Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1194, 128. löggjafarþing 518. mál: verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 30 20. mars 2003.

Lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
     Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
     Viðtaka fjár frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu er einungis heimil verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum.

2. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Verðbréfasjóður: sjóður með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu, stofnaður og rekinn af rekstrarfélagi, sem gefur út hlutdeildarskírteini sem eru innleysanleg að kröfu eigenda af eignum sjóðsins.
  2. Fjárfestingarsjóður: sjóður með starfsleyfi án heimildar til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu og gefur út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf.
  3. Rekstrarfélag: rekstrarfélag verðbréfasjóðs, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem rekur verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði skv. II. og III. kafla laga þessara og aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu.
  4. Vörslufyrirtæki: fjármálafyrirtæki, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem uppfyllir skilyrði II. kafla C laga þessara.
  5. Fjármálagerningur: fjármálagerningur samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
  6. Hlutdeildarskírteini: fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Eigendur hlutdeildarskírteina eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína.
  7. Fagfjárfestir: fagfjárfestir samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.


3. gr.

Heimildir til að hefja starfsemi og skrá yfir sjóði.
     Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum staðfestingu skv. II. kafla og fjárfestingarsjóðum staðfestingu eða starfsleyfi skv. III. kafla. Fjármálaeftirlitið úrskurðar um hvort starfsemi fellur undir lög þessi.
     Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um viðkomandi sjóði. Breytingar á áður skráðum upplýsingum skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu fyrir fram.

4. gr.

Aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu.
     Rekstrarfélögum er heimilt að stofna sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem ekki veita viðtöku fé frá almenningi (fagfjárfestasjóði) og gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Rekstrarfélög skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stofnun sjóða samkvæmt þessari grein. Sjóðir samkvæmt þessari grein lúta ekki eftirliti samkvæmt þessum lögum.
     Rekstrarfélög skulu setja fjárfestingarstefnu fyrir sjóði samkvæmt þessari grein og skal hún vera fjárfestum aðgengileg. Um upplýsingagjöf fer að öðru leyti eftir samningi rekstrarfélags og fjárfestis.
     Ákvæði 23.–25. gr. um hlutdeildarskírteini gilda um sjóði samkvæmt þessari grein.

II. KAFLI
Verðbréfasjóðir.
A. Staðfesting og afturköllun staðfestingar.

5. gr.

Veitandi staðfestingar.
     Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum staðfestingu. Heimilt er að hefja starfsemi þegar staðfesting er fengin frá Fjármálaeftirlitinu. Óheimilt er að starfrækja verðbréfasjóð án staðfestingar Fjármálaeftirlitsins.
     Óheimilt er að breyta verðbréfasjóðum samkvæmt lögum þessum í sjóði sem lögin taka ekki til.
     Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum því aðeins staðfestingu að rekstrarfélög og vörslufyrirtæki þeirra uppfylli skilyrði laga um fjármálafyrirtæki.

6. gr.

Umsókn um staðfestingu.
     Umsókn rekstrarfélags um staðfestingu verðbréfasjóðs skal vera skrifleg og henni skulu fylgja reglur sjóðsins skv. 12. gr., útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skv. II. kafla H laga þessara, upplýsingar um stjórnendur verðbréfasjóðs og aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

7. gr.

Veiting staðfestingar.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu staðfestingar skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en einum mánuði eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
     Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um staðfestingu verðbréfasjóða í Lögbirtingablaði.

8. gr.

Synjun um staðfestingu.
     Fullnægi umsókn ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um staðfestingu.
     Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og skal hún tilkynnt umsækjanda innan eins mánaðar frá móttöku fullbúinnar umsóknar.

9. gr.

Afturköllun staðfestingar.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað staðfestingu verðbréfasjóðs:
  1. hafi rekstrarfélag brotið með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim,
  2. hafi rekstrarfélag ekki nýtt heimild til starfsemi verðbréfasjóðs innan tólf mánaða frá því að hún var veitt, henni ótvírætt afsalað eða starfsemi sjóðs hætt í meira en sex mánuði samfellt,
  3. hafi sjóðurinn ekki yfir að ráða minnst 50 milljónum króna þremur mánuðum eftir veitingu staðfestingarinnar eða minnst 10 milljónum króna sem skiptast á að minnsta kosti 50 aðila þannig að hlutur hvers þeirra nemi minnst 10 þúsund krónum.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1.–2. tölul. 1. mgr. skal veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.

10. gr.

Tilkynning um afturköllun.
     Afturköllun á staðfestingu verðbréfasjóðs skal tilkynnt stjórn rekstrarfélags og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Starfræki rekstrarfélag útibú verðbréfasjóðs eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynning send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.

B. Stofnun og starfsemi.

11. gr.

Heiti.
     Verðbréfasjóðum er einum heimilt að nota í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „verðbréfasjóður“.

12. gr.

Reglur.
     Rekstrarfélag skal setja verðbréfasjóði reglur. Eftirfarandi atriði skulu að minnsta kosti koma þar fram:
  1. Heiti sjóðsins.
  2. Hvort sjóðurinn starfi óskiptur eða í aðgreindum deildum.
  3. Fjárfestingarstefna sjóðsins.
  4. Hvert sé vörslufyrirtæki sjóðsins og ákvæði um hvernig skipt verði um vörslufyrirtæki.
  5. Þóknun rekstrarfélags.
  6. Heimild til markaðssetningar sjóðsins á Íslandi og í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  7. Útgáfa hlutdeildarskírteina og innlausn þeirra.
  8. Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af verðbréfum sjóðsins.
  9. Hvernig reikna skuli út innlausnarvirði hvers hlutar.
  10. Hvernig staðið skuli að samruna sjóðsins við aðra verðbréfasjóði eða samruna deilda sama sjóðs.
  11. Hvernig sjóði eða deild er slitið.

     Breytingar á reglum verðbréfasjóðs öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Breytingin öðlast gildi eigi síðar en þremur mánuðum eftir staðfestingu nema Fjármálaeftirlitið ákveði annað. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna um breytingu í Lögbirtingablaðinu.
     Rekstrarfélag skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs um hverja breytingu á reglum sjóðsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði.

13. gr.

Deildaskipting.
     Heimilt er að verðbréfasjóður sé starfræktur í aðgreindum deildum. Hver sjóðsdeild skal hafa aðgreindan fjárhag innan rekstrarfélags. Ber þá hver deild ábyrgð á sínum skuldbindingum. Þó bera deildir sjóðsins óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra.

14. gr.

Sjóðsmyndun.
     Eignir myndast í verðbréfasjóði með samningi rekstrarfélags við viðskiptavin sem felur því að ávaxta fjármuni sína í tilteknum verðbréfasjóði innan sinna vébanda. Sjóðurinn myndast með afhendingu peninga viðskiptavinar gegn hlutdeildarskírteinum og samanstendur síðan af þeim eignum sem verða til við ráðstöfun þessara peninga til sameiginlegrar fjárfestingar.

15. gr.

Aðskilnaður reksturs og vörslu og óhæði.
     Rekstrarfélag má ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki. Stjórnarmaður í rekstrarfélagi má ekki vera í stjórn vörslufyrirtækis.
     Rekstrarfélög og vörslufyrirtæki skulu vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.

16. gr.

Málshöfðunarréttur.
     Rekstrarfélag getur höfðað mál í eigin nafni fyrir hönd einstakra eigenda hlutdeildarskírteina til ógildingar á skírteinum.

17. gr.

Rekstur verðbréfasjóða.
     Rekstur verðbréfasjóða felst meðal annars í eftirfarandi verkefnum:
  1. Fjárfestingum í samræmi við fjárfestingarstefnu.
  2. Umsýslu.
    1. Bókhalds- og lögfræðiþjónustu.
    2. Þjónustu við viðskiptavini.
    3. Mati á verðmæti verðbréfa og annarra eigna.
    4. Innra eftirliti.
    5. Viðhaldi skrár yfir eigendur hlutdeildarskírteina.
    6. Útreikningi innlausnarvirðis.
    7. Útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina.
    8. Uppgjöri viðskipta.
    9. Vörslu hlutdeildarskírteina og gagna um viðskipti.
  3. Markaðssetningu.


18. gr.

Útvistun verkefna rekstrarfélags.
     Rekstrarfélagi er heimilt að fela öðrum aðilum verkefni þau sem kveðið er á um í 17. gr. að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Rekstrarfélagi er þó aldrei heimilt að útvista öll verkefni skv. 17. gr. Verkefni skv. 1. tölul. 17. gr. er ekki heimilt að fela vörslufyrirtæki eða öðru félagi fari hagsmunir þess ekki saman við hagsmuni rekstrarfélags og eigenda hlutdeildarskírteina.
     Nú felur rekstrarfélag öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum skv. 17. gr. og hefur það engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina.
     Í reglugerð skal setja nánari reglur um útvistun verkefna rekstrarfélaga.

19. gr.

Góðir viðskiptahættir og venjur.
     Rekstrarfélag skal starfrækja verðbréfasjóð í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.

C. Vörslufyrirtæki.

20. gr.

Starfsemi vörslufyrirtækis.
     Umsjá og varðveisla fjármálagerninga verðbréfasjóðs skal falin vörslufyrirtæki sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins. Fjármunum verðbréfasjóðs skal haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis. Vörslufyrirtæki skal:
  1. tryggja að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs fari samkvæmt lögum og reglum hlutaðeigandi aðila,
  2. tryggja að innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við lög og reglur hlutaðeigandi aðila,
  3. framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags nema þau séu í andstöðu við lög og samþykktir hlutaðeigandi aðila,
  4. tryggja að í viðskiptum með eignir verðbréfasjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
  5. tryggja að tekjum verðbréfasjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og reglur sjóðsins.


21. gr.

Viðurkenndir aðilar.
     Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og útibú hliðstæðra erlendra fyrirtækja sem starfa hér á landi geta hlotið viðurkenningu sem vörslufyrirtæki.
     Óheimilt er að skipta um vörslufyrirtæki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.

22. gr.

Ábyrgð.
     Vörslufyrirtæki ber ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess skv. 20. gr.
     Vörslufyrirtæki er heimilt að fela öðru fyrirtæki, sem hæft er til að hljóta viðurkenningu skv. 21. gr. eða hefur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki og lýtur sambærilegu eftirliti og félög skv. 21. gr., varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs að hluta eða öllu leyti. Nú felur vörslufyrirtæki öðru fyrirtæki varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs og hefur það engin áhrif á ábyrgð vörslufyrirtækis gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina skv. 1. mgr.

D. Hlutdeildarskírteini.

23. gr.

Útgáfa hlutdeildarskírteina.
     Rekstrarfélag gefur út skilríki fyrir eignarréttindum að verðbréfasjóði í formi hlutdeildarskírteinis, sbr. þó 3. mgr.
     Allir, sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða einstakri deild hans, eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína og eru hlutdeildarskírteinin staðfesting á tilkalli til verðbréfaeignar sjóðsins.
     Rekstrarfélagi er ekki skylt að gefa út hlutdeildarskírteini nema eigendur þeirra óski eftir því.
     Séu hlutdeildarskírteini gefin út sem rafbréf í verðbréfamiðstöð gilda um útgáfuna lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
     Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn eða á safnreikning, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
     Hlutdeildarskírteini eru undanþegin stimpilgjöldum.

24. gr.

Upplýsingar í hlutdeildarskírteini.
     Í hlutdeildarskírteini skulu að minnsta kosti eftirtalin atriði koma fram, sbr. þó 4. og 5. mgr. 23. gr.:
  1. Nafn verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis og rekstrarfélags.
  2. Nafn og kennitala upphaflegs eiganda skírteinis.
  3. Hvernig hlutdeildarskírteini verði innleyst og hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
  4. Nafn og kennitala framsalshafa hafi skírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar þess.

     Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn rekstrarfélags. Nafnritunin má vera prentuð eða sett fram á annan sambærilegan hátt.

25. gr.

Skrá yfir hlutdeildarskírteini.
     Rekstrarfélag skal halda skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina í sjóðnum. Í skránni skulu að minnsta kosti eftirtalin atriði koma fram:
  1. Nafn og kennitala eiganda.
  2. Söludagur skírteinis.
  3. Nafnverð skírteinis.
  4. Heildarfjöldi útistandandi skírteina.

     Tilkynna skal eigendaskipti hlutdeildarskírteina til rekstrarfélags. Slíkar tilkynningar, ásamt öðrum upplýsingum sem berast varðandi eignarhald á skírteinum, skulu færðar inn á skrána og heimildar tilkynningar getið, sbr. þó 4. mgr. 23. gr.

26. gr.

Staðgreiðsla.
     Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir dreifingu jöfnunarbréfa.

E. Innlausn.

27. gr.

Innlausnarskylda.
     Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt nánari ákvæðum reglna verðbréfasjóðsins.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstrarfélagi heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
     Eftirlitsaðilum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs hafa verið sett á markað, skal tilkynnt um frestun innlausna samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

28. gr.

Útreikningur innlausnarvirðis.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum, deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um útreikning á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða og mat á markaðsvirði eigna.

29. gr.

Auglýsing innlausnarvirðis.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða skal reiknað daglega og auglýst opinberlega eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að opinber auglýsing innlausnarvirðis skuli fara fram oftar ef ástæða þykir til.

F. Fjárfestingarheimildir.

30. gr.

Fjármálagerningar og innlán.
     Fjárfestingarheimildir samkvæmt þessum kafla taka til verðbréfasjóðs eða, sé hann deildaskiptur skv. 13. gr., til einstakra deilda hans. Verðbréfasjóði er eingöngu heimilt að binda fé sitt í:
  1. Verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem skráð hafa verið, eða viðskipti eiga sér stað með, á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Með peningamarkaðsskjölum er í lögum þessum átt við greiðsluhæf skjöl sem verslað er með á peningamarkaði og ætíð er hægt að meta til verðs.
  2. Nýútgefnum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.
  3. Hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða. Einnig er heimilt að fjárfesta í skírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sýni verðbréfasjóðir fram á með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að sjóðirnir búi við sambærilegt eftirlit og verðbréfasjóðir, samstarf Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda heimaríkis sjóðsins sé tryggt með fullnægjandi hætti, vernd eigenda skírteina sé tryggð með sambærilegum hætti og í verðbréfasjóðum og gefin sé út ársskýrsla og árshlutauppgjör að minnsta kosti á sex mánaða fresti. Óheimilt er að fjárfesta í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta, samkvæmt reglum sínum, meira en 10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða eða hlutdeildarskírteinum eða hlutabréfum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
  4. Innlánum fjármálafyrirtækja sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þó er verðbréfasjóði heimilt að binda fé í innlánum fjármálafyrirtækja með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins sýni hann fram á með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að fjármálafyrirtækin búi við sambærilegar reglur um áhættu og eftirlit og gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Innlán samkvæmt þessum tölulið verða að vera endurgreiðanleg að kröfu innlánseiganda með að hámarki tólf mánaða binditíma.
  5. Afleiðum sem skráðar eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Viðmið afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins.
  6. Afleiðum utan skipulegra verðbréfamarkaða. Viðmið afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins. Gagnaðilar verðbréfasjóða í slíkum afleiðuviðskiptum skulu lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Verðmæti slíkra samninga skal vera unnt að reikna daglega. Tryggt skal að hægt sé að selja slíka samninga samdægurs á raunvirði hverju sinni.
  7. Peningamarkaðsskjölum sem viðskipti eru með utan skipulegra verðbréfamarkaða.


31. gr.

Aðrar eignir.
     Þrátt fyrir ákvæði 30. gr. er verðbréfasjóði heimilt að binda sem svarar allt að 10% af eignum sínum í öðrum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum en þar getur.
     Verðbréfasjóði er heimilt að eiga reiðufé eða auðseljanlegar eignir til skamms tíma. Slíkar eignir mega þó ekki vera hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins.

32. gr.

Yfirtaka eigna og eðalmálmar.
     Verðbréfasjóði er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en innan átján mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta í eðalmálmum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

33. gr.

Eftirlit með áhættu.
     Rekstrarfélög skulu hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem gerir þeim kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns verðbréfasjóða á hverjum tíma.

34. gr.

Afleiðuviðskipti.
     Verðbréfasjóði er ávallt skylt að eiga hæfilegar og nægjanlega verðmætar eignir á móti metnu hámarkstapi af afleiðu. Til grundvallar slíku mati skal taka mið af verðmæti undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, ytri aðstæðum á fjármálamörkuðum og tíma til að loka afleiðu.
     Verðbréfasjóði er heimilt að eiga viðskipti með afleiður svo fremi sem undirliggjandi eignir séu undir þeim mörkum sem um getur í 35. gr. Eftirlitskerfi skv. 33. gr. skal meta með fullnægjandi hætti virði afleiðna utan skipulegra verðbréfamarkaða.
     Verðbréfasjóðir skulu gera Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir afleiðuviðskiptum sínum í því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

35. gr.

Hámark fjárfestingar í einum útgefanda.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að binda meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda, eða binda meira en 20% af eignum sínum í innlánum sama fjármálafyrirtækis.
     Verðbréfasjóði er ekki heimilt að eiga viðskipti með afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða við sama aðila þar sem mótaðilaáhætta af samningnum nemur meira en 5% af eignum sjóðsins. Þetta hlutfall hækkar í 10% ef mótaðili er fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða fjármálafyrirtæki með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt.
     Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda skal samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum sjóðsins. Við útreikning samtölu skal ekki litið til innlána hjá fjármálafyrirtæki eða afleiðna sem gerðar eru utan skipulegra verðbréfamarkaða þegar mótaðili er fjármálafyrirtæki sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. má heildarfjárfesting í viðskiptum við sama aðila, í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, innlánum og afleiðusamningum utan skipulegra verðbréfamarkaða, samtals ekki fara yfir 20% af eignum sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði heimilt að binda allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast. Ekki skal tekið tillit til verðbréfa samkvæmt þessari málsgrein þegar fundin er samtala fjárfestinga skv. 3. mgr.
     Takmarkanir samkvæmt þessari grein má ekki leggja saman. Því er verðbréfasjóði óheimilt að binda meira en 35% af eignum sínum í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, innlánum eða afleiðum sama útgefanda. Aðilar sem teljast til sömu samstæðu skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein.

36. gr.

Vísitölusjóðir.
     Verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta allt að 20% í hlutabréfum eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu samkvæmt reglum sjóðsins er að líkja eftir tiltekinni hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu. Vísitalan skal hafa fullnægjandi áhættudreifingu, birt opinberlega og endurspegla viðkomandi markað með fullnægjandi hætti.
     Fjármálaeftirlitið getur hækkað heimild skv. 1. mgr. í 35% ef vægi eins útgefanda í vísitölunni er meira en 20%. Fjárfesting yfir 20% er aðeins leyfð í einum útgefanda.

37. gr.

Traust verðbréf.
     Fjármálaeftirlitið getur heimilað verðbréfasjóði að binda allt að 100% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum skv. 5. mgr. 35. gr. telji Fjármálaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
     Fjárfestingar verðbréfasjóðs skv. 1. mgr. skulu dreifast á að minnsta kosti sex mismunandi verðbréfaútgáfur og má fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfu ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs.

38. gr.

Fjárfestingar í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu.
     Verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í öðrum verðbréfasjóðum og sjóðum um sameiginlega fjárfestingu (sjóðasjóðir). Þó skal verðbréfasjóður ekki binda meira en 20% af eignum sínum í einstaka verðbréfasjóði eða sjóði um sameiginlega fjárfestingu.
     Heildarfjárfesting verðbréfasjóðs í öðrum sjóðum en verðbréfasjóðum má ekki fara yfir 30% af eignum verðbréfasjóðs.

39. gr.

Takmarkanir á eignasafni.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að eignast meira en:
  1. 10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi.
  2. 10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda verðbréfa.
  3. 25% af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
  4. 10% af peningamarkaðsskjölum einstakra útgefenda.


40. gr.

Lán og ábyrgðir.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra, sbr. þó heimildir skv. 30. gr.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina. Slík lán mega ekki nema meira en svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans.

41. gr.

Skortsala.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að selja fjármálagerninga sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem sala þeirra fer fram.

42. gr.

Ráðstafanir til úrbóta.
     Fari fjárfesting verðbréfasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki í síðasta lagi náð innan sex mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum mælt fyrir um lengri frest enda sé það augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.

G. Markaðssetning utan heimalands.

43. gr.

Markaðssetning verðbréfasjóða með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.
     Erlendur verðbréfasjóður með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins getur markaðssett skírteini sín hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá verðbréfasjóðnum. Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
  1. Yfirlýsing lögbærra eftirlitsaðila í heimaríki verðbréfasjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti settar kröfur í tilskipunum Evrópubandalagsins um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
  2. Reglur verðbréfasjóðsins.
  3. Útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu. Útboðslýsing skal hafa að geyma upplýsingar skv. 6. tölul. þessarar málsgreinar.
  4. Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
  5. Lýsing á framkvæmd fyrirhugaðrar starfsemi eða markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins.
  6. Upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir verðbréfasjóðsins til að tryggja rétt eigenda skírteina til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem sjóðnum er skylt að miðla.

     Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að verðbréfasjóður skv. 1. mgr. hefji markaðssetningu hér á landi ef hann uppfyllir ekki þau skilyrði sem gerð eru til verðbréfasjóða samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eða markaðssetningin stríðir að öðru leyti gegn ákvæðum laga. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja synjun skriflega til verðbréfasjóðsins áður en frestur skv. 1. mgr. rennur út.
     Fjármálaeftirlitið gengur úr skugga um eftirlit með verðbréfasjóðnum í heimaríkinu, starfsheimildir þess og starfsemi.
     Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu þegar tilkynntar Fjármálaeftirlitinu.

44. gr.

Heimild til að banna starfsemi erlendra verðbréfasjóða.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna erlendum verðbréfasjóði að markaðssetja skírteini sín hér á landi hafi hlutaðeigandi verðbréfasjóður brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálafyrirtæki, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot samkvæmt tilmælum eða viðurlögum þessara laga.

45. gr.

Markaðssetning íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands.
     Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð.

H. Upplýsingagjöf.

46. gr.

Ársreikningur og árshlutauppgjör.
     Í ársreikningi og árshlutauppgjörum rekstrarfélags skulu sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóð eða sérhverja deild hans. Í reglugerð skal setja nánari reglur um sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóði í ársreikningum og árshlutauppgjörum. Þá skulu rekstrarfélög senda Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit verðbréfasjóða í því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

47. gr.

Útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu.
     Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu fyrir verðbréfasjóð.
     Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi verðbréfasjóði. Í útdrætti úr útboðslýsingu skal draga fram meginatriði útboðslýsingar.
     Rekstrarfélag skal senda Fjármálaeftirlitinu útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu í kjölfar breytinga á þeim.
     Nánar skal kveðið á um útboðslýsingar og útdrætti úr útboðslýsingum vegna verðbréfasjóða í reglugerð, meðal annars um hvaða upplýsingar skuli birta í útboðslýsingum og útdráttum úr þeim.

48. gr.

Nánari upplýsingar í útboðslýsingu.
     Í útboðslýsingu verðbréfasjóðs skal á ítarlegan hátt lýsa fjárfestingarstefnu sjóðsins og, ef við á, einstakra deilda hans og tilgreina þær tegundir fjárfestinga sem honum eru heimilar samkvæmt reglum sjóðsins.
     Í útboðslýsingu skal tilgreina hvort sjóði, eða einstakri deild hans, er heimilt að fjárfesta í afleiðum, og sé slíkt heimilt, hvort notkun þeirra takmarkist við tækni til að lágmarka áhættu og fastsetja hagnað vegna verðsveiflna.
     Nú er verðbréfasjóði, eða einstakri deild hans, heimilt samkvæmt reglum sjóðsins að fjárfesta í afleiðum og skal þá í útboðslýsingu lýsa á ítarlegan hátt hugsanlegum áhrifum notkunar afleiðna á áhættu fjárfestinga í sjóðnum.
     Fjárfesti verðbréfasjóður, eða einstök deild hans, í öðrum fjármálagerningum en verðbréfum eða peningamarkaðsskjölum skv. 30. gr., eða bindi fé sitt í innlánum, eða sjóði er samkvæmt fjárfestingarstefnu ætlað að líkja eftir tiltekinni verðbréfavísitölu, eða gengi sjóðs er líklegt til þess að sveiflast mikið vegna fjárfestingarstefnu eða tegunda fjárfestingartækifæra sem sjóðurinn fjárfestir í, skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og auglýsingum og allri kynningarstarfsemi um sjóðinn og fjárfestingarstefnu hans.
     Ef bókfært virði eigna verðbréfasjóðs, eða einstakrar deildar hans, er líklegt til að sveiflast mikið vegna samsetningar verðbréfasamvals hans eða aðferða sem beitt er við stjórnun verðbréfasamvals skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og öðrum kynningarritum.
     Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skal í útboðslýsingu hans tilgreina hámarksstjórnunarkostnað sem verðbréfasjóðurinn sjálfur og hinir sjóðirnir skulu bera. Í ársskýrslu verðbréfasjóðsins skal tilgreina hámarkshlutfall stjórnunarkostnaðar sem annars vegar verðbréfasjóðurinn sjálfur og hins vegar hinir sjóðirnir, sem hann fjárfestir í, bera.
     Rekstrarfélagi er skylt að afhenda, óski eigandi hlutdeildarskírteinis í verðbréfasjóði eftir því, upplýsingar um aðferðafræði sjóðsins við áhættustýringu eigna sjóðsins með tilliti til áhættu og væntrar ávöxtunar í fjárfestingum sjóðsins undangengin missiri.

49. gr.

Aðgengi að upplýsingum.
     Útdráttur úr útboðslýsingu skal boðinn fjárfesti endurgjaldslaust áður en viðskiptum með hlutdeildarskírteini er lokið. Útboðslýsing auk ársskýrslu og hálfsársuppgjörs skal vera fjárfesti í verðbréfasjóði aðgengileg endurgjaldslaust.
     Ársreikningur og hálfsársuppgjör skulu vera almenningi aðgengileg með þeim hætti sem kveðið er á um í útboðslýsingu og útdrætti úr útboðslýsingu og Fjármálaeftirlitið samþykkir.
     Reglur verðbréfasjóðs skulu vera aðgengilegar fjárfestum í sjóðnum.

50. gr.

Þóknun.
     Rekstrarfélög skulu kunngera fjárfestum í verðbréfasjóði fyrir fram hvaða þóknun þau muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina með hæfilegum fyrirvara.
     Ef verðbréfasjóður fjárfestir í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem stjórnað er beint eða með umboði af sama rekstrarfélagi, eða öðru félagi sem rekstrarfélagið tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur, eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstrarfélaginu ekki heimilt að taka þóknun fyrir áskrift eða innlausn fyrir fjárfestingu í sjóðunum.

51. gr.

Kynningarstarfsemi.
     Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila. Þess skal gætt að skýrt komi fram hvort sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður.
     Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi skal vísað í útboðslýsingu eða útdrátt úr útboðslýsingu og hvar megi nálgast þau gögn.

III. KAFLI
Fjárfestingarsjóðir.
A. Fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutdeildarskírteini (hlutdeildarskírteinasjóðir).

52. gr.

Tilvísanir í II. kafla.
     Sé fjárfestingarsjóður stofnaður og rekinn af rekstrarfélagi gefur rekstrarfélag út skilríki fyrir eignarréttindum í fjárfestingarsjóði í formi hlutdeildarskírteinis. Um fjárfestingarsjóði samkvæmt þessum kafla gilda ákvæði II. kafla A–D og H.
     Fjárfestingarsjóðum er einum heimilt að nota í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „fjárfestingarsjóður“.

53. gr.

Innlausn.
     Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða samkvæmt þessum kafla eru innlausnarskyld. Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs. Rekstrarfélagi er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðs.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er fjárfestingarsjóðum heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina fjárfestingarsjóða er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðs við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum, deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina.

54. gr.

Fjárfestingarheimildir.
     Ákvæði II. kafla F um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða gilda um fjárfestingar fjárfestingarsjóða með eftirfarandi undantekningum:
  1. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða án tillits til 3. tölul. 30. gr. Þó má heildarfjárfesting fjárfestingarsjóðs í öðrum sjóðum en verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum ekki fara yfir 20% af eignum fjárfestingarsjóðs.
  2. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta í óskráðum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum án tillits til 1. mgr. 31. gr.
  3. Ákvæði 35. gr. gilda ekki um fjárfestingarsjóði samkvæmt þessum kafla. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Þó er heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda enda sé fjárfesting yfir 20% aðeins í einum útgefanda.
  4. Ákvæði 2. mgr. 38. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði.
  5. Ákvæði 2. mgr. 40. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að taka að láni allt að 25% af verðmæti eigna sjóðs.
  6. Ákvæði 41. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Metið hámarkstap af viðskiptum með verðbréf sem fjárfestingarsjóður á ekki í fórum sínum skal ekki nema meiru en 20% af endurmetnu innra virði sjóðsins. Skortsala á óskráðum verðbréfum er óheimil.


55. gr.

Tilkynning um áhættu.
     Rekstrarfélagi ber að greina fjárfestum frá þeirri áhættu sem felst í fjárfestingu í sjóði áður en viðskipti eiga sér stað.

B. Fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf (hlutabréfasjóðir).

56. gr.

Veitandi starfsleyfis.
     Fjármálaeftirlitið veitir hlutabréfasjóðum starfsleyfi. Heimilt er að hefja starfsemi þegar starfsleyfi er fengið frá Fjármálaeftirlitinu. Óheimilt er að starfrækja hlutabréfasjóði án starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins.

57. gr.

Umsókn um starfsleyfi.
     Umsókn hlutabréfasjóðs skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
  1. Upplýsingar um stofnun hlutafélags og staðfesting á fjárhæð innborgaðs hlutafjár.
  2. Samþykktir félags.
  3. Útboðslýsing.
  4. Upplýsingar um starfsskipulag þar sem m.a. komi fram hvernig fyrirhugaðri starfsemi verður sinnt.
  5. Upplýsingar um vörslufyrirtæki, ef við á.
  6. Upplýsingar um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra og endurskoðanda.
  7. Staðfesting á að framkvæmdastjóri hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
  8. Upplýsingar um stofnendur, hluthafa eða stofnfjáreigendur sem hafa yfir að ráða virkum eignarhlut samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki í fyrirhuguðum fjárfestingarsjóði og hlut hvers þeirra um sig.
  9. Upplýsingar um náin tengsl fyrirhugaðs hlutafélags við einstaklinga eða lögaðila í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
  10. Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.


58. gr.

Veiting starfsleyfis.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en einum mánuði eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
     Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um starfsleyfi hlutabréfasjóða í Lögbirtingablaði.

59. gr.

Synjun starfsleyfis.
     Fullnægi umsókn ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um starfsleyfi.
     Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og skal hún tilkynnt umsækjanda innan eins mánaðar frá móttöku fullbúinnar umsóknar.

60. gr.

Afturköllun starfsleyfis.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi hlutabréfasjóðs:
  1. hafi starfsleyfið verið fengið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
  2. séu skilyrði til veitingar starfsleyfis ekki lengur uppfyllt,
  3. sé brotið með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim,
  4. sé starfsleyfið ekki nýtt innan tólf mánaða frá því að það var veitt, því ótvírætt afsalað eða starfsemi hætt í meira en sex mánuði samfellt,
  5. fullnægi hluthafar, stjórnarmenn og stjórnendur ekki hæfisskilyrðum þessa kafla,
  6. hafi sjóðurinn ekki yfir að ráða minnst 50 milljónum króna þremur mánuðum eftir veitingu starfsleyfisins eða minnst 10 milljónum króna sem skiptast á að minnsta kosti 50 aðila þannig að hlutur hvers þeirra nemi minnst 10 þúsund krónum og hljóði á nafn.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. skal veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.

61. gr.

Tilkynning um afturköllun.
     Afturköllun á starfsleyfi hlutabréfasjóðs skal tilkynnt stjórn sjóðsins og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum.

62. gr.

Starfsemi.
     Hlutabréfasjóðum er einungis heimilt að hafa með höndum rekstur fjárfestingarsjóðs.
     Hlutabréfasjóður skal rekinn í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni hluthafa að leiðarljósi.
     Hlutabréfasjóðum er einum heimilt að nota í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „fjárfestingarsjóður“, sbr. þó 2. mgr. 52. gr.
     Hlutabréf hlutabréfasjóða verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs. Ákvæði þetta skal ekki koma í veg fyrir útgáfu jöfnunarbréfa.
     Ákvæði 47.–49. gr. um útboðslýsingar og útdrætti úr útboðslýsingum gilda um hlutabréfasjóði, eftir því sem við getur átt.
     Í samþykktum hlutabréfasjóðs skulu að minnsta kosti eftirtalin atriði koma fram til viðbótar við ákvæði laga um hlutafélög:
  1. Fjárfestingarstefna sjóðsins.
  2. Ákvæði um innlausn, ef við á.
  3. Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af verðbréfum sjóðsins.

     Hlutabréfasjóði er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðsins.

63. gr.

Tilvísanir í lög um fjármálafyrirtæki og lög um verðbréfaviðskipti.
     Stjórn hlutabréfasjóðs skal skipuð eigi færri en þremur mönnum. Um stjórn fjárfestingarsjóðs og þagnarskyldu fer skv. VII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, eftir því sem við á.
     Um eignarhluti og meðferð þeirra fer skv. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
     Framkvæmdastjóri hlutabréfasjóðs skal hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum í samræmi við VII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
     Um ársreikninga og endurskoðun hlutabréfasjóða fer skv. XI. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
     Ákvæði V.–IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti gilda um hlutabréfasjóði.

64. gr.

Tilvísanir í lög um hlutafélög.
     Lög um hlutafélög gilda um hlutabréfasjóði, sbr. þó 62. gr. Þó skulu allir hlutir ætíð hafa jafnan rétt í sjóðnum.

65. gr.

Fjárfestingarheimildir og tilkynning um áhættu.
     Um fjárfestingarheimildir hlutabréfasjóða fer skv. 54. gr. og um tilkynningu um áhættu skv. 55. gr.

IV. KAFLI
Eftirlit og reglugerð.

66. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Skal Fjármálaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum sem lögin taka til og það telur nauðsynleg vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi aðila skv. 1. mgr. brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.

67. gr.

Reglugerð.
     Lög þessi heyra undir viðskiptaráðherra og skal hann kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð. Í reglugerð er meðal annars heimilt að kveða á um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, góða viðskiptahætti, útvistun verkefna rekstrarfélaga, innlausnarvirði, markaðssetningu utan heimalands, heimildir til markaðssetningar annarra sjóða en verðbréfasjóða utan heimalands og upplýsingagjöf verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða. Í reglugerðinni er einnig heimilt að kveða á um notkun afleiðusamninga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og aðferðir til að meta áhrif þeirra á áhættu eignasafns sjóðanna.

V. KAFLI
Viðurlög.

68. gr.

Sektir.
     Það varðar sektum liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
  1. einkarétt verðbréfasjóða til að nota til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið verðbréfasjóður (11. gr.),
  2. útvistun verkefna rekstrarfélags verðbréfasjóðs (1. mgr. 18. gr.),
  3. markaðssetningu íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands (45. gr.),
  4. upplýsingagjöf verðbréfasjóða (II. kafli H),
  5. einkarétt fjárfestingarsjóða til að nota til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið fjárfestingarsjóður (2. mgr. 52. gr. og 3. mgr. 62. gr.),
  6. útvistun verkefna rekstrarfélags fjárfestingarsjóðs (1. mgr. 52. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr.),
  7. upplýsingagjöf fjárfestingarsjóða (1. mgr. 52. gr., sbr. II. kafla H, og 5. mgr. 62. gr.),
  8. tilkynningu um áhættu (55. gr. og 65. gr.) og
  9. virka eignarhluta (2. mgr. 63. gr., sbr. 1. mgr. 40. gr., 47. gr. og 1. mgr. 48. gr. laga um fjármálafyrirtæki).


69. gr.

Sektir eða fangelsi.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
  1. að leyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án staðfestingar eða starfsleyfis (3. mgr. 1. gr.),
  2. breytingu á verðbréfasjóðum í sjóði sem lögin taka ekki til (2. mgr. 5. gr.),
  3. óhæði rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja verðbréfasjóða í störfum sínum og skyldu þeirra til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi (2. mgr. 15. gr.),
  4. starfsemi vörslufyrirtækis verðbréfasjóða (20. gr.),
  5. fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða (II. kafli F),
  6. markaðssetningu verðbréfasjóða hér á landi með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (1. mgr. 43. gr.),
  7. breytingu á fjárfestingarsjóðum í sjóði sem lögin taka ekki til (1. mgr. 52. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr.),
  8. óhæði rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja fjárfestingarsjóða í störfum sínum og skyldu þeirra til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi (1. mgr. 52. gr., sbr. 2. mgr. 15. gr.),
  9. starfsemi vörslufyrirtækis fjárfestingarsjóða (1. mgr. 52. gr., sbr. 20. gr.),
  10. fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða (54. gr. og 65. gr.) og
  11. þagnarskyldu (1. mgr. 63. gr., sbr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki).

     Hver sá sem vísvitandi gefur rangar eða villandi upplýsingar um hagi verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs eða annað er þá varðar opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum.

70. gr.

Refsiábyrgð lögaðila. Tilraun og hlutdeild. Fyrning sakar.
     Nú er brot framið í starfsemi fjárfestingarsjóðs sem gefur út hlutabréf og er þá heimilt að gera fjárfestingarsjóðnum fésekt. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Brot á lögum þessum varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Sök samkvæmt ákvæðum þessa kafla fyrnist á fimm árum.

VI. KAFLI
Gildistaka o.fl.

71. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003. Þá falla úr gildi lög nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

72. gr.

     Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Starfandi verðbréfasjóðir teljast hafa staðfestingu Fjármálaeftirlitsins við gildistöku þessara laga. Verðbréfasjóði skal slitið innan sex mánaða frá gildistöku laganna. Rekstrarfélag verðbréfasjóðs skal senda Fjármálaeftirlitinu reglur sjóðsins skv. 12. gr. innan sama tímamarks.

II.
     Verðbréfasjóðir sem hafa starfsleyfi skv. 27. gr. laga nr. 10/1993 við gildistöku laga þessara skulu óska eftir staðfestingu samkvæmt lögum þessum eigi síðar en þremur mánuðum frá gildistöku þeirra.

III.
     Hlutabréfasjóðir og aðrir sjóðir sem veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar og heyra undir lög þessi skulu óska eftir staðfestingu eða sækja um starfsleyfi samkvæmt lögum þessum eigi síðar en við útgáfu nýs hlutafjár í félaginu. Ákvæði 1. málsl. á þó ekki við ef sjóðurinn er aðeins markaðssettur til fagfjárfesta.
     Sjóðir skv. 1. mgr. sem óska eftir staðfestingu eða sækja um starfsleyfi sem fjárfestingarsjóðir samkvæmt lögum þessum skulu fá frest til 1. júlí 2004 til að uppfylla ákvæði 54. gr.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.