Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1208, 128. löggjafarþing 390. mál: vinnutími sjómanna (EES-reglur).
Lög nr. 31 20. mars 2003.

Lög um breytingu á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna.


I. KAFLI
Breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 2. og 3. mgr. orðast svo:
  2.      Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á skipi nema um skólaskip eða æfingaskip sé að ræða. Samgönguráðherra getur sett reglur um hærra aldurslágmark skipverja við tiltekin störf allt upp að 18 ára aldri.
         Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 18 ára við vinnu á farþegaskipum og flutningaskipum að nóttu til, þ.e. tímabil sem varir í a.m.k. níu samfelldar klukkustundir, þ.m.t. tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða menntun og þjálfun ungra sjómanna 16–18 ára að því er varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir.
  3. 4. mgr. fellur brott.


2. gr.

     64. gr. laganna orðast svo:
Vinnu- og hvíldartími skipverja á fiskiskipum.
     Sérhver skipverji skal eiga rétt á nægilegri hvíld og skal hámarksfjöldi vinnustunda á viku takmarkaður við 48 klukkustundir að meðaltali reiknað yfir viðmiðunartímabil sem ekki er lengra en 12 mánuðir.
     Miða skal við að mörk vinnu- eða hvíldartíma séu annaðhvort:
  1. hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 72 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili, eða
  2. lágmarkshvíldartími sem ekki má vera skemmri en 10 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 77 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri tímabil en tvö og skal annað vara að lágmarki í 6 klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.

     Heimilt er með reglugerð eða í kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna.
     Skipstjóri á fiskiskipi getur ávallt krafist þess að skipverji vinni þann fjölda vinnustunda sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, farms og annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.
     Samgönguráðherra getur sett reglugerð um vinnu- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001.

3. gr.

     Á eftir 7. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 7. gr. A og 7. gr. B, svohljóðandi:
     
     a. (7. gr. A.)
Vinnu- og hvíldartími skipverja á íslenskum farþega- og flutningaskipum.
     Miða skal við að mörk vinnu- eða hvíldartíma séu annaðhvort:
  1. hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 72 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili, eða
  2. lágmarkshvíldartími sem ekki má vera skemmri en 10 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 77 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri tímabil en tvö og skal annað vara að lágmarki í 6 klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.

     Heimilt er með reglugerð eða í kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1. mgr. vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna.
     Skipstjóri á farþegaskipi og flutningaskipi getur ávallt krafist þess að skipverji vinni þann fjölda vinnustunda sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, farms og annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.
     
     b. (7. gr. B.)
Vinnu- og hvíldartími skipverja á erlendum farþega- og flutningaskipum.
     Ákvæði 7. gr. A tekur einnig til erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir.
     Siglingastofnun er heimilt að framkvæma skoðun um borð í erlendum skipum sem fara um íslenskar hafnir til að ganga úr skugga um fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma og skipulag vakta um borð. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga og reglna um hafnarríkiseftirlit. Siglingastofnun skal, ef kvörtun berst sem augljóslega er ekki tilefnislaus eða ef hún fær sannanir um að fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma um borð er ekki í samræmi við lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim, tilkynna skráningarríki skipsins um niðurstöðu skoðunar sem gerð hefur verið. Siglingastofnun Íslands er óheimilt að veita skipstjóra eða eiganda skipsins sem um ræðir neinar upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun.
     Ef skoðun leiðir í ljós að aðbúnaður um borð stofnar öryggi og heilsu áhafnarinnar sannanlega í hættu skal Siglingastofnun gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur eigi sér stað, t.d. með því að leggja farbann á skipið. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerðarmanni skipsins, fánaríki og skráningarríki skipsins. Eigandi eða útgerðarmaður skipsins getur kært farbann til farbannsnefndar sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og frestar kæra ekki áhrifum farbannsákvörðunar.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 2. gr. um vinnu- og hvíldartíma skipverja á fiskiskipum tekur gildi 1. ágúst 2003. Frá þeim tíma falla úr gildi ákvæði laga um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum, nr. 53/1921.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.