Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1441, 128. löggjafarþing 550. mál: aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (vinnutímatilskipun, EES-reglur).
Lög nr. 68 27. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.


1. gr.

     C-liður 2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur“ í 7. gr., 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 17. gr., 1. mgr. 34. gr., 38. gr., 47. gr. og 2. mgr. 95. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

3. gr.

     Á eftir orðunum „og þeirra, sem annast heilbrigðisþjónustu“ í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: og heilsuvernd starfsmanna.

4. gr.

     III. kafli laganna fellur brott.

5. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: XI. kafla um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.

6. gr.

     Við 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nemar og lærlingar teljast einnig til starfsmanna, jafnvel þótt þeir inni af hendi vinnu án endurgjalds, enda sé vinna þeirra liður í skipulögðu námi.

7. gr.

     Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur, þegar sérstaklega stendur á, sett reglur eða tekið ákvarðanir“ í 35. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra getur, þegar sérstaklega stendur á, sett reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

8. gr.

     Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins skal setja nánari reglur“ í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „eða of mikils álags“ í a-lið kemur: eða hvernig dregið verði úr áhrifum andlega eða líkamlega einhæfra starfa og starfa sem unnin eru með fyrir fram ákveðnum hraða.
 2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum.


10. gr.

     Í stað orðanna „skal stjórn Vinnueftirlits ríkisins hlutast til um að“ í 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: skal Vinnueftirlit ríkisins hlutast til um að.

11. gr.

     Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur reglur“ í 40. og 43. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

12. gr.

     Í stað orðanna „setur stjórn Vinnueftirlits ríkisins sérstakar reglur“ í 44. gr. laganna kemur: setur félagsmálaráðherra sérstakar reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

13. gr.

     48. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem uppfyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur, sem sett eru samkvæmt lögum þessum, sérreglum sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um kröfur sem tegund véla, tækja eða annars búnaðar verður að uppfylla til þess að teljast örugg og þær aðferðir sem framleiðandi getur beitt til að sýna fram á samræmi tegundar við settar reglur.

14. gr.

     Á eftir 48. gr. laganna kemur ný grein, 48. gr. a, svohljóðandi:
     Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að banna markaðssetningu og notkun á þeim tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki ákvæðum laga þessara, annarra sérreglna sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Áður en ákvörðun um bann er tekin skal atvinnurekanda, framleiðanda tegundar eða fulltrúa hans, eftir því sem við á, veittur hæfilegur frestur til að bæta úr annmörkum hennar.
     Telji Vinnueftirlit ríkisins tegund véla, tækja eða annars búnaðar sérstaklega hættulega getur það krafist afturköllunar allra eintaka hennar. Framleiðandi eða fulltrúi hans ber allan kostnað af slíkri afturköllun.
     Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi og heilsu fólks eða eigna stafi hætta af einhverri tegund véla, tækja eða annars búnaðar er því heimilt að banna markaðssetningu og notkun hennar tímabundið í allt að fjórar vikur eða setja sérstök skilyrði fyrir markaðssetningu og notkun þótt tegundin uppfylli formskilyrði laga þessara og viðkomandi sérreglna. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu hefja rannsókn á öryggi tegundar án ástæðulauss dráttar. Þá er heimilt að framlengja bannið um allt að fjórar vikur ef sérstakar ástæður vegna rannsóknarinnar krefjast að bannið verði framlengt. Framleiðandi eða fulltrúi hans ber kostnað vegna þeirra sýnishorna tegundar sem eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum.
     Þegar Vinnueftirlit ríkisins hefur bannað tegund skv. 1.–3. mgr. er því heimilt að skylda framleiðendur og dreifingaraðila til að eyðileggja öll eintök tegundar með öruggum hætti eða skylda þá, eftir því sem við getur átt, til að lagfæra tegundina þannig að hún uppfylli settar reglur, afhenda sams konar tegund vélar, tækis eða annars búnaðar eða endurgreiða andvirði hennar.
     Torveldi atvinnurekandi, framleiðandi eða dreifingaraðili sannanlega rannsókn og skoðun Vinnueftirlits ríkisins á viðkomandi tegund eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi hennar er stofnuninni heimilt að banna markaðssetningu og notkun hennar.
     Þegar tegund er ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi eða fulltrúi hans bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur í samráði við forstjóra Vinnueftirlitsins“ í 1. mgr. kemur: sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, og í samráði við forstjóra.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Félagsmálaráðherra setur gjaldskrá, að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skráningu og skoðun farandvéla, farandvinnuvéla, búvéla, lyftna og lyftubúnaðar, rúllustiga, geyma, þrýstihylkja og katla, þar á meðal um aukaskoðun sem þarf að gera ef vanbúnaður kemur í ljós við reglubundna skoðun og aukaskoðun vegna uppsetningar, breytinga eða viðgerða á framangreindum vélum, tækjum eða öðrum búnaði sem eru með gilda reglubundna skoðun.
 4. Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlitsins setur reglur“ í 3. mgr. kemur: Félagsmálaráðherra setur reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.


16. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
     Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur, efnaúrgangur eða spilliefni, þar með talin sprengifim efni, eldfim efni og sprengiefni, eru notuð eða kunna að vera notuð skal atvinnurekandi gæta þess að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum.
     Þegar áhættumat skv. 65. gr. a gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna hættulegs efnis, efnavöru, efnaúrgangs eða spilliefna skal atvinnurekandi sjá til þess að öryggisblöð og skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum ásamt því að kynna starfsmönnum efni þeirra. Í leiðbeiningunum skal koma fram hvaða starfsháttum skuli fylgt þegar slys eða óhapp verður í tengslum við hættuleg efni eða efnavörur.
     Atvinnurekandi skal grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir mengun á vinnustað eða, sé þess ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt. Hann skal ávallt leitast við, með tilliti til eðlis starfseminnar, að nota efni eða efnavöru sem teljast hættulaus eða síður hættuleg heilsu starfsmanna við þær aðstæður sem þau eru notuð.
     Mengun á vinnustað skal ekki fara yfir gildandi mengunarmörk efnis. Þegar mengun stafar frá fleiri en einu efni eða efnavöru skal tekið tillit til samverkandi áhrifa.
     Efni eða efnavara sem stofnar eða getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu skal vera í öruggum umbúðum á vinnustöðum. Hættulegur efnaúrgangur og spilliefni skulu geymd með öruggum hætti á vinnustað.

17. gr.

     51. gr. laganna orðast svo:
     Vinnueftirlit ríkisins gefur út eiturefnaleyfi til einstaklinga og fyrirtækja sem við framkvæmd vinnu nota að staðaldri eiturefni eða efnavöru sem flokkast sem eiturefni að uppfylltum skilyrðum 50. gr. og reglugerðar sem sett er skv. 3. mgr. Í eiturefnaleyfi skal tilgreina þau efni sem leyfið nær til. Þetta ákvæði á ekki við um eiturefnaleyfi fyrir varnarefni, nagdýra- og skordýraeitur. Vinnueftirlit ríkisins skal árlega láta Umhverfisstofnun í té upplýsingar um leyfishafa og um hvaða eiturefni leyfið á við.
     Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að merkingar, notkun, geymsla og flutningur efnis og efnavöru á vinnustöðum fullnægi gildandi lögum, reglum og viðurkenndum stöðlum. Vinnueftirlitinu er heimilt að banna framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og efnavara á vinnustöðum þegar það þykir sýnt að heilsu manna er hætta búin. Sama á við um efni þegar ekki liggja fyrir, að mati stofnunarinnar, fullnægjandi upplýsingar um innihald, samsetningu, meðferð, notkun eða vörslu þeirra.
     Félagsmálaráðherra skal setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og umhverfisráðuneytis, um skilyrði eiturefnaleyfis, mengunarmörk, meðferð, umbúðir, áfyllingu, merkingu, geymslu, flutning efna og efnavöru á vinnustöðum og notkun þeirra sem geta stofnað heilsu starfsmanna í hættu eða leitt til lakari aðbúnaðar á vinnustöðum.

18. gr.

     Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, svohljóðandi:
     Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notuð eða kunna að vera notuð í þeim mæli að við slys geti skapast umfangsmikil hætta fyrir fólk og umhverfi skal atvinnurekandi gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir slík slys. Enn fremur skal atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo að tafarlaust megi draga úr afleiðingum þeirra.
     Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að viðeigandi skilyrðum sé fullnægt og að nauðsynlegar öryggisráðstafanir vegna hættu á slysi, sbr. 1. mgr., hafi verið gerðar.
     Félagsmálaráðherra skal skipa sérstaka fjögurra manna samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði að fengnum tilnefningum frá Brunamálastofnun, Almannavörnum ríkisins, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins.
     Hlutverk nefndarinnar er að tryggja samráð og samstarf hlutaðeigandi stofnana í því skyni að tryggja öryggi starfsmanna, almennings og umhverfis þegar stórslys í iðnaði ber að höndum.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um varnir gegn og viðbrögð við slíkum slysum á vinnustöðum að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og samráðsnefndar um stórslysavarnir í iðnaði.

19. gr.

     IX. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Hvíldartími, frídagar og hámarksvinnutími, orðast svo:
     
     a. (52. gr.)
     Í kafla þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. Vinnutími: Sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.
 2. Hvíldartími: Sá tími sem ekki telst til vinnutíma.
 3. Næturvinnutími: Tímabil sem ekki er skemmra en sjö klukkustundir og skal ná yfir tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Um nánari afmörkun tímabilsins fer samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
 4. Næturvinnustarfsmaður er:
  1. starfsmaður sem venjulega vinnur að minnsta kosti þrjár klukkustundir af daglegum vinnutíma sínum á næturvinnutíma og/eða
  2. starfsmaður sem ætlast er til að inni af hendi tiltekinn hluta af ársvinnuframlagi sínu á næturvinnutíma samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
 5. Vaktavinna: Vinna sem skipt er niður samkvæmt fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.
 6. Vaktavinnustarfsmaður: Starfsmaður sem vinnur vaktavinnu.

     
     b. (52. gr. a.)
     Ákvæði þessa kafla gilda ekki um:
 1. þá sem starfa við flutning á vegum og falla undir reglugerð dómsmálaráðuneytisins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins,
 2. lækna í starfsnámi, sbr. þó 53., 53. gr. a, 54., 57. og 58. gr.,
 3. æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
 4. sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlegri öryggisstarfsemi og brýnum rannsóknarhagsmunum á sviði löggæslu, vinnu sem tengist starfsemi almannavarna og eftirlitsstörfum vegna snjóflóðavarna.

     
     c. (53. gr.)
     Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.
     Með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.
     Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna, svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilunar í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra tilsvarandi ófyrirséðra atburða, að því marki sem nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir verulegt tjón, þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju.
     Sé daglegur hvíldartími styttur skv. 2. eða 3. mgr. skal starfsmaður fá samsvarandi hvíldartíma síðar.
     
     d. (53. gr. a.)
     Starfsmaður á rétt á hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klukkustundir. Um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um hve langt hléið skal vera, fer samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
     
     e. (54. gr.)
     Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma skv. 53. gr.
     Ef sérstök þörf er á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa er heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg má þó ákveða með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum.
     Enn fremur er heimilt að fresta vikulegum frídegi þegar ytri aðstæður, svo sem veður og önnur náttúruöfl, slys, orkuskortur, bilun á vélum, tækjum eða öðrum búnaði, eða aðrir tilsvarandi ófyrirséðir atburðir trufla eða hafa truflað rekstur og nauðsyn er að halda uppi þjónustu eða framleiðslu, enda fái starfsmaður samsvarandi hvíldartíma síðar og eins fljótt og við verður komið.
     
     f. (55. gr.)
     Hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.
     Heimilt er með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að reikna hámarksvinnutíma starfsmanna út frá viðmiðunartímabili sem má vera allt að sex mánuðir.
     Ef fyrir liggja hlutlægar eða tæknilegar ástæður eða vegna sérstaks eðlis hlutaðeigandi starfa er samtökum aðila vinnumarkaðarins heimilt að ákveða með samningum að hámarksvinnutími starfsmanna skuli reiknaður út frá viðmiðunartímabili sem er allt að 12 mánuðir, að gættum meginreglum laga þessara um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna.
     Einungis vinnutími, sbr. 1. tölul. 52. gr., skal talinn við meðaltalsútreikninga skv. 1.–3. mgr. Árlegt launað lágmarksorlof samkvæmt lögum og veikindaforföll skulu ekki talin með við meðaltalsútreikningana.
     
     g. (56. gr.)
     Vinnutími næturvinnustarfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
     Heimilt er með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að lengja vinnutíma næturvinnustarfsmanna þannig að hann verði að jafnaði allt að 48 vinnustundir á viku. Skal þá skipuleggja vinnuna þannig að vinnutíminn verði sem reglulegastur.
     Um viðmiðunartímabil og viðmið við útreikning á meðalvinnutíma næturvinnustarfsmanna fer skv. 55. gr.
     Næturvinnustarfsmenn sem gegna sérstaklega áhættusömum störfum eða störfum sem fela í sér mikið líkamlegt eða andlegt álag skulu ekki vinna lengur en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
     Félagsmálaráðherra skal setja reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um hvað teljist sérstaklega áhættusöm störf eða störf sem fela í sér mikið líkamlegt eða andlegt álag, sbr. 4. mgr.
     
     h. (57. gr.)
     Næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.
     
     i. (58. gr.)
     Atvinnurekendum er skylt að láta Vinnueftirliti ríkisins í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara um vinnutíma, þar með taldar upplýsingar um fjölda næturvinnustarfsmanna og vinnutíma þeirra.

20. gr.

     Við 1. mgr. 62. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu að því undanskildu að ungmennin starfi með fullorðnum.

21. gr.

     Í stað orðanna „að fengnum tillögum“ í 63. gr. f laganna kemur: að fenginni umsögn.

22. gr.

     65. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. Hafa skal samráð við fulltrúa starfsmanna, sbr. II. kafla.
     Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Skal áætlunin vera aðgengileg hjá atvinnurekanda fyrir stjórnendur þess, starfsmenn og Vinnueftirlit ríkisins.
     Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þegar breytingar á vinnuumhverfi breyta forsendum hennar.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um skipulag eftirlitsins.

23. gr.

     Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, svohljóðandi:
     Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.
     Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um áhættumat að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar á meðal um áhættumat fyrir sérstaka áhættuþætti og gerð og frágang skjala sem tengjast því.

24. gr.

     66. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65. gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.
     Markmið heilsuverndar er að:
 1. stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
 2. stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
 3. draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
 4. stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

     Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Skal leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um heilsuvernd, þar á meðal um heilsuvernd sem tekur mið af sérstökum áhættuþáttum, forvarnir með hliðsjón af eðli starfa, stærð vinnustaða og gerð og frágang skjala sem tengjast áætlun um heilsuvernd.

25. gr.

     Á eftir 66. gr. laganna kemur ný grein, 66. gr. a, svohljóðandi:
     Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Skal atvinnurekandi upplýsa þjónustuaðila um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna. Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu slíkra aðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.
     Þjónustuaðili skal hljóta viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins áður en hann hefur starfsemi. Vinnueftirlit ríkisins skal viðurkenna þjónustuaðila sem uppfylla skilyrði ákvæðis þessa og reglugerðar sem sett er skv. 6. mgr. Fullnægi þjónustuaðili ekki settum skilyrðum síðar er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að afturkalla viðurkenninguna í heild eða að hluta þannig að hún takmarkist við ákveðna tegund starfsemi.
     Þjónustuaðili sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skal hafa aðgang að sérfræðingum sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt að hafi fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Að öðrum kosti er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að takmarka viðurkenningu skv. 2. mgr. við ákveðna tegund starfsemi.
     Þjónustuaðila er heimilt að gera samninga við aðra aðila um einstaka þætti vegna þjónustu skv. 3. mgr. Skulu þeir aðilar uppfylla skilyrði þau sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins. Samningar þessir skulu liggja fyrir þegar óskað er eftir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins skv. 2. mgr.
     Þjónustuaðili skal gæta trúnaðar í starfi sínu. Hann skal fara með allar upplýsingar sem hann kemst að í starfi sínu og varða persónuleg málefni og einkahagi starfsmanna sem trúnaðarmál. Sama gildir um upplýsingar er tengjast fyrirtækjum er hann starfar fyrir.
     Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um nánari skilyrði sem þjónustuaðilar skulu fullnægja áður en þeir hefja starfsemi sína og um þá hæfni sem starfsmenn atvinnurekanda er sinna öryggi og heilbrigði á vinnustað skulu fullnægja.

26. gr.

     67. gr. laganna orðast svo:
     Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.
     Í reglum sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og landlæknis, skal nánar kveðið á um í hverju heilsufarsskoðun skuli fólgin, tíðni eftirlits og hvaða mælingar og aðrar rannsóknir skuli gerðar að teknu tilliti til starfsumhverfis. Heimilt er að setja slíkar reglur fyrir einstakar starfsgreinar.

27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Vinnueftirlit ríkisins skal hafa í þjónustu sinni lækni sem hefur sérþekkingu er tengist starfinu.
 3. Í stað orðsins „stjórnar“ í d-lið 2. mgr. kemur: forstjóra.


28. gr.

     Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett sérstakar reglur“ í 70. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra getur sett sérstakar reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

29. gr.

     Í stað orðanna „skal stjórn Vinnueftirlits“ í 72. gr. laganna kemur: skal Vinnueftirlit ríkisins.

30. gr.

     Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.

31. gr.

     73. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

32. gr.

     74. gr. laganna orðast svo:
     Vinnueftirlit ríkisins heyrir undir yfirstjórn félagsmálaráðherra og annast stjórnsýslu og eftirlit á því sviði er lögin ná til.
     Félagsmálaráðherra skipar forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til fimm ára í senn. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á henni.
     Kostnaður af starfsemi stofnunarinnar skal greiðast með hlutdeild í tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, og af öðrum tekjum stofnunarinnar.
     Vinnueftirlit ríkisins innheimtir gjöld fyrir þrýstiraunir, gas- og súrefnismælingar í lokuðum rýmum, mælingar á hávaða, titringi, mengun í andrúmslofti, lýsingu vinnurýmis og inniloftsþáttum, skoðun á leiktækjum og verkpöllum, átaksprófanir, námskeið og próf, útgáfu skírteina og leyfa og útgáfu- og fræðsluefni samkvæmt gjaldskrá sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

33. gr.

     75. gr. laganna orðast svo:
     Verkefni sem Vinnueftirliti ríkisins er ætlað að annast eru meðal annars að:
 1. hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara,
 2. veita stofnunum, fyrirtækjum, félögum og starfsmönnum ráðgjöf,
 3. veita þeim starfsmönnum er starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., leiðbeiningar í störfum þeirra,
 4. afla og viðhalda þekkingu á tæknilegri og félagslegri þróun í þeim tilgangi að stuðla að því að efla öryggi og bæta hollustuhætti í starfsumhverfi,
 5. fjalla um öryggisþætti í áætlunum um vinnslu- og framleiðsluaðferðir, vinnustaði og tækni- og tækjabúnað,
 6. veita fræðslu og upplýsingar varðandi hættur á vinnustöðum, svo sem um nýja tækni og þekkingu sem stuðlað getur að umbótum á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum,
 7. stuðla að forvörnum og heilsuvernd á vinnustöðum,
 8. vinna að rannsóknum á sviði vinnuverndar,
 9. sjá um að haldin sé skrá yfir hvers konar sjúkdóma, andlega sem líkamlega, sem ætla má að eigi orsakir í starfsumhverfi, tíðni þeirra og útbreiðslu,
 10. sjá um að haldin sé skrá yfir tíðni vinnuslysa eftir starfsgreinum,
 11. annast markaðsgæslu og markaðseftirlit með vélum, tækjum og búnaði sem falla undir lög þessi,
 12. vinna önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.


34. gr.

     76. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra skipar stjórn Vinnueftirlits ríkisins til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, tvo stjórnarmenn tilnefnda af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tvo tilnefnda af Samtökum atvinnulífsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ráðherra á faglegri stefnumótun Vinnueftirlits ríkisins og er félagsmálaráðherra og forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til ráðgjafar í málum er tengjast bættum aðbúnaði, öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Stjórnin skal gera tillögur til ráðherra um úrbætur á sviði vinnuverndar, þar á meðal um hvort þörf er á lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Ráðherra og forstjóri skulu leita umsagnar stjórnarinnar við undirbúning að setningu laga, reglugerða og annarra reglna um mál er heyra undir lög þessi.

35. gr.

     77. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra er heimilt að skipa vinnuverndarráð einstakra starfsgreina, að fenginni rökstuddri tillögu stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í því skyni að vinna að tillögum um úrbætur í málum er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum innan viðkomandi starfsgreinar.
     Samtök aðila vinnumarkaðarins innan tiltekinnar starfsgreinar tilnefna hvert sinn fulltrúa í ráðið og velja þeir sér sjálfir formann og varaformann. Félagsmálaráðherra ákveður skipunartíma sérhvers ráðs sem þó skal aldrei vara lengur en fjögur ár í senn. Vinnuverndarráð starfsgreina skulu senda tillögur sínar til stjórnar Vinnueftirlits ríkisins sem fjallar sérstaklega um þær og veitir félagsmálaráðherra umsögn um þær.
     Kostnaður af starfsemi vinnuverndarráða starfsgreina skal greiðast af tekjum Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 3. mgr. 74. gr.

36. gr.

     78. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnurekandi skal skrá öll slys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Hið sama gildir um þá sjúkdóma sem atvinnurekandi hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Einnig skal atvinnurekandi skrá óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum og eru til þess fallin að valda slysum.
     Vinnueftirlit ríkisins, þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu hafa aðgang að skránni.
     Atvinnurekandi og þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu fara með persónuupplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skráningu slysa, óhappa og sjúkdóma.

37. gr.

     79. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.
     Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
     Læknir, sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins.
     Tryggingastofnun ríkisins skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af tilkynningum um slys á vinnustöðum sem henni berast.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um tilkynningu slysa að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

38. gr.

     80. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Skal atvinnurekandi veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hefur verið til eftir því sem frekast er unnt.
     Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
     Atvinnurekandi skal upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.
     Vinnueftirlit ríkisins skal tilkynna Umhverfisstofnun um tilvik þar sem hætta er á að mengunin dreifist út fyrir vinnustaðinn.

39. gr.

     81. gr. laganna orðast svo:
     Vinnueftirlit ríkisins skal rannsaka orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um skv. 79. og 80. gr. í þeim tilgangi að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum.
     Þegar Vinnueftirliti ríkisins hefur borist tilkynning skulu starfsmenn þess fara á staðinn án ástæðulauss dráttar til að hefja vettvangskönnun. Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað umfram það sem nauðsynlegt er vegna björgunaraðgerða áður en vettvangskönnun hefur farið fram. Telji Vinnueftirlitið ekki þörf á sérstakri vettvangskönnun skal það tilkynna atvinnurekanda þar um án ástæðulauss dráttar.

40. gr.

     82. gr. laganna orðast svo:
     Vinnueftirlit ríkisins skal fylgjast með að atvinnurekendur, er lög þessi taka til, stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína í starfi. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu fara í eftirlitsheimsóknir inn í fyrirtækin til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og skal þeim veittur aðgangur að vinnustöðvum þeirra í þeim tilgangi. Skulu þeir enn fremur sinna markaðsgæslu og markaðseftirliti í eftirlitsheimsóknum sínum. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu sýna skilríki um starf sitt.
     Í eftirlitsheimsóknum skulu starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans og þá aðila sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og skulu þeir gefa allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við eftirlitið. Enn fremur er starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins heimilt að krefja aðra starfsmenn sem eru í vinnu eða hafa verið í vinnu einhvern tíma síðustu þrjá mánuði um sömu upplýsingar.
     Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum sem eiga að vera fyrir hendi innan fyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
     Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt gerist nauðsynlegt.
     Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu halda skrá yfir eftirlitsheimsóknir sínar samkvæmt ákvæði þessu þar sem skráðar eru athugasemdir þeirra, bönn Vinnueftirlits ríkisins og önnur fyrirmæli og tilkynningar er varða vinnuskilyrði. Skal atvinnurekanda afhent afrit af þeim hluta skrárinnar er viðkemur starfsemi hans.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um framkvæmd eftirlitsins. Enn fremur getur félagsmálaráðherra ákveðið að tiltekin eftirlitsverkefni Vinnueftirlits ríkisins verði falin annarri opinberri stofnun eða faggiltum skoðunarstofum.

41. gr.

     Í stað 2. mgr. 86. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
     Atvinnurekanda ber jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf.
     Aðgerðir skv. 1. eða 2. mgr. gera þá aðila sem þar greinir ekki ábyrga fyrir því tjóni sem fyrirtækið kann að verða fyrir vegna stöðvunar eða fráhvarfa starfsmanna af vinnustað þar sem hið bráða hættuástand var talið ríkja og er óheimilt að láta þá gjalda fyrir ákvörðun sína á nokkurn hátt.

42. gr.

     87. gr. laganna orðast svo:
     Ef ákvæði laga þessara, eða reglna sem settar eru með stoð í þeim, eru brotin og ekki er farið eftir ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins á grundvelli þeirra getur stofnunin ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðun beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
     Dagsektir mega nema allt að 100.000 krónum á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal meðal annars taka tillit til þess hve aðkallandi umbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
     Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.
     Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um beitingu dagsekta til félagsmálaráðuneytis innan fjórtán daga frá því honum var tilkynnt um ákvörðunina. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra barst til úrskurðar.
     Ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til félagsmálaráðuneytis frestar aðför.

43. gr.

     88. gr. laganna fellur brott.

44. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 93. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „reglum, sem Vinnueftirlit ríkisins setur, eða eftir fyrirmælum forstjóra stofnunarinnar“ í 1. mgr. kemur: fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.
 2. 2. mgr. fellur brott.


45. gr.

     Í stað orðanna „og í samræmi við tillögur, fyrirmæli eða úrskurði forstjóra eða stjórnar Vinnueftirlits ríkisins“ í 94. gr. laganna kemur: gildandi reglum og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.

46. gr.

     Orðin „eða stjórnar“ í 2. mgr. 96. gr. laganna falla brott.

47. gr.

     XIV. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Kæruheimild, orðast svo:
     
     (98. gr.)
     Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins til félagsmálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
     Félagsmálaráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
     Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

48. gr.

     Lög þessi eru meðal annars sett til innleiðingar á tilskipun nr. 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sem vísað er til í 8. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun nr. 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, sem vísað er til í 28. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 42/96, og tilskipun nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna, sem vísað er til í 29. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 43/96.

49. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Félagsmálaráðherra skal skipa nýja stjórn Vinnueftirlits ríkisins innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara og fellur þá niður umboð fyrri stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Hin nýja stjórn tekur við verkefnum fráfarandi stjórnar sem lúta að faglegri stefnumótun Vinnueftirlits ríkisins en stofnunin tekur við öðrum verkefnum hennar.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2003.