnisráð getur veitt undanþágu frá bannákvæðunum í 10., 11. og 12. gr. Skilyrði slíkrar undanþágu eru að:
  1. samkeppni aukist á þeim markaði sem um ræðir,
  2. vænta megi að jákvæð áhrif samkeppnishamlna vegi þyngra en ókostir þeirra við þær aðstæður sem um er að ræða,
  3. sérstakar ástæður séu fyrir hendi er varða almannaheill.

     Undanþágur samkvæmt þessari grein mega ekki hamla samkeppni meira en nauðsynlegt er og geta þær bæði verið ótímabundnar eða veittar tímabundið. Hægt er að setja frekari skilyrði fyrir undanþágu.

V. KAFLI
Eftirlit með samkeppnishömlum.

17. gr.

     Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum, athöfnum og aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í:
  1. að fyrirtæki nái, viðhaldi eða styrki markaðsráðandi stöðu sína á þeim markaði sem um ræðir,
  2. óhagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, t.d. vegna þess að valkostum viðskiptavina fækkar, framleiðsla og sala verður dýrari og keppinautar útilokast frá markaðnum,
  3. óhæfilegri notkun á kaupbæti.

     Íhlutun getur falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Íhlutun getur m.a. falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa, enda verði að mati samkeppnisráðs ekki með öðru móti komið í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni í viðkomandi grein.

18. gr.

     Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki leiði til markaðsyfirráða þess, dragi verulega úr samkeppni og sé andstæð markmiði laga þessara getur ráðið ógilt samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Samkeppnisráð getur einnig sett slíkum samruna eða yfirtöku skilyrði sem verður að uppfylla innan tilskilins tíma. Sama á við ef eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki þannig að slíkt valdi markaðsyfirráðum, hamli samkeppni og brjóti í bága við markmið laganna. Við mat á lögmæti samruna eða yfirtöku skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis.
     Ákvörðun um ógildingu skal taka eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samkeppnisyfirvöldum varð kunnugt um samrunann eða yfirtökuna.
     Aðilar, sem hyggja á samruna eða yfirtöku, geta leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn eða yfirtakan brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. Hafi samkeppnisráð ekki svarað slíkri fyrirspurn innan sex vikna frá því að samkeppnisyfirvöldum barst hún verður samruninn eða yfirtakan ekki ógilt nema samkeppnisráð hafi verið leynt upplýsingum sem máli skiptu við mat ráðsins á lögmæti athafnarinnar.
     Ákvæði 3. mgr. ná einnig til þess þegar eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki hyggjast ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki og óska eftir vitneskju um hvort slíkt brjóti gegn 1. mgr.

19. gr.

     Ef samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun telur að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laga þessara og torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum skal vekja athygli ráðherra á því áliti. Slíkt álit skal einnig birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.

VI. KAFLI
Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

20. gr.

     Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.

21. gr.

     Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir fallnar til að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lög þessi taka til.
     Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.

22. gr.

     Auglýsingar, sem höfða eiga til íslenskra neytenda, skulu vera á íslenskri tungu.
     Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.
     Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim.
     Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.
     Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.

23. gr.

     Nú er vara, þjónusta eða annað það sem í té er látið og lög þessi taka til þannig úr garði gert að leiðbeininga er þörf við mat á eiginleikum þess, t.d. notagildi og endingu, svo og meðferð og hættu sem af vöru eða öðru getur stafað og ber þá að veita fullnægjandi leiðbeiningar þegar tilboð er gefið, samningur gerður eða eftir atvikum við afhendingu. Leiðbeiningarnar skulu miðaðar við tegund og gerð viðkomandi vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið.
     Skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða þjónustu sína á íslenskum markaði, t.d. flutnings- og vátryggingaskilmálar, skulu undantekningarlaust vera á íslensku.

24. gr.

     Yfirlýsingu um ábyrgð má því aðeins gefa að ábyrgðaryfirlýsingin veiti viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum.

25. gr.

     Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.

26. gr.

     Í atvinnustarfsemi er óheimilt að hafa áhrif á starfsmann annars aðila eða þann sem kemur fram á hans vegum með gjöfum eða öðrum hlunnindum eða loforðum um slíkt sé það gert án vitundar hins síðastnefnda og í þeim tilgangi að afla gefandanum eða öðrum forréttinda í viðskiptum eða hlunninda fram yfir aðra, enda sé gjöfin eða hlunnindin fallin til þess.
     Nú eru gjafir gefnar eða hlunnindi veitt eftir að brotið hefur verið gegn starfsskyldum á þann hátt sem greinir í 1. mgr. og eiga þá ákvæði 1. mgr. við ef telja verður ávinninginn óhæfilega umbun.

27. gr.

     Óheimilt er í atvinnustarfsemi er lög þessi taka til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.
     Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.
     Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.
     Nú hefur upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli verið aflað á þann hátt að brotið hefur verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr. og er þá þeim sem brotlegur er eða þeim sem fengið hafa upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.

28. gr.

     Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða.
     Þess skal gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.

29. gr.

     Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum, alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
     Við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lög þessi taka til er óheimilt að nota í heimildarleysi íslenska ríkisskjaldarmerkið, íslensk byggðamerki, svo og erlend ríkis- eða byggðamerki.
     Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum, skjaldarmerki íslenska ríkisins eða öðrum hliðstæðum, þjóðlegum auðkennum eða skírskota til þeirra á annan hátt.

30. gr.

     Samkeppnisráð getur sett nánari reglur til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar séu villandi eða óhæfilegar gagnvart neytendum svo og almennar reglur um beitingu 20.–23. gr. Samkeppnisstofnun skal eftir því sem kostur er ráðgast við hluteigandi aðila eða samtök þeirra áður en slíkar reglur eru settar.

VII. KAFLI
Eftirlit með gagnsæi markaðarins.

31. gr.

     Fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, skal merkja vöru sína og þjónustu með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Samkeppnisstofnun getur sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu.

32. gr.

     Samkeppnisstofnun getur gefið fyrirtækjum sérstök fyrirmæli um að gera ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði. Fyrirmælin geta falist í skyldu til að tilgreina verð, viðskiptakjör, gæði og aðra eiginleika og hvernig vara skal mæld, vegin og flokkuð. Samkeppnisstofnun getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

33. gr.

     Við framkvæmd þessara laga getur Samkeppnisstofnun birt opinberlega upplýsingar um samninga, skilmála og athafnir sem hafa eða er ætlað að hafa þau áhrif að hamla samkeppni.
     Tillit skal þó tekið til réttmætra hagsmuna fyrirtækja til að halda leyndum viðskiptalegum og tæknilegum upplýsingum.

34. gr.

     Í því skyni að stuðla að og efla virka samkeppni aflar Samkeppnisstofnun upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birtir niðurstöður, eftir því sem ástæða þykir til. Samkeppnisráð skal setja Samkeppnisstofnun verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu.

VIII. KAFLI
Eftirlit með greiðslukortastarfsemi.

35. gr.

     Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð skulu hafa eftirlit með greiðslukortastarfsemi. Skal þess gætt að viðskiptahættir séu sambærilegir hér við það sem almennt gerist í helstu viðskiptaríkjum Íslendinga.

36. gr.

     Útgefendur greiðslukorta skulu tilkynna slíka útgáfu til Samkeppnisstofnunar og heldur hún skrá yfir þá. Sama gildir um umboðsmenn erlendra greiðslukortafyrirtækja sem reka greiðslumiðlun með notkun greiðslukorta hér á landi.

37. gr.

     Kortaútgefendum er skylt að veita Samkeppnisstofnun upplýsingar um viðskiptaskilmála sína gagnvart korthöfum og greiðsluviðtakendum. Skulu kortaútgefendur birta gjaldskrár sínar opinberlega ef Samkeppnisstofnun krefst þess.
     Telji samkeppnisráð að viðskiptaskilmálar kortaútgefenda feli í sér óréttmæt skilyrði sem aðeins taki mið af eigin hagsmunum eða komi illa niður á hagsmunum korthafa eða greiðsluviðtakenda og séu ekki í samræmi við ákvæði 35. gr. getur það lagt bann við slíkum skilmálum og lagt fyrir kortaútgefanda að breyta viðskiptaháttum sínum.

IX. KAFLI
Verðstöðvun.

38. gr.

     Ef neyðarástand skapast af óvæntum eða utanaðkomandi aðstæðum, svo sem vegna náttúruhamfara, styrjaldarástands eða óvenjulegra verðsveiflna á innlendum og erlendum mörkuðum, getur ríkisstjórnin ákveðið verðstöðvun, hámarksverð og hámarksálagningu eða aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör. Samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun skulu annast eftirlit með framkvæmd slíkra ákvarðana.
     Aðgerðir skv. 1. mgr. geta staðið allt að þrjá mánuði.

X. KAFLI
Upplýsingaskylda.

39. gr.

     Samkeppnisstofnun getur krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja, sem lög þessi taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Samkeppnisstofnun getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Samkeppnisstofnun getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
     Samkeppnisstofnun getur einnig lagt skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr., að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara. Samkeppnisstofnun getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

40. gr.

     Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.
     Við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

XI. KAFLI
Um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl. samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

41. gr.

     Skylt er þeim sem um er beðinn að veita eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þessum stofnunum er nauðsynlegt að afla sér til að unnt sé að framkvæma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning EFTA-ríkja um eftirlitsstofnun og dómstól að því er varðar samkeppnismál. Sama gildir um framkvæmd fyrirmæla sem gefin eru með heimild í 48. gr.
     Samkeppnisstofnun getur krafist sömu upplýsinga og um getur í 1. mgr. og getur hún sett skilafrest í því sambandi.

42. gr.

     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum á sama hátt og Samkeppnisstofnun enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 4 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni.
     Fulltrúum eftirlitsstofnunar EFTA og fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, er heimilt að vera viðstaddir og taka þátt í vettvangsrannsóknum sem Samkeppnisstofnun framkvæmir innan þeirra marka sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fylgisamningar hans setja. Sama gildir um rétt fulltrúa Samkeppnisstofnunar og framkvæmdastjórnar EB þegar eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir vettvangsrannsóknir hér á landi.
     Ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppnisstofnunar þess efnis að vettvangsrannsókn skuli fara fram má fullnægja með aðfarargerð.

43. gr.

     Lögmælt þagnarskylda íslenskra yfirvalda skal ekki vera því til fyrirstöðu að þau gefi eftirlitsstofnun EFTA eða fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd samkeppnisreglna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

44. gr.

     Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á 53., 54. eða 57. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, svo og á ákvæðum bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls eða á reglum sem settar eru með heimild í 48. gr. þessara laga.
     Sama gildir um framkvæmdastjórn EB og dómstól EB í þeim tilvikum sem þessir aðilar fara með lögsögu máls samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Sömu aðilar geta einnig lagt á févíti til að tryggja að farið verði eftir ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli samkeppnisreglnanna, sbr. ákvæði 1. mgr.
     Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt framanskráðu eru aðfararhæfar.

45. gr.

     Ákvæði í 1.–3. gr. í bókun 25 við EES-samninginn um samkeppni varðandi verslun með kol og stál skulu hafa lagagildi hér á landi.

46. gr.

     Hafi ríkisaðstoð, sem 61. gr. EES-samningsins tekur til, verið tilkynnt eftirlitsstofnun EFTA geta íslensk stjórnvöld ekki úrskurðað um það hvort aðstoðin sé í samræmi við leyfilegan opinberan fjárhagsstuðning fyrr en eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt um álit sitt á málinu. Sama gildir um fjárhagsaðstoð úr sveitarsjóði sem fallið getur undir 61. gr. samningsins.

47. gr.

     Sveitarfélag, sem hyggst veita fyrirtæki aðstoð af því tagi sem um getur í 61. gr. EES-samningsins, skal tilkynna Samkeppnisstofnun um hina fyrirhuguðu aðstoð.
     Telji eftirlitsstofnun EFTA að aðstoð, sem sveitarstjórn hefur tekið ákvörðun um að veita, brjóti gegn 61. gr. EES-samningsins skal Samkeppnisstofnun tilkynna það sveitarstjórn. Samkeppnisráð getur fylgt eftir framkvæmd slíks úrskurðar með álagningu févítis, sbr. 3. mgr. 44. gr.
     Verði að afturkalla ákvörðun um ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning úr opinberum sjóðum vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skapar það sveitarfélagi eða ríkissjóði ekki skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni.

48. gr.

     Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn samkeppnisráðs að setja reglugerð um nánari framkvæmd samkeppnisreglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Ráðherra er einnig heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi.

XII. KAFLI
Almenn ákvæði.

49. gr.

     Samningar, sem brjóta í bága við bannákvæði laga þessara, eru ógildir.
     Samningsákvæði, sem teljast hafa efnislegt og efnanlegt sjálfstæði frá þeim ákvæðum sem brutu í bága við bannákvæði laga þessara, teljast þó gild. Ágreiningi varðandi þetta atriði má skjóta til samkeppnisráðs innan mánaðar frá því að samningur var ógiltur skv. 1. mgr.

50. gr.

     Þeim sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Enginn má af hálfu stjórnvalda taka þátt í úrlausn máls er lög þessi ná til ef hann hefur þar persónulegra hagsmuna að gæta. Viðkomandi stjórnvald sker úr um vafaatriði sem upp kunna að koma í því sambandi.

XIII. KAFLI
Viðurlög.

51. gr.

     Samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 20., 21. og 22. gr. laga þessara. Banni má fylgja ákvörðun um dagsektir sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið. Dagsektir geta numið frá 50 þúsundum til 500 þúsunda króna á dag.
     Áður en til banns kemur skv. 1. mgr. getur Samkeppnisstofnun lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem bann skv. 1. mgr.

52. gr.

     Samkeppnisráð getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn bannákvæðum laga þessara eða ákvörðunum sem teknar hafa verið samkvæmt þeim, sbr. IV. og V. kafla laga þessara, nema brotið teljist óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni. Við ákvörðun sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi samkeppnishamlna og hvað þær hafa staðið lengi. Sektirnar renna til ríkissjóðs.
     Við ákvörðun stjórnvaldssekta skv. 1. mgr. skal tekið tillit til þess skaða sem samkeppnishömlurnar hafa valdið og þess ávinnings sem þær hafa haft í för með sér. Sektir geta numið frá 50 þúsundum til 40 milljóna króna, en þó allt að 10% af veltu sl. almanaksárs af þeirri starfsemi sem í hlut á hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að samkeppnishömlunum ef sannanlegur ábati þeirra af broti gegn samkeppnisreglum laga þessara hefur numið hærri fjárhæð en 40 milljónum króna.
     Ákvörðun samkeppnisráðs um sektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

53. gr.

     Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur samkeppnisráð ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

54. gr.

     Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.

55. gr.

     Ákvörðun samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.

56. gr.

     Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðun áfrýjunarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt honum.

57. gr.

     Brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt refsivist ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
     Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
     Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

58. gr.

     Ákvarðanir Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs um að leggja stjórnvaldssektir eða dagsektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, sbr. 39., 40. og 41. gr., eða mæla fyrir um ógildingu á samruna fyrirtækja, sbr. 18. gr., eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður.
     Málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir.
     Við aðför samkvæmt ákvörðunum Samkeppnisstofnunar, samkeppnisráðs eða áfrýjunarnefndar skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fara skv. 13. kafla aðfararlaga.

XIV. KAFLI
Gildistaka og ákvæði til bráðabirgða.

59. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. mars 1993, nema XI. kafli laganna sem öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með áorðnum breyt-ingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við gildistöku laga þessara skal gefa starfsmönnum Verðlagsstofnunar kost á sambærilegu starfi hjá Samkeppnisstofnun og skal 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki eiga við í því tilviki.
     Ákvæði um tímabundna ráðningu forstjóra Samkeppnisstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. gildir ekki um ráðningu þess einstaklings sem skipaður er í starf verðlagsstjóra við gildistöku laga þessara og tekur hann við starfi forstjóra Samkeppnisstofnunar ef hann svo kýs.
     Um leið og lög þessi ganga í gildi hættir störfum það verðlagsráð sem skipað var af viðskiptaráðherra 1. nóvember 1991. Þær ákvarðanir verðlagsráðs, sem í gildi eru þegar lög þessi koma til framkvæmda, skulu þó gilda áfram þar til samkeppnisráð ákveður annað.

II.
     Samkeppnisráð skal á árunum 1993 og 1994 gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum.
     Samkeppnisráð skal skila niðurstöðum sínum til viðskiptaráðherra er síðan leggi þær fyrir Alþingi í skýrslu.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1993.